Hátíðargróðursetning í Esjuhlíðum í gær. F.v.: Alfreð Þorsteinsson, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, hjónin Páll Samúelsson, stjórnarformaður Toyotaumboðsins P. Samúelssonar hf., og Elín S. Jóhannesdóttir, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, Stefán P. Eggertsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, Sigurður Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóri, og Magnús Jóhannesson, formaður Skógræktarfélags Íslands.
Hátíðargróðursetning í Esjuhlíðum í gær. F.v.: Alfreð Þorsteinsson, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, hjónin Páll Samúelsson, stjórnarformaður Toyotaumboðsins P. Samúelssonar hf., og Elín S. Jóhannesdóttir, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, Stefán P. Eggertsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, Sigurður Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóri, og Magnús Jóhannesson, formaður Skógræktarfélags Íslands. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
HÁTÍÐARGRÓÐURSETNING fór fram í Esjuhlíðum í gær. Þar voru gróðursettar fyrstu trjáplönturnar úr höfðinglegri gjöf Páls Samúelssonar til Skógræktarfélags Íslands.

HÁTÍÐARGRÓÐURSETNING fór fram í Esjuhlíðum í gær. Þar voru gróðursettar fyrstu trjáplönturnar úr höfðinglegri gjöf Páls Samúelssonar til Skógræktarfélags Íslands. Páll gaf 35 þúsund trjáplöntur í tilefni þess að félagið fagnar 75 ára afmæli á þessu ári og Toyotaumboðið, P. Samúelsson hf., fagnar 35 ára afmæli.

Í samtali við Morgunblaðið sagðist Páll hafa gefið þúsund plöntur fyrir hvert starfsár fyrirtækis síns. Gjöfina tileinkaði hann Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, og Sigurði Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóra. Páll sagði að þau hefðu haft mikil áhrif á sig, varðandi skógrækt, eins og miklu fleiri. Nærri lætur að þessi gjöf nægi til að gróðursetja í 15 hektara lands í Esjuhlíðum.

Páll sagði að skógræktaráhugi sinn hefði vaknað fyrir nokkuð löngu, en hann sagði eiginkonu sína, Elínu S. Jóhannesdóttur, vera með mun "grænni fingur" og hún hefði verið sér hvatning á þessu sviði. Þau hefðu fengið land austur í Tungum fyrir 18-19 árum og byrjað að planta þar trjám.

Að skila hluta af ágóðanum

Þegar fyrirtækið P. Samúelsson hf. varð 20 ára gaf það, ásamt Toyota í Japan, 10 þúsund trjáplöntur til Skógræktarfélagsins. Þar með hófst samvinna Toyotaumboðsins og Skógræktarfélagsins. Umboðið hefur m.a. verið félaginu innan handar með útvegun bíla til starfseminnar og gaf það Skógræktarfélaginu bíl þegar félagið varð 70 ára.

"Þetta hefur verið ánægjuleg samvinna. Það hefur verið stefna fyrirtækis míns, allt frá upphafi, að þegar vel gengur þá sé það siðferðileg skylda okkar að skila hluta af þeim ágóða sem myndast aftur til þjóðfélagsins. Það kemur öllum vel að við styðjum skógræktina."