Jórunn Frímannsdóttir
Jórunn Frímannsdóttir
Jórunn Frímannsdóttir fjallar um akstursmál aldraðra: "Því miður hefur dregist úr hófi að starfshópur um akstursmál aldraðra ljúki störfum. Svo virðist sem málið sitji fast hjá meirihlutanum í Reykjavík og þeim gangi erfiðlega að taka ákvörðun í þessu máli, ekki í fyrsta sinn."

HAUSTIÐ 2004 var skipaður starfshópur til að fara yfir akstursmál aldraðra í borginni og hefur hópurinn hist nokkrum sinnum. Ég sit í hópnum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, en þarna er jafnframt einn frá R-listanum og tveir frá Félagi eldri borgara.

Starfshópurinn hefur rætt um mikilvægi þess að borgin bjóði þjónustu eldri borgurum sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur eða annað til að þess að komast til læknis, í félagsstarf, þjálfun eða annað sem nauðsynlegt getur talist. Hópurinn var nokkuð sammála um með hvaða hætti hann vildi að þetta væri gert og virtist ásáttur um drög að reglum um akstursþjónustu fyrir aldraðra í febrúar sl.

Það er eindreginn vilji Félags eldri borgara að íbúar á hjúkrunarheimilum geti notið þessarar þjónustu líka. Ég er því sammála og tel það vera réttindamál þeirra sem þar búa. Hjúkrunarheimilin sjá um allan akstur sem lýtur að heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa, en þau sjá t.d. ekki um akstur í félagsstarf sem fer fram utan heimilisins. Margir taka þátt í ýmiss konar félagsstarfi áður en þeir flytja á hjúkrunarheimili. Það er þeim mikilvægt að geta stundað það áfram og hitt áfram sína gömlu félaga. Ég sé ekki mun á því hvort einstaklingur á lögheimili að Sóltúni 2 eða Sóltúni 11. Þurfi hann á akstursþjónustu að halda og uppfylli þau skilyrði sem fyrir þjónustunni eru sett þá á að veita hana óháð því hvert lögheimilið er.

Samgöngumál í Reykjavík hafa tekið hverri breytingunni af annarri og nýlega var kynnt nýtt leiðakerfi strætós. Gönguleiðir að næstu stoppistöð hafa víða verið lengdar jafnvel í 700 m og augljóst að það getur komið í veg fyrir að eldri borgarar geti nýtt sér strætisvagnana.

Því miður hefur dregist úr hófi að starfshópur um akstursmál aldraðra ljúki störfum. Svo virðist sem málið sitji fast hjá meirihlutanum í Reykjavík og þeim gangi erfiðlega að taka ákvörðun í þessu máli, ekki í fyrsta sinn.

Það er ekki nóg að hafa fallega stefnu og göfug markmið, það þarf að standa við það sem ákveðið hefur verið að gera. Það er ekki nóg að setja málefni í nefndir eða starfshópa og reyna svo að láta þau þæfast svo lengi í kerfinu að þau gleymist.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur og varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.