Það gengur oft talsvert á í mótorkrosskeppni.
Það gengur oft talsvert á í mótorkrosskeppni. — Ljósmynd/Supersport.is
LOKAUMFERÐ Íslandsmótsins í þolakstri á torfæruhjólum fer fram við Bolöldu sunnan Litlu kaffistofunnar á morgun.

LOKAUMFERÐ Íslandsmótsins í þolakstri á torfæruhjólum fer fram við Bolöldu sunnan Litlu kaffistofunnar á morgun. Vélhjólaklúbburinn (VÍK) ásamt Landssambandi Íslenskra Vélsleðamanna - Reykjavík (LÍV-R) samdi nýverið við Sveitarfélagið Ölfus um afnot af svæðinu fyrir æfingaakstur og keppnishald. Eknar verða tvær umferðir og hefst fyrri umferðin klukkan 11:00 en hin síðari klukkan 14:00.

Um 70 keppendur eru skráðir til leiks. Þar á meðal eru nýbakaður Íslandsmeistari í mótókrossi, Ragnar Ingi Stefánsson, hinn ungi og efnilegi Kári Jónsson sem farið hefur hamförum í sumar og síðast en ekki síst tvöfaldur heimsmeistari í þolakstri, Svíinn Peter Bergvall. Einar Sverrir Sigurðarson, núverandi Íslandsmeistari í þolakstri, verður að öllum líkindum fjarri góðu gamni en hann slasaðist illa á fæti við æfingar í ágúst og er enn að jafna sig. Morgunblaðið mun segja frá keppninni í máli og myndum að viku liðinni.

Bjarni Bærings