Steinunn Valdís Óskarsdóttir sat foreldrafund í leikskólanum Grandaborg í gær og kynnti þar tillögur sínar.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir sat foreldrafund í leikskólanum Grandaborg í gær og kynnti þar tillögur sínar. — Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is BORGARSTJÓRI ætlar að leggja til að aukið fé verði veitt til yfirvinnu og álagsgreiðslna fyrir starfsfólk á leikskólum og tómstundaheimilum, og vill fela samninganefnd að skrifa undir nýja kjarasamninga fyrir 1.
Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is

BORGARSTJÓRI ætlar að leggja til að aukið fé verði veitt til yfirvinnu og álagsgreiðslna fyrir starfsfólk á leikskólum og tómstundaheimilum, og vill fela samninganefnd að skrifa undir nýja kjarasamninga fyrir 1. október, en þeir eru lausir í lok nóvember.

Með þessu segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri að megi bregðast við ófremdarástandi í leikskólum og tómstundaheimilum borgarinnar, þar sem vantar enn fjölda starfsmanna. Talið er að um 100 starfsmenn vanti á leikskóla borgarinnar, og tæplega 500 börn eru á biðlista eftir að komast á tómstundaheimili.

Hún segir að kostnaðurinn við auknar yfirvinnu- og álagsgreiðslur verði trúlega á bilinu 20-50 milljónir króna, eftir því hvenær nýir samningar náist. "Flestir aðrir aðilar á vinnumarkaði luku gerð kjarasamninga í vor, sem hefur fært starfsmönnum þeirra kjarabætur umfram það sem starfsmenn borgarinnar hafa haft. Þess vegna hefur bilið breikkað. Ég vil flýta samningaviðræðum svo það sé hægt að bæta kjör þessa fólks sem fyrst," segir Steinunn.

Þarf að hækka launin

Of snemmt er að segja til um hverjar kröfur Eflingar verða í komandi kjarasamningalotu við borgaryfirvöld, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar. Hann segir þó ljóst að laun þurfi að hækka verulega til að samningar náist.

"Borgarstjórinn er að leggja fram þetta útspil núna, og kjarasamningar verða lausir í lok nóvember, og því erum við ekki á þessari stundu tilbúin til að svara til um okkar kröfugerð," segir Sigurður, sem segir að nú verði farið í að móta þær kröfur.

Er Sigurður er spurður hvort það séu raunhæf markmið að ná samningum á innan við mánuði segir hann það verða að koma í ljós. "Menn eru ekkert farnir að hittast, þetta er útspil frá borgarstjóra og við munum skoða það hvort það sé raunhæft að ná því á þessum tíma, það verður vinnan að leiða í ljós."