Syrgjandi vinir og ættingjar eins þeirra sem fórust í troðningnum í Bagdad bera líkkistu hans.
Syrgjandi vinir og ættingjar eins þeirra sem fórust í troðningnum í Bagdad bera líkkistu hans.
Bagdad. AP, AFP. | Stjórn Íraks sætti í gær vaxandi gagnrýni vegna troðningsins sem kostaði nær þúsund manns lífið í Bagdad í fyrradag þegar rúm milljón sjíta tók þátt í trúarhátíð í borginni.

Bagdad. AP, AFP. | Stjórn Íraks sætti í gær vaxandi gagnrýni vegna troðningsins sem kostaði nær þúsund manns lífið í Bagdad í fyrradag þegar rúm milljón sjíta tók þátt í trúarhátíð í borginni. Nokkrir þeirra sem fórust voru bornir til grafar í gær og þúsundir manna voru við útfarirnar.

Embættismenn í íraska innanríkisráðuneytinu sögðu að 965 manns hefðu látið lífið í troðningnum. Um 815 manns slösuðust og 200 þeirra voru enn á sjúkrahúsi í gær.

Nokkrar pólitískar hreyfingar í Írak sökuðu stuðningsmenn Saddams Husseins, fyrrverandi forseta, og trúarofstækismenn úr röðum súnníta um að hafa valdið troðningnum með því að koma af stað orðrómi um yfirvofandi hryðjuverk og valda þannig ofsahræðslu á trúarhátíð sjíta.

Ibrahim Jaafari, forsætisráðherra Íraks, fyrirskipaði rannsókn á tildrögum troðningsins. Hann sagði að ríkið myndi greiða fjölskyldum þeirra sem létu lífið bætur að andvirði þriggja milljóna dínara, 126.000 króna, á hvern mann sem fórst.

Ráðherrar fari frá

Nokkrir þingmenn úr röðum sjíta kröfðust þess að ráðherrum innanríkis- og varnarmála yrði vikið frá fyrir að hafa ekki tryggt öryggi fólksins á trúarhátíðinni.

"Þetta er afleiðing ófullnægjandi frammistöðu innanríkis- og varnarmálaráðherranna og hún stuðlaði að þessu mikla manntjóni," sagði þingmaðurinn Baha al-Aaraji, sem tengist Muqtada al-Sadr, róttækum klerki sjíta. "Þeir ættu að koma fyrir þingið til yfirheyrslu. Ef sannað verður að þeir hafi ekki uppfyllt skyldu sína ættu þeir að víkja og koma fyrir rétt."

Jalal Talabani, forseti Íraks, sem er Kúrdi, sagði að stjórnin ætti að fyrirskipa "heiðarlega rannsókn til að ganga úr skugga um hvernig brotalamir tvöfölduðu manntjónið".

Heilbrigðisráðherra Íraks, Abdul Mutalib Mohammad Ali, hvatti ráðherra innanríkis- og varnarmála til að segja af sér fyrir að hafa ekki gert nægar ráðstafanir til að vernda mannfjöldann. Jaafari forsætisráðherra hafnaði þessari kröfu í gær og sagði að ráðherrarnir hefðu gert allt sem á valdi þeirra stæði til að tryggja öryggi fólksins. Hann gagnrýndi einnig Ali fyrir að veitast opinberlega að ráðherrunum.

Lýst var yfir þriggja daga þjóðarsorg í landinu vegna harmleiksins. Leiðtogar sjíta, þeirra á meðal Ali al-Sistani erkiklerkur, hafa hvatt þá til að sýna stillingu þar sem þeir óttast að harmleikurinn leiði til frekara ofbeldis.