SÝNING á teikningum Halldórs Péturssonar úr bókinni Helgi skoðar heiminn stendur yfir þessa dagana í Galleríi Fold á Rauðarárstíg. Halldór Pétursson var fæddur í Reykjavík árið 1916.

SÝNING á teikningum Halldórs Péturssonar úr bókinni Helgi skoðar heiminn stendur yfir þessa dagana í Galleríi Fold á Rauðarárstíg.

Halldór Pétursson var fæddur í Reykjavík árið 1916. Ungur byrjaði hann að teikna og varð snemma landsþekktur fyrir teikningar sínar. Eftir að hann kom úr framhaldsnámi sínu fékkst hann aðallega við myndskreytingar og skopteikningar og er óumdeilanlegur frumkvöðull á því sviði.

Árið 1976 kom bókin Helgi skoðar heiminn fyrst út. Bókin varð þannig til að Halldór teiknaði myndirnar en Njörður P. Njarðvík skrifaði sögu við þær.

Teikningar Halldórs eru skopmyndir sem sýna Helga litla kanna veröldina. Boðskapur sögunnar er að heimurinn sé fullur af lífi. Manneskjurnar eiga veröldina ekki einar. Dýr og vættir náttúrunnar eiga sama rétt og við og okkur ber að sýna tillitssemi og vináttu.

Á þessum tíma voru íslenskar barnabækur sjaldnast litprentaðar enda var slík prentun kostnaðarsöm og framleiðsla á lítinn markað ekki talin borga sig. Þær litprentuðu bækur sem íslensk börn höfðu aðgang að voru þýðingar og birtu erlendan veruleika.

Þær íslensku bækur sem á eftir fylgdu bera með sér svip þess Íslands sem Halldór dró upp með myndum sínum.

Halldór lést í Reykjavík 16. mars 1977.

Sýningunni í Galleríi Fold lýkur á sunnudag.