FUNDUR verður haldinn í kjaradeilu SFR, Stéttarfélags í almannaþjónustu, við Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH) næstkomandi þriðjudag.

FUNDUR verður haldinn í kjaradeilu SFR, Stéttarfélags í almannaþjónustu, við Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu (SFH) næstkomandi þriðjudag. Launanefnd SFH semur fyrir hönd Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði, Víðines og Vífilsstaði, Skógarbæ, Sunnuhlíð, Grund, Ás, SÁÁ, Sjálfsbjargarheimilið, HNLFÍ.

Fundur var haldinn með deiluaðilum hjá ríkissáttasemjara í gær. Þar kynntu fulltrúar SFR samninganefnd SFH ályktun sem félagsfundur SFR. Í ályktuninni var stjórn SFR falið að hefja undirbúning atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun, að því er segir á heimasíðu SFR.

Kristján Sigurðsson, sem fer fyrir samninganefnd SFH, telur að lítið beri á milli deiluaðila. Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði hann að SFH myndi skoða málið yfir helgina fyrir fundinn á þriðjudag. Kristján kvaðst vera bjartsýnn á að deilan leystist farsællega og var hann vongóður um að komist yrði hjá verkfalli.

Jens Andrésson, formaður SFR, sagði að á samningafundinum í gær hafi verið farið yfir stöðuna. Hann sagði að jákvæður tónn hafi verið í viðsemjendum á fundinum. Engu að síður myndi SFR halda áfram að undirbúa boðun verkfalls. "Vonandi sjáum við til sólar yfir helgina."