Seltjarnarnes | Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, undirritaði á dögunum samning Seltjarnarnesbæjar við Tölvulistann um kaup á 73 ferðatölvum til afnota fyrir kennara og stjórnendur Grunnskóla Seltjarnarness - Mýrarhúsaskóla og...

Seltjarnarnes | Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, undirritaði á dögunum samning Seltjarnarnesbæjar við Tölvulistann um kaup á 73 ferðatölvum til afnota fyrir kennara og stjórnendur Grunnskóla Seltjarnarness - Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla.

Jónmundur segir fartölvukaupin gjörbreyta og bæta aðstöðu skólastarfsmanna Seltjarnarnesbæjar en það sé mat bæjaryfirvalda að grunnskólakennarar hafi verulegt gagn af þeim sveigjanleika sem fartölvunotkun skapar. "Það var því að vonum ánægður hópur sem kom saman á Bókasafni Seltjarnarnesbæjar á Eiðistorgi á dögunum til að taka á móti nýja tölvubúnaðinum sem afhentur var uppsettur og tilbúinn til notkunar," segir Jónmundur.

Þráðlaust net í skólunum

Í tengslum við fartölvuvæðingu grunnskólanna verður settur upp þráðlaus netaðgangur í báðum grunnskólabyggingum bæjarins í því skyni að unnt sé að nýta allt tiltækt húsnæði til tölvuvinnslu. Kennarar geta þannig unnið alla undirbúningsvinnu, skráningu á námsframvindu og haldið samráðsfundi þar sem best hentar hverju sinni. Segir Jónmundur því ljóst að óvíða sé starfsaðstaða grunnskólakennara betri á landinu en á Seltjarnarnesi.