Kenneth Clarke
Kenneth Clarke
Brezki Íhaldsflokkurinn stendur frammi fyrir áhugaverðri spurningu. Vill flokkurinn vinna næstu kosningar eða lætur hann sér nægja að sitja í stjórnarandstöðu hátt á annan áratug?

Brezki Íhaldsflokkurinn stendur frammi fyrir áhugaverðri spurningu. Vill flokkurinn vinna næstu kosningar eða lætur hann sér nægja að sitja í stjórnarandstöðu hátt á annan áratug?

Margrét Thatcher tók við forystu flokksins á ákveðnum tímamótum, þegar arfleifð Richards Butlers, Harolds MacMillans, Edens og Douglas Home hafði gengið sér til húðar. Hún færði flokkinn til hægri og það átti við á þeim tíma bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum, þar sem Ronald Reagan gegndi sama hlutverki. Þau breyttu hinum engilsaxnesku samfélögum og voru mjög samtaka um það.

Arfleifð Thatcher dugði John Major en ekki eftirmönnum hans. Arfleifð Thatcher hefur nú gengið sér til húðar. Nú þarf nýjan takt og tón. Tony Blair kom með hann. Hann lagði undir sig miðjuna í brezkum stjórnmálum og þurfti ekki að hafa mikið fyrir því. Hinir íhaldssömu leiðtogar Íhaldsflokksins yfirgáfu hana einfaldlega svo að hún var munaðarlaus.

Til þess að vinna sigur í næstu þingkosningum í Bretlandi þarf Íhaldsflokkurinn að gera upp við sig hvaða afstöðu flokkurinn hefur til aðildar Breta að Evrópusambandinu, sem þeir bera ábyrgð á og leiddu Breta inn í og færa sig yfir á miðjuna.

Maðurinn til þess að gera þetta hvort tveggja er Kenneth Clarke, sem sækist nú eftir því að verða leiðtogi Íhaldsflokksins. Hann er forystumaður í anda Butlers og MacMillans og þess vegna Iain Macleod. Hann er líklegur til að beita sér fyrir þeirri hugmyndalegu endurnýjun Íhaldsflokksins, sem hann hefur tvisvar sinnum gengið í gegnum á síðustu 60 árum. Í fyrra skiptið eftir stríð undir forystu Butlers. Í seinna skiptið undir forystu Thatcher.

Velji Íhaldsflokkurinn sér nýjan leiðtoga úr hægri armi flokksins í kjölfarið á William Hague, Ian Duncan Smith og Michael Howard tapar flokkurinn næstu kosningum vegna þess að tíðarandinn hefur breytzt og kallar á annars konar forystu.