Fjölmenningarhátíð Gleðin leyndi sér ekki hjá börnunum í gær þegar grunn- og leikskólabörn í Reykjanesbæ slepptu 2.500 blöðrum og blésu þar með til Ljósahátíðar. Bæjarbúar eru hvattir til að fagna hátíðarhöldum með því að tendra hvít ljós í eða við húsnæði sitt. Dagskráin heldur áfram í dag og um helgina.
Fjölmenningarhátíð Gleðin leyndi sér ekki hjá börnunum í gær þegar grunn- og leikskólabörn í Reykjanesbæ slepptu 2.500 blöðrum og blésu þar með til Ljósahátíðar. Bæjarbúar eru hvattir til að fagna hátíðarhöldum með því að tendra hvít ljós í eða við húsnæði sitt. Dagskráin heldur áfram í dag og um helgina. — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
Eftir Svanhildi Eiríksdóttur "DAGSKRÁIN er bæði fjölbreyttari og þéttari en verið hefur hingað til.
Eftir Svanhildi Eiríksdóttur

"DAGSKRÁIN er bæði fjölbreyttari og þéttari en verið hefur hingað til. Ljósanótt er fjölskyldu- og menningarhátíð og lögð er áhersla á að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi," sagði Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi á kynningarfundi um dagskrá Ljósanætur sem nú er hafin í Reykjanesbæ. Aðaldagur hátíðarinnar er á morgun, laugardag en setningarathöfnin fór fram með fjölmenningarhátíð við Myllubakkaskóla í gær þar sem grunnskólabörn í bænum slepptu 2.500 blöðrum til himins.

Ljósanótt er nú haldin í 6. sinn en upphaf hátíðarinnar má rekja aftur til ársins 2000 þegar hugmynd Steinþórs Jónssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að lýsa upp bergið við smábátahöfnina var hrint í framkvæmd. Sá atburður boðar jafnframt lok hátíðarinnar ár hvert. Á þeim 5 árum sem liðin eru frá því að hátíðin var fyrst haldin hefur dagskráin vaxið jafnt og þétt og kom fram í máli menningarfulltrúa á kynningarfundi Ljósanætur að um 100 myndlistarmenn og handverksfólk verði með uppákomur í ár ásamt svipuðum fjölda tónlistarmanna.

Eiríkur Smith og baðstofukonur

Af þeim dagskrárliðum sem ber hvað hæst er opnun myndlistarsýningar Eiríks Smith og 5 Baðstofukvenna í Listasafni Reykjanesbæjar í dag kl. 18.00 en konurnar eru allar fyrrverandi nemendur Eiríks á myndlistarnámskeiðum Baðstofunnar. Þetta eru Ásta Árnadóttir, Ásta Pálsdóttir, Sigríður Rósinkarsdóttir, Soffía Þorkelsdóttir og Þórunn Guðmundsdóttir, en verkin eru alls 50. Einnig ber að nefna sýningu Handverks og hönnunar undir heitinu Sögur af landi. Innrás - Útrás er hins vegar heiti á sýningu Gjörningaklúbbsins sem opnuð verður á laugardag í galleríinu Suðsuðvestur og verður af því tilefni framinn gjörningur aftan við galleríið. Þá verður Daníel Sigmundsson myndlistarmaður með Keðjusagar-"performance" við hafnarbakkann sama dag.

Rythma- og blúsfélag Reykjanesbæjar er með mjög metnaðarfulla dagskrá í ár, enda sagði Margrét Eysteinsdóttir, forsvarsmaður félagsins, á kynningarfundi Ljósanætur að við þær góðu viðtökur sem hið nýstofnaða félag fékk á síðustu Ljósanótt hefði það fengið byr undir báða vængi og hvatningu til að gera enn betur í ár.

Fyrstu tónleikarnir voru í gærkvöldi en í kvöld heldur veislan áfram með tónleikum Mood, Kentár og Go Go Blues, sigurvegurum Prix Föroyar 2005. Á morgun munu svo Pálmi Gunnarsson, Magnús Eiríksson, KK og Grinders stíga á svið í Stapa, þar sem allir tónleikarnir fara fram.

Clint Eastwood fær stjörnuspor

Þess má einnig geta að "hliðar"(stjörnu)spor verður tekið á Ljósanótt í ár þar sem ekki er hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að náttúra Reykjaness var notuð við tökur á Hollywood-stórmyndinni Flags of our Fathers sem nú er í vinnslu. Aðalstjörnusporið við Hljómval fá systkinin Ellý og Vilhjálmur Vilhjálmsbörn frá Merkinesi í Höfnum en Clint Eastwood, leikstjóri myndarinnar, fær gestaspor framan við Sambíó.

Gestir Ljósanætur munu einnig geta látið ljós sitt skína á sviði í portinu við Svarta pakkhúsið. Allir sem vilja gleðja viðstadda með frjálsum uppákomum geta skráð sig á þar til gert blað og flutt ljóð eða leikverk, sungið, dansað, leikið á hljóðfæri, lesið eða hvaðeina sem þá lystir. Eina skilyrðið er að það sé viðstöddum til ánægju.