Margrét Bárðardóttir fæddist í Vestmannaeyjum 30. apríl 1957. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 17. ágúst síðastliðinn og fór útför hennar fram í kyrrþey 23. ágúst.

Við kynntumst Möggu og Bjarna þegar sonur þeirra Ágúst Elvar kom inn í fjölskyldu okkar fyrir um það bil sex árum, þar sem hann og dóttir okkar Hildur María búa saman. Það ríkti ávallt góður andi í kring um Möggu. Hún var einlæg, hjálpsöm og hjartahlý. Hún hefur reynst dóttur okkar mjög vel og þau hjónin tekið henni opnum örmum inn i fjölskyldu sína. Við minnumst Möggu með miklum hlýhug og söknuði þegar við hugsum um þær stundir sem við áttum saman með þeim hjónum. Allar heimsóknirnar á heimili þeirra þar sem alltaf ríkti kátína og gleði. Þessar heimsóknir voru ávallt endurgoldnar með því að þau kíktu til okkar. Við áttum yndislega páska saman á Spáni nú í ár sem er okkur mjög kær í minningunni. Magga var þá mjög hress og bjartsýn. Einnig minnumst við ferðar okkar til Kaupmannahafnar í fyrra sem var alveg frábær. Þar sem við hjónin komum óvænt með í ferðina, börnum okkar, sem búa í Kaupmannahöfn, til mikillar undrunar. Við eldra fólkið bjuggum þar á lúxushóteli í Kaupmannahöfn sem Bjarni valdi. Þar nutum við þess að láta dekra við okkur. En Áskell og Þóra fengu að búa hjá Ágústi og Hildi. Magga hafði sterkan persónuleika sem einkenndist af trausti, ástúð og virðuleika, hún var trygg og trú sínum. Við minnumst Möggu með miklum söknuði, og þökkum fyrir að hafa fengið að kynnast henni.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Kæri Bjarni, Áskell og Þóra, Ágúst Elvar og Hildur María, foreldrar Möggu, systkini og fjölskyldur ykkar allra, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Í huga okkar mun minningin um Möggu ávallt vera til staðar sem dýrmæt perla.

Valgarð og Kristín.

Það var stuttu eftir að við hjónin keyptum húsnæðið að Hjallabraut 12 í Þorlákshöfn að þau Magga og Bjarni keyptu á Skálholtsbrautinni og urðu þar með nágrannar okkar. Fljótlega varð góður vinskapur við þau og leiðin á milli húsanna fékk heitið "Smugan". Nokkrum árum síðar kom Magga til starfa við Grunnskólann í Þorlákshöfn og hóf þar störf sem leiðbeinandi en hún var lærður leikskólakennari og starfaði áður við Leikskólann Bergheima.

Starfið heillaði Möggu og átti einstaklega vel við hana. Hún átti auðvelt með að vinna með börnunum, var í senn blíð og ákveðin. Öll hennar vinna einkenndist af áhuga, vilja til að gera vel og hún var vel skipulögð í öllu sem hún gerði. Enda fór það svo að hún ákvað að mennta sig meira og taka kennarapróf. Hún byrjaði því í fjarnámi sem hún stundaði af kappi og kláraði með sóma. Haustið eftir að hún hafði lokið sínu réttindanámi og var að byrja sem umsjónarkennari með nýjan bekk, full af spenningi og áhuga, veiktist hún og gat ekki hafið störf fyrr en síðar á skólaárinu. Magga kom aftur til starfa eftir að árangur hafði náðst í meðferðinni og var hún, svo og við öll full bjartsýni á að henni hefði tekist að sigrast á sjúkdómnum. Því miður tóku veikindin sig upp á ný og ekkert varð við ráðið. Við, starfsmennirnir í skólanum svo og nemendur, söknum hennar öll.

Eins og ég gat um var Magga ekki bara góður samstarfsmaður heldur voru hún og Bjarni miklir og góðir vinir okkar hjóna. Við vorum ásamt öðru góðu fólki saman í ferðahópi, fórum í margar góðar ferðir og áttum ógleymanlegar samverustundir bæði hér á landi og erlendis. Sérstaklega verður ljúft að minnast ferðar okkar til Þýskalands og Austurríkis árið 2003.

Við Magga vorum líka saman í makakór Söngfélags Þorlákshafnar en ekki er lengra síðan en í maí sl. að hún stóð fyrir skemmtiatriði kórsins í Vík, þá miklu veikari en kórfélagar beggja kóra gerðu sér grein fyrir. Hún vildi ekki láta bera á veikindum sínum, beit á jaxlinn og tók þátt í fjörinu.

Það er svo margs að minnast sem ekki verður nefnt hér en hve oft var ekki setið á pallinum hjá okkur Ester eða heima hjá Möggu og Bjarna á fallegum sumardögum og heimsmálin rædd. Ekki verður síður notalegt að orna sér við minningarnar frá síðkvöldum yfir vetrarmánuðina þar sem setið var fyrir framan arineld heima í stofu hjá þeim hjónum og við þáðum veitingar og spáðum í spilin. Áfram munum við sitja saman þótt Magga sé ekki lengur meðal okkar. Það er stórt skarð komið í vinahópinn en því meira þurfum við að hlúa hvert að öðru, halda áfram að vera þétt saman og heiðra minningu Möggu á allan þann hátt sem við vitum að hún hefði viljað. Þó að skarðið sé stórt hjá okkur vinum hennar þá er skarðið sem hún skilur eftir sig hjá fjölskyldu sinni miklu stærra. Möggu er sárt saknað en eins og svo oft er sagt, hennar hefur beðið hlutverk á öðrum stað og við sem þekktum hana vitum að það er stórt hlutverk sem hún tekur að sér.

Elsku Bjarni, Ágúst, Áskell og fjölskylda, við fjölskyldan á Hjallabrautinni sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður Guð lýsa ykkur veginn á þessum erfiðu tímum sem framundan eru.

Halldór Sigurðsson.

Okkar kæra vinkona Margrét Bárðardóttir kvaddi þennan heim 17. ágúst sl., langt fyrir aldur fram. Fyrir tæpum tíu árum varð fyrir tilviljun til hópur sex hjóna sem síðan hefur margt brallað saman í gegnum tíðina. Nú hefur verið höggvið stórt skarð í hópinn. Markmið okkar er að ferðast saman innanlands sem utan og njóta lífsins. Eitt sinn fórum við í leyniferð sem karlarnir skipulögðu og var einn karlanna bílstjóri í kvennabílnum. Ferðin tók langan tíma þar sem margt óvænt gerðist á leiðinni. Þar sýndi Magga enn og sannaði hvað hún var skemmtilegur félagi og vinur.

Þegar til stóð að koma eiginmönnunum á óvart átti Magga oft alveg snilldarhugmyndir sem konurnar skemmtu sér konunglega við að skipuleggja og ekki síður framkvæma.

Árið 2001 veiktist Magga af þeim sjúkdómi sem síðan dró hana til dauða. Þrátt fyrir veikindi sín átti hún góðar stundir inn á milli. Á einu slíku tímabili fórum við félagarnir saman til Austurríkis og þar var Magga hrókur alls fagnaðar og lék á als oddi. Í þessari ferð kom styrkur og dugnaður Möggu glögglega í ljós og bar hún veikindi sín ekki á torg fremur en venjulega.

Elsku Bjarni, Ágúst Elvar, Hildur, Áskell Fannar, Þóra og fjölskyldur, ykkar missir er mikill en minningin um yndislega konu lifir með okkur öllum.

Pekka-hópurinn.