ÍSLENDINGAR eru fjölmennasti hópur útlendinga í þýsku 1. deildinni í handknattleik en keppni hefst í kvöld. Alls leika fimmtán íslenskir handknattleiksmenn með liðum í deildinni.

ÍSLENDINGAR eru fjölmennasti hópur útlendinga í þýsku 1. deildinni í handknattleik en keppni hefst í kvöld. Alls leika fimmtán íslenskir handknattleiksmenn með liðum í deildinni. Vekur þetta mikla athygli á meðal handknattleiksáhugamanna í Þýskalandi sem segja að í ljós hafi komið að hið litla Ísland sé alls ekki svo smátt þegar á hólminn er komið. Næst á eftir Íslendingum koma Svíar með 13 leikmenn, Tékkarnir eru 12, Pólverjarnir eru 11, þá koma Serbar og Danir með tíu leikmenn hvor þjóð.

Alls eru 128 útlendingar á mála hjá liðunum átján í þýsku 1. deildinni af 23 þjóðerni og hafa aldrei verið fleiri. Flestir voru þeir áður 115 leiktíðina 1999-2000.

Íslensku leikmennir eru: Magdeburg: Arnór Atlason og Sigfús Sigurðsson. Lemgo: Ásgeir Örn Hallgrímsson, Logi Geirsson. Gummersbach: Guðjón Valur Sigurðsson, Róbert Gunnarsson. Göppingen: Jaliesky Garcia. N-Lübbecke: Þórir Ólafsson. Wilhelmshavener: Gylfi Gylfason. Grosswallstadt: Alexander Petersson, Einar Hólmgeirsson. Wetzlar: Róbert Sighvatsson. Düsseldorf: Markús Máni Michaelsson. GWD Minden: Snorri Steinn Guðjónsson. Kronau/Östringen: Gunnar Berg Viktorsson. Þá er ógetið um einn íslenskan þjálfara, Alfreð Gíslason hjá Magdeburg sem verður sextándi Íslendingurinn sem lætur að sér kveða í deildinni þegar flautað verður til leiks.

Athygli vekur að af sextán leikmönnum Flensburg er aðeins einn Þjóðverji, Jan Holpert, hinn 37 ára gamli fyrrverandi landsliðsmarkvörður.