Rithöfundurinn ungi, Fergus McGhee, kveðst sjálfur vera mikill bókaormur og lesa alls konar bækur. Leyndardóma Snæfellsjökuls á hann þó eftir.
Rithöfundurinn ungi, Fergus McGhee, kveðst sjálfur vera mikill bókaormur og lesa alls konar bækur. Leyndardóma Snæfellsjökuls á hann þó eftir.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is FERGUS McGhee heitir fjórtán ára skoskur strákur, sem hefur vakið mikla athygli í heimalandi sínu að undanförnu.
Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is

FERGUS McGhee heitir fjórtán ára skoskur strákur, sem hefur vakið mikla athygli í heimalandi sínu að undanförnu. Tólf ára hóf hann að skrifa bók, sem nú er komin út, og hefur rokið upp sölulista bókabúðanna í Skotlandi. Bókin heitir "Beyond the Mist", eða Handan þokunnar, og er fyrsta bindið í því sem strákur segir geta orðið röð sagna um stúlkuna Sharon og þann undraheim sem hún uppgötvar eftir ævintýralegar villur lífshættulegum í stormum og stórviðrum, þar sem hún týnir móður sinni og öðru samferðarfólki.

Og jú, stormarnir og stórviðrin eiga sér einmitt stað í óbyggðum Íslands, og þar hefst saga Fergusar.

Hann kveðst í samtali við Morgunblaðið alltaf hafa haft gaman af að skrifa, ekkert síður en að hlusta á tónlist, stunda íþróttir og gera annað það sem krakkar á hans aldri gera.

"Ég fékk þá hugmynd að það gæti verið gaman að skrifa bók fyrir krakka á mínum aldri. Ég er alveg svakalega þrjóskur, þannig að - eins og Sharon - gafst ég ekkert upp á þessu. Ég leyfði hugmyndinni bara að malla með mér, þar til hún var orðin nógu stór og góð til að geta orðið að skáldsögu. Ég er mjög ánægður með það núna að ég skyldi hafa enst í þetta, því ég held að útkoman hafi heppnast bara nokkuð vel, og ég hvet krakka sem langar til að skrifa að láta bara verða af því, því það er sko ekki leiðinlegt. Þetta er eitthvað sem maður getur gert ef maður vill, - þegar maður vill, og á þann hátt sem maður vill."

Fergus McGhee kveðst sjálfur vera mikill bókaormur og lesa alls konar bækur; Dickens, Hardy og auðvitað sögurnar af Harry Potter.

"Ég held samt að það sem hafi haft mest áhrif á mig séu Narnia sögurnar sem ég las þegar ég var yngri. Í bókinni minni er líka svipað þema - að uppgötva annan heim í sínum eigin, þótt hjá mér sé það nú miklu nútímalegra en í Narnia sögunum, og kannski meira við hæfi lesenda í nútímanum." Það verður ekki hjá því komist að spyrja Fergus hvort hann hafi lesið ævintýri Jules Verne, Leyndardóma Snæfellsjökuls, þar sem langferð að miðju jarðar hefst einmitt á Íslandi.

"Ég hef ekki lesið bókina, en ég hef séð myndina. Ég ætti kannski að lesa hana í hvelli, því bækurnar eru nú eiginlega alltaf betri en myndirnar."

Tennis og tónlist með skriftunum

Fergus McGhee kveðst lifa ósköp venjulegu lífi heima í Skotlandi; hann sækir skóla, spilar tennis og badminton, spilar á píanó og lærir líka á drottningu hljóðfæranna, eins og hann kallar orgelið, og svo taka skriftirnar auðvitað sinn tíma. Hann á ellefu ára systur sem hann eyðir líka tíma með. "Ég er mjög heppinn. Í skólanum er mjög margt gert fyrir okkur krakkana svona utan við námið sjálft, og ég er í alls konar tómstundum."

En hvernig kom það til að honum datt í hug að láta sögu sína hefjast á Íslandi. Hann kveðst aldrei hafa komið hingað, en langi samt mikið til þess.

"Mér fannst bara að Ísland væri svo fallegt og svo mikil dulúð í náttúrunni þar, að það myndi vera fullkomið svið fyrir upphafið að sögunni. Náttúran á Íslandi er svo sérstök - þannig landslag sér maður hvergi annars staðar í heiminum. Svo er Ísland líka svo vinsælt ferðamannaland. Þess vegna passaði bara svo vel að láta söguna byrja þar."

Fergus segir að þegar bókin verði orðin ennþá vinsælli gæti komið að því að hún verði þýdd á íslensku, en það geti þó orðið bið á því. "Ennþá er hún samt bara til á ensku, en hver veit."