Natalía Chow er frá Hong Kong og fluttist til Íslands árið 1992. Hún er organisti í Ytri-Njarðvíkurkirkju en var áður við Hafnarfjarðarkirkju og þar áður organisti og söngkennari á Húsavík.

Natalía Chow er frá Hong Kong og fluttist til Íslands árið 1992. Hún er organisti í Ytri-Njarðvíkurkirkju en var áður við Hafnarfjarðarkirkju og þar áður organisti og söngkennari á Húsavík. Natalía er með MA-gráðu í tónmennt frá University of Reading, einsöngvarapróf frá Hong Kong og organistapróf frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hún býr á Álftanesi, á tvær dætur og er gift Julian Hewlett frá Englandi. Natalía og Julian stjórna Englakórnum í sameiningu.

Natalía Chow er frá Hong Kong og fluttist til Íslands árið 1992. Hún er organisti í Ytri-Njarðvíkurkirkju en var áður við Hafnarfjarðarkirkju og þar áður organisti og söngkennari á Húsavík. Natalía er með MA-gráðu í tónmennt frá University of Reading, einsöngvarapróf frá Hong Kong og organistapróf frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hún býr á Álftanesi, á tvær dætur og er gift Julian Hewlett frá Englandi. Natalía og Julian stjórna Englakórnum í sameiningu.

Englakórinn er smábarnakór sem stofnaður var fyrir tveimur árum. Þar er ungum krökkum kenndur söngur og börnin læra bæði um takt og tónhæð. Þau hlusta á tónverk og farið er í raddbeitingu og sungnir skalar. Börnin læra lög á ýmsum tungumálum - frönsku, spænsku, ítölsku og kínversku, ásamt íslensku. Áður var Englakórinn fyrir börn á leikskólaaldri en í vetur verða hóparnir tveir, sá yngri fyrir 3-4 ára og sá eldri fyrir 5-7 ára.

- Geta svona ung börn alveg verið í kór?

"Já, það er ekkert mál. Þetta er meira að segja mjög gott fyrir þau. Söngurinn hjálpar til dæmis við málþroska. Í raddæfingum segjum við bæði sérhljóða og samhljóða og svo syngjum við á mörgum málum. Sum börn geta ekki sagt ákveðna stafi, eins og til dæmis s, en með því að æfa með kórnum kemur það smám saman.

Tónlistin hjálpar líka mikið til varðandi tjáningu. Börnin tjá sig eðlilega í tónlistinni.

Við notum hreyfingar í söngnum og krakkarnir læra lögin utan að með því að gera hreyfingarnar. Þeir læra nótnalestur og fara í raun að lesa nótur áður en þeir verða læsir á bók. Börnin temja sér einnig aga og gera ýmislegt sem snýr ekki beint að tónlist. Þau þurfa svo dæmi séu tekin að læra að þegja á réttum tíma og að hneigja sig.

Við höfum séð miklar breytingar á börnum sem hafa verið 2-3 annir hjá okkur í kórnum. Þau haga sér betur og kunna betur að meta tónlist. Kórstarfið finnst mér mjög skemmtilegt og gefandi þegar ég sé svona mikinn árangur.

Við erum tvö saman með börnin, ég og maðurinn minn, og svo eru foreldrar barnanna líka stundum með. Í gegnum Englakórinn er ég að reyna að opna augu foreldra fyrir því hversu góða hluti er hægt að gera þegar börnin byrja svona snemma í kórstarfi."

- Hvernig datt þér í hug að stofna Englakórinn?

"Ég hafði séð um kór sem þennan í Hong Kong í mörg ár. Síðan flutti ég hingað og hérlendis var enginn samskonar kór. Þegar yngri dóttir mín fór að tala langaði mig til að hún gæti verið í kór. Ég kom þessu því í raun á laggirnar með hana í huga. Starfið hefur farið fram úr björtustu vonum. Krakkarnir eru mjög áhugasamir og foreldrarnir eru hissa á því hvað þau geta lært mikið þetta ung."

Nánast er fullt í hóp yngri barnanna en enn eru laus pláss fyrir þau eldri. Áhugasamir geta skrifað Natalíu tölvupóst á netfangið nataliachow89@msn.com. Æfingar fara fram á laugardögum í Tónlistarskóla Kópavogs.