Guðjón Magnússon
Guðjón Magnússon
Guðjón Magnússon fjallar um skipulagsmál í Kópavogi: "Stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna fagnar þeim deiliskipulagstillögum sem bæjaryfirvöld hafa nú kynnt..."

NÝLEGA voru Kópavogsbúum kynntar breytingar á deiliskipulagi á Kópavogstúni, en skiptar skoðanir hafa verið um þær eins og jafnan er þegar ráðist er í framkvæmdir á grónum svæðum. Lúta hugmyndir bæjaryfirvalda að því að á svæðinu rísi um 1.100 manna byggð og ef marka má þær upplýsingar og myndefni sem kynnt hefur verið bæjarbúum verður eflaust mikil prýði að þessu nýja hverfi.

Sunnuhlíðarsamtökin hafa staðið fyrir öflugri uppbyggingu á hjúkrunarrými fyrir aldraða á þessu svæði og er því málið skylt. Sunnuhlíðarsamtökin voru stofnuð fyrir um aldarfjórðungi af ýmsum félagasamtökum í Kópavogi, sem höfðu líknar- og góðgerðarmál á stefnuskrá sinni. Þessi samtök settu sér það markmið að koma upp hjúkrunarheimili fyrir aldraða og mun það vera einsdæmi í sögunni að slíkt heimili sé byggt að tilhlutan og af slíkum samtökum. Svona samtök eru sennilega hvergi til nema í Kópavogi. Mikil samstaða hefur einnig verið um Sunnuhlíð meðal Kópavogsbúa, sem hafa alla tíð litið á hjúkrunarheimilið sem sitt og stutt það dyggilega.

Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð leysti á sínum tíma úr miklum vanda, sem hafði skapast í Kópavogi vegna skorts á hjúkrunarrými fyrir aldraða og hefur það verið ómetanlegt fyrir eldri Kópavogsbúa að hafa átt kost á að komast þar inn þegar kraftar hafa gefið sig og fólk átt erfitt með að sjá um sig sjálft. Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð er ekki sjúkrahús í venjulegum skilningi, heldur er það heimili fyrir aldraða, sem ekki geta eða eiga þess kost að sjá um sig sjálfir og þurfa því aðstoð.

Sunnuhlíðarsamtökin hafa einnig reist þrjú hús með 108 þjónustuíbúðum fyrir aldraða við Kópavogsbraut og í Fannborg 8. Mikil eftirspurn hefur verið eftir íbúðum samtakanna og eru vel á annað hundrað manns á lista eftir íbúð.

Stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna fagnar þeim deiliskipulagstillögum sem bæjaryfirvöld hafa nú kynnt og vísar á bug ummælum bæjarstjórans Gunnars Birgissonar sem birtust í Mbl. um að samtökin séu á móti þeim. Tillögurnar gera m.a. ráð fyrir að byggð verði ein hæð ofan á núverandi hjúkrunarheimili og einnig eru fyrirhugaðar nýbyggingar þjónustuíbúða fyrir aldraða á Sunnuhlíðarreitnum. Stækkun hjúkrunarheimilisins mun leysa úr brýnni og vaxandi þörf fyrir hjúkrunarrými aldraðra í bænum. Nú eru um 60 manns á biðlista eftir hjúkrunarrými í Sunnuhlíð. Nái framkomnar deiliskipulagstillögur fram að ganga mun greiðast úr vanda þessa fólks.

Höfundur er formaður Sunnuhlíðarsamtakanna.