Gunnar Friðriksson fæddist á Látrum í Aðalvík 29. nóvember 1913. Hann lést á Landspítala, Landakoti, föstudaginn 14. janúar síðastliðinn og var útför hans gerð frá Dómkirkjunni 24. janúar.

Þótt seint sé langar mig til þess að minnast með nokkrum orðum vinar míns Gunnars Friðrikssonar. Gunnar var ötull baráttumaður aukinna slysavarna allt frá barnæsku og lét mikið að sér kveða á þeim vettvangi allt til efri ára. Margir hafa getið starfa hans á sviði sjóslysavarna, en hann sat í stjórn Slysavarnafélags Íslands í 26 ár, þar af forseti félagsins í liðlega tvo áratugi, frá árinu 1960 til 1982.

Ég kynntist Gunnari á áttunda áratug síðustu aldar, sem skrifstofustjóri hjá Einari Sigurðssyni útgerðarmanni. Þeir Gunnar voru góðir vinir og áttu margvísleg viðskipti á þessum árum, en þá rak Gunnar fyrirtæki sitt, Vélasöluna, af mikilli atorku.

Að afloknu námskeiði í dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu árið 1977 var mér svo falið það vandaverk að gera afmælisdagskrá um Slysavarnafélag Íslands, 50 ára, 29. janúar 1978. Ég gekk til þess verks af auðmýkt, fannst ég ekki þekkja nógu vel til sögu þessa merka félags til þess að gera verkefninu sómasamleg skil. Hvatning manns eins og Gunnars var mér því ómetanleg og svo fór að ég heillaðist svo af viðfangsefninu og öllu því fórnfúsa starfi sem slysavarnafólk hefur ávallt innt af hendi, að ég varð ekki samur maður á eftir. Mun skárri en fyrr, held ég að ég megi fullyrða. Forvarnir hafa verið mínar ær og kýr síðan, þökk sé m.a. Gunnari og öðru einlægu slysavarnafólki.

Gunnar lagði mikið af mörkum í umferðaröryggismálum. Hann var forseti SVFÍ þegar hægri umferð var tekin upp hér á landi hinn 26. maí árið 1968, og átti því ríkan þátt í öflugu starfi Slysavarnafélagsins, ásamt Hannesi Þ. Hafstein, framkvæmdastjóra félagsins og mörgum fleiri, í undirbúningi þessarar gagnmerku breytingar í umferðinni. Voru m.a. stofnaðar umferðaröryggisnefndir víða um land sem unnu að undirbúningi H-dagsins, og slysavarnafólk stóð í framlínu umferðaröryggisvarða, sem tóku að sér að leiðbeina hikandi vegfarendum í nýjum umferðarheimi.

Þegar Umferðarráð var svo stofnað í ársbyrjun 1969, í kjölfar hægri breytingarinnar, var Slysavarnafélag Íslands einn hornsteina hins nýja ráðs, og Gunnar Friðriksson sat í fyrstu framkvæmdanefnd þess frá 1969 til 1972. Árið 1972 var hann skipaður varaformaður ráðsins, við hlið Sigurjóns Sigurðssonar formanns, og gegndi því starfi til ársins 1978.

Fyrir öll þessi störf á sviði umferðaröryggismála, þakkar Umferðarráð. Þjóðin öll stendur í þakkarskuld við mann eins og Gunnar Friðriksson. Enginn veit nokkru sinni hve mörgum hefur verið bjargað frá votri gröf eða frá alvarlegu slysi á vegum landsins með óeigingjörnu starfi manna eins og Gunnars. Þið megið stoltir vera, afkomendur hans.

Blessuð sé minning hugsjónamannsins Gunnars Friðrikssonar.

Óli H. Þórðarson.