Hreiðar Már Sigurðsson
Hreiðar Már Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
INGÓLFUR Helgason hefur verið ráðinn forstjóri yfir starfsemi Kaupþings banka á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum.

INGÓLFUR Helgason hefur verið ráðinn forstjóri yfir starfsemi Kaupþings banka á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum. Þar segir að hann muni heyra beint undir Hreiðar Má Sigurðsson, forstjóra Kaupþings banka, sem muni nú einbeita sér alfarið að rekstri Kaupþings banka-samstæðunnar.

Fylgir eftir útrás og vexti

Hreiðar Már Sigurðsson sem nú er orðinn forstjóri Kaupþings Banka-samstæðunnar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að ástæður þeirrar skipulagsbreytingar sem nú hefði tekið gildi hjá bankanum væru m.a. þær að hann myndi fylgja eftir útrás og vexti allra banka samstæðunnar, bæði á Íslandi, Danmörku, í Svíþjóð og í Bretlandi. "Ég verð með mína starfsaðstöðu hér á Íslandi, enda eru höfuðstöðvar KB banka hér á landi. Hitt er svo aftur staðreynd, að vegna starfsemi annarra banka samstæðunnar þarf ég að vera mikið á ferð og flugi og því verður sérstakur bankastjóri yfir KB banka á Íslandi, rétt eins og yfir öðrum bönkum samstæðunnar í öðrum löndum," sagði Hreiðar Már. "Við erum að þessu til þess að ég geti fylgt betur eftir vexti bankans í öðrum löndum og jafnframt sinnt Íslandi enn betur en hingað til."

"Þetta leggst auðvitað ljómandi vel í mig," segir Ingólfur Helgason. "Ég byrjaði hjá Kaupþingi 1993 og hef starfað hér síðan og síðan 1997 í framkvæmdastjórn bankans og verið með markaðsviðskiptin en það er eitt af stærri tekjusviðunum. Þessi breyting felur það í sér að verið er að gera Íslandi jafnhátt undir höfði og öðrum starfsstöðvum. Þetta er fyrst og fremst aðgerð sem gerir skipulag samstæðunnar einsleitara."

Í tilkynningunni segir einnig, að ákveðið hafi verið að ráða framkvæmdastjóra á samstæðugrundvelli á Fjármálasviði, í Áhættustýringu og á Upplýsinga- og tæknisviði. Samhliða þessum breytingum hafa verið ráðnir fjórir nýir framkvæmdastjórar.

Guðný Arna Sveinsdóttir, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Fjármálasviðs en hún gegndi áður starfi framkvæmdastjóra Fjármálasviðs Kaupþings banka hf. á Íslandi.

Steingrímur Páll Kárason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Áhættustýringar Kaupþings banka samstæðunnar en hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri Áhættustýringar Kaupþings banka hf. á Íslandi.

Ásgrímur Skarphéðinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Upplýsinga- og tæknisviðs Kaupþings banka samstæðunnar en hann hefur á undanförnum árum stýrt samræmingu tölvukerfa dótturfélaga bankans.

Ingvar Vilhjálmsson tekur við starfi framkvæmdastjóra Markaðsviðskipta á Íslandi en hann var áður forstöðumaður hlutabréfamiðlunar.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hefur verið ráðinn í nýja stöðu framkvæmdastjóra Eigin viðskipta á Íslandi en hann var áður í stöðu forstöðumanns Eigin viðskipta. Eigin viðskipti heyrðu áður undir Markaðsviðskipti en verða nú sérstakt svið sem heyrir beint undir forstjóra Kaupþings banka á Íslandi.

Eggert Teitsson, sem áður gegndi stöðu forstöðumanns á Fjármálasviði, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fjármálasviðs bankans á Íslandi.

Birgir Örn Arnarson, sem áður gegndi stöðu forstöðumanns rannsóknar- og þróunardeildar Áhættustýringar, hefur verið ráðinn Framkvæmdastjóri Áhættustýringar á Íslandi.