Löng biðröð var hjá Atlantsolíu í gærkvöldi, en félagið hækkaði ekki verð á bensíni í gær. Félagið ætlar hins vegar að hækka um 4 kr. í dag.
Löng biðröð var hjá Atlantsolíu í gærkvöldi, en félagið hækkaði ekki verð á bensíni í gær. Félagið ætlar hins vegar að hækka um 4 kr. í dag. — Morgunblaðið/Halldór Kolbeins
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verð á 95 oktana bensíni hækkaði um fjórar krónur í gær og verð á dísilolíu um 1,50 kr.

Verð á 95 oktana bensíni hækkaði um fjórar krónur í gær og verð á dísilolíu um 1,50 kr. Ástæðan er miklar eldsneytishækkanir á Rotterdammarkaði síðustu daga sem einkum eru raktar nú til afleiðinga fellibylsins Katrínar sem hafði veruleg áhrif á olíuvinnslu í Mexíkóflóa og koma til viðbótar verðhækkunum á eldsneyti sem þegar höfðu orðið fyrr í sumar. Algengt verð í sjálfsafgreiðslu er nú 117,70 kr. og dísilolíu 114,70 kr.

Verð á bensíni er nú 17 krónum hærra hér á landi en það var 1. apríl í vor. Algengt verð með fullri þjónustu er 122,70 kr. en fyrir fimm mánuðum var verðið með fullri þjónustu 105,60 kr. Hækkunin á tímabilinu hefði orðið enn meiri ef styrking gengis íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal á tímabilinu hefði ekki komið til.

150 Bandaríkjadala hækkun

Magnús Ásgeirsson hjá olíufélaginu ESSO sagði að ástæðan fyrir hækkuninni væri hækkun á heimsmarkaðasverði á eldsneyti sem hefði tekið þvílíkt stökk síðustu dagana. Þannig hefði verð á bensíni á Rotterdammarkaði verið 828 Bandaríkjadalir tonnið um miðja þessa viku, en verðið síðastliðinn föstudag hefði verið 663 dalir. Það er hækkun sem nemur rúmum 150 dölum og þar af var hækkunin á þriðjudag um 100 dalir sem er sambærilegt og hækkunin sem varð á eldsneytisverði í upphafi Persaflóastríðsins 1990.

Magnús sagði að nú þegar ekki væri hægt að framleiða bensín í olíuhreinsunarstöðvum sunnarlega í Bandaríkjunum ykist eftirspurnin eftir eldsneyti í Evrópu og því mætti búast við talsverðum þrýstingi á eldsneytisverð þar í kjölfarið á hamförunum.

Verð á bensíni á Rotterdammarkaði var 530 Bandaríkjadalir í apríl í vor og fyrir ári var það 401 Bandaríkjadalur. Þá var gengi dalsins um 72 kr. en í dag er það rúmar 62 krónur.