Hermann Hreiðarsson er kominn í íslenska landsliðið að nýju eftir meiðsli, hér er hann á æfingu með liðinu.
Hermann Hreiðarsson er kominn í íslenska landsliðið að nýju eftir meiðsli, hér er hann á æfingu með liðinu. — Morgunblaðið/Árni Torfason
"MÉR líst vel á viðureignina gegn Króötum, við höfum margt að sanna fyrir okkur sjálfum og áhorfendum og erum staðráðnir í því að sýna okkar bestu hliðar á Laugardalsvellinum á morgun," sagði varnarjaxlinn Hermann Hreiðarsson um landsleik...

"MÉR líst vel á viðureignina gegn Króötum, við höfum margt að sanna fyrir okkur sjálfum og áhorfendum og erum staðráðnir í því að sýna okkar bestu hliðar á Laugardalsvellinum á morgun," sagði varnarjaxlinn Hermann Hreiðarsson um landsleik Íslands og Króatíu í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fram fer á Laugardalsvelli annað kvöld. Hermann býst við hörkuleik og segir allt geta gerst svo framarlega sem íslenska liðið nái að sýna sínar bestu hliðar.

Eftir Andra Karl andri@mbl.is

Hermann er að koma inn í leikmannahópinn að nýju eftir meiðsli en hann hefur leikið vel í stöðu miðvarðar með liði sínu Charlton á Englandi.

Tekin var sú ákvörðun að hvíla Hermann í vináttuleiknum gegn Suður-Afríku 17. ágúst síðastliðinn þar sem hann var að stíga upp úr meiðslum en hann segist vera meira en tilbúinn í leikinn á morgun.

"Ég lék síðast með landsliðinu í vináttuleiknum gegn Ítölum en þar áður í fyrri leiknum á móti Króötum en var svo frá í allt sumar vegna meiðsla. Ég hef nú leikið alla leikina með Charlton í deildinni og ekki fundið fyrir neinum eymslum þannig að ég mæti af fullum krafti," sagði Hermann eftir æfingu landsliðsins í gærdag. Hann segir mestu máli skipta að liðið sýni góðan varnarleik og læri af reynslunni frá fyrri leiknum þar sem það fékk á sig þrjú mörk úr föstum leikatriðum en leiknum lauk með 4:0 sigri Króata.

"Liðið hefur leikið vel í síðustu leikjum og yfir höfuð í vináttuleikjum að undanförnu en leikirnir í undankeppninni hafa ekki verið sannfærandi í heildina og þrátt fyrir að varnarleikurinn hafi verið ágætur gegn Króötum í fyrri leiknum fengum við á okkur þrjú mörk úr föstum leikatriðum sem er ekkert nema sjálfsmorð. Það gengur alls ekki, liðið á alltaf að vera ofan á í föstum leikatriðum og vonandi verður það komið í lag á morgun."

Hópurinn breiðari og sterkari

Króatar eru taplausir og efstir í riðlinum og hafa sýnt það í síðustu leikjum að liðið er firnasterkt. Hermann segir hópinn þó vera sterkari en áður og fagnar komu yngri leikmanna.

"Það eru komnir ungir peyjar inn í leikmannahópinn sem eru sterkir og hungraðir í sigur og það er kannski það sem landsliðið hefur þurft á að halda í síðustu leikjum þar sem miður fór. Núna erum við með breiðari og sterkari hóp að mínu mati og ættum að geta strítt Króötum," segir Hermann og segir ungu strákana falla vel inn í hópinn.

Það er frábært að sjá þessu ungu stráka sem koma með mikinn kraft í hópinn og gott að vita að framtíð landsliðsins er björt. Það er alltaf létt yfir hópnum og við reynum að hafa landsliðsverkefnin skemmtileg.

Við ætlum því fyrst og fremst að sýna hvað í okkur býr og ef við náum því þá getur allt gerst - það er engin spurning."

Góð byrjun hjá Charlton

Hermann er fastamaður í vörn Charlton en liðið hefur komið verulega á óvart það sem af er leiktíðinni á Englandi. Hann segir glatt á hjalla hjá félaginu um þessar mundir.

"Tímabilið hefur byrjað afskaplega vel hjá okkur og liðið unnið fyrstu þrjá leikina. Það er ekki á hverjum degi sem það gerist, þannig að við erum glaðir í Dalnum um þessar mundir."

Tími kominn á einhver stig

Gylfi Einarsson, leikmaður Leeds á Englandi, var brattur þegar Morgunblaðið náði af honum tali. Gylfi meiddist í leik með liði sínu á laugardag þegar hann lenti í samstuði við dómara leiksins og handarbrotnaði í kjölfarið. Hann var með höndina í gifsi á æfingunni í gær en eftir á finna lausn á því fyrir leikinn á morgun.

Gylfi sagði dagskipunina að ná alla vega einu stigi úr leiknum.

"Leikurinn leggst mjög vel í mig, það er kominn tími til að við tökum einhver stig í þessum riðli. Þetta verður erfiður leikur, það efast enginn um það, og þeir eru með hörku lið en við eigum harma að hefna. Spilamennskan hjá okkur hefur verið upp á við en það hefur ekki skilað okkur mörgum stigum.Við erum samt alltaf rosa góðir í vináttuleikjunum í ágúst - bestir í heimi þar," sagði Gylfi og bætti að liðið væri að fá á sig allt of mikið af mörkum og það þyrfti að laga.

"Þetta hlýtur að fara smella hjá okkur en við verðum að einbeita okkur að því að halda hreinu á heimavelli. Við höfum fengið á okkur allt of mörg mörk í þessum leikjum sem búnir eru og við getum ekki ætlast til þess að vinna leiki þegar við erum að fá á okkur þrjú og jafnvel fjögur mörk í leik. Þannig að dagskipunin hlýtur að vera sú að halda hreinu og alla vega ná einu stigi.

En við verðum samt að vera raunsæir, Króatar eru með mjög gott lið, og við getum ekki farið að margmenna í sóknina, þá verður okkur refsað fljótt. Verðum að vera skynsamir og bíða eftir okkar tækifærum."

Hlífir hendinni ekkert

Gylfi var með forláta gifs sökum handarbrots á æfingu landsliðsins í gærdag. Líklega verður gifsinu skipt út fyrir spelku fyrir leikinn en hann vonaðist til þess að brotið myndi ekki há honum mikið í leiknum.

"Þetta er náttúrulega óþægilegt en ætti ekki að valda mér miklum vandræðum þegar í leikinn er komið. Ég lék svona allan leikinn á laugardag, bara vel teipaður, þannig ég verð að sjá til hvernig þetta verður, þetta verður vonandi í lagi. En ég verð alla vega að losna við þetta gifs. Fá einhverja spelku eða eitthvað álíka. Það er hins vegar full ljóst að ég beiti mér af fullum krafti í leiknum og hendinni verður ekkert hlíft að ráði."