SÆNSKA stjórnin stefnir að því, að árið 2012 verði allir nýir bílar með búnað, sem kemur í veg fyrir, að drukkinn maður geti ekið þeim.

SÆNSKA stjórnin stefnir að því, að árið 2012 verði allir nýir bílar með búnað, sem kemur í veg fyrir, að drukkinn maður geti ekið þeim.

Ulrica Messing, samgönguráðherra Svíþjóðar, skýrði frá þessu í grein, sem hún skrifaði í Göteborgs-Posten , en þar kemur fram, að ætlunin sé að setja búnaðinn í strætisvagna og aðra stóra bíla nokkru fyrr.

Búnaðurinn er mjög einfaldur og kemur í veg fyrir, að unnt sé að ræsa bílvélina ef áfengismagn í andardrætti ökumanns er of mikið. Messing sagði, að á hverjum einasta degi ækju um 15.000 Svíar bíl undir áhrifum.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði í viðtali við Morgunblaðið, að á fundi samgönguráðherra Norðurlanda í Vejle fyrr í vikunni hefði þetta mál verið til umræðu og einnig annar búnaður, sem varar ökumenn við, fari þeir of hratt. Sagði hann engar ákvarðanir hafa verið teknar hér en mikilvægt væri að fylgjast vel með og vera samferða hinum Norðurlandaþjóðunum í þessum efnum. | 4