Haukur F. Hannesson
Haukur F. Hannesson
Í MEISTARANÁMI í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands hefst í dag misserislangt námskeið í menningarstjórnun. Námskeiðið nýtur að þessu sinni styrks úr menningarsjóði VISA-Ísland. Styrkurinn er m.a. notaður til að kosta ferðir dr. Hauks F.

Í MEISTARANÁMI í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands hefst í dag misserislangt námskeið í menningarstjórnun. Námskeiðið nýtur að þessu sinni styrks úr menningarsjóði VISA-Ísland. Styrkurinn er m.a. notaður til að kosta ferðir dr. Hauks F. Hannessonar til landsins, en hann mun kenna námskeiðið í þremur lotum á misserinu. Um fjörutíu nemendur munu taka þátt. Haukur er eini Íslendingurinn sem lokið hefur doktorsprófi á þessu sviði. Hann hefur lokið doktorsprófi í menningarstjórnun (Arts Policy and Management) frá City University í London, þar sem doktorsverkefni hans fjallaði um norrænar og breskar sinfóníuhljómsveitir og tengsl þeirra við hið pólitíska vald og stjórnsýslu.

Á námskeiðinu verður fjallað um tilurð og hlutverk opinberrar menningarstefnu/listastefnu, fræðilegan grundvöll hennar í þjóðlegu og alþjóðlegu tilliti, svo og notkun í opinberri stjórnsýslu.

Ennfremur verður stjórnun og rekstur listastofnana til umfjöllunar, og er lögð áhersla á hagnýta nálgun með dæmum. Markmið námskeiðisins er að nemendur kunni skil á helstu þáttum menningarstjórnunar og stefnumótunar tengdrar henni og hinu pólitíska og stjórnsýslulega ferli sem að baki liggur, svo og að þeir fái yfirsýn yfir rekstrarhlið mismunandi listastofnana.