Manneklan í opinberum stofnunum og einkareknum þjónustufyrirtækjum víða um bæinn segir til sín með ýmsum hætti.

Manneklan í opinberum stofnunum og einkareknum þjónustufyrirtækjum víða um bæinn segir til sín með ýmsum hætti. Fólk er í stökustu vandræðum með pössun af því að börnin fá ekki inni á frístundaheimilum í skólum borgarinnar, það er beðið að koma með börnin sín seinna í nýja leikskólann en áformað var o.s.frv. Margir foreldrar eru orðnir úttaugaðir á þessu ástandi; að dagvistun, sem þeir stóluðu á, stendur einfaldlega ekki til boða. Ekki getur þetta verið gott fyrir borgaryfirvöld, nú þegar kosningavetur fer í hönd. Hvað ætla þau að gera til að tryggja fólki þá þjónustu sem það borgar fyrir - og á jafnvel bráðlega að fá ókeypis, eins og leikskólaplássin?

Það vekur athygli Víkverja að þeir kunningjar hans, sem eiga börn í einkareknum skólum og leikskólum, kvarta ekki undan því að ekki sé hægt að taka við börnunum vegna manneklu. Ætli það sé staðreynd að einkaframtakið greiði bara hærri laun en opinberu stofnanirnar? Verðum við þá ekki að draga einhverjar ályktanir af því?

Verslanir virðast a.m.k. geta borgað betur en leikskólar. Leikskólastjóri segir í Morgunblaðinu í gær að mjög hæfir einstaklingar, sem hafi sótt um störf á leikskóla, hafi hætt við vegna launanna. Betur launuð störf bjóðist annars staðar. "Fólk getur bara ekki leyft sér þann munað að vinna þessa vinnu sem gefur því þó svo mikið," segir leikskólastjórinn.

Við þetta rifjaðist upp fyrir Víkverja það sem annar leikskólastjóri sagði við hann þegar ástandið á vinnumarkaðnum bar á góma: "Ég þori varla að leyfa starfsfólkinu að fara út í sjoppu. Það er hætta á að það komi aldrei aftur af því að því hafi verið boðin betur launuð vinna í sjoppunni."

Þegar það er orðin raunin er eitthvað mikið að.