Arnaldur Indriðason
Arnaldur Indriðason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vorhefti Skírnis býður upp á nægilegt lestrarefni og kemur víða við í fortíð og samtíð. Enn er það þó fortíðin sem er mest áberandi. Sem dæmi má nefna: Hugtakakerfi Hávamála eftir Óttar M.

Vorhefti Skírnis býður upp á nægilegt lestrarefni og kemur víða við í fortíð og samtíð. Enn er það þó fortíðin sem er mest áberandi.

Sem dæmi má nefna: Hugtakakerfi Hávamála eftir Óttar M. Norðfjörð, Vanhelgun norrænnar goðsögu eftir Jón Hnefil Aðalsteinsson, Austurvegsþjóðir og íslensk heimsmynd: Uppgjör við sagnfræðilega goðsögn eftir Sverri Jakobsson og Sinn eiginn smiður: Ævintýrið um Sverri konung eftir Ármann Jakobsson.

Allt eru þetta læsilegar greinar eins og fleira í Skírni og sakar þá ekki að minna á Um samfélag og þjóðerni í sögum Arnaldar Indriðasonar eftir Katrínu Jakobsdóttur, Skírnismál tveggja höfunda og Greinar um bækur. Síðast en ekki síst er grein um Myndlistarmann Skírnis sem að þessu sinni er Gabríela Friðriksdóttir og fjallar Auður Ólafsdóttir um hana.

Jörgen L. Pind skrifar um Guðmund Finnbogason sálfræðing, ritstjóra Skírnis og er við hæfi að halda minningu hans á lofti.

Skáld Skírnis er að þessu sinni Megas og gera ritstjórarnir, Sveinn Yngvi Egilsson og Svavar Hrafn Svavarson, grein fyrir honum með þessum hætti:

"Ég skildi að orð er á Íslandi til / um allt sem er hugsað á jörðu", orti Einar Benediktsson eitt sinn. Skáld Skírnis að þessu sinni, Megas, tekur annan pól í hæðina og slettir óspart og dansar jafnvel línudans á milli merkingar og merkingarleysu sem minnir meira á Æra-Tobba en Einar Ben. Hann vekur þá spurningu að hve miklu leyti íslenskan sé eyland og hversu opin hún sé, eða ætti að vera, fyrir erlendum áhrifum. Vafalaust þrífst hún nokkuð á þeim slettum sem gusast upp úr alþjóðlegum potti samtímans og víst er að alltaf þarf að reyna á þolmörk málsins".

Textar Megasar njóta sín best í söng en það kemur ekki í veg fyrir að hann á erindi, eins og til dæmis í texta sem er eins konar hylling til Þórarins Eldjárns. Guðjón 2000 nefnist ljóðið:

nú er risin næsta og besta kynslóð

næfurþunnrar kímni - speki og spé

flæðir upp er gusast niður ginflóð

þig grunar en vilt ei vita hvað er að ske

nú er dýrkuð dátt hin gyllta gylta

þú ert sjálfur guðjón innst í milta

Í textum sínum bregður Megas á leik og er fátt heilagt að vanda. Innan um og saman við hittir hann naglann á höfuðið og þrátt fyrir sletturnar eru honum gamlir bragarhættir kærir. Honum er vissulega leyfilegt að yrkja eins og Megas en ekki eins og einhverjir aðrir.

Orðin um næfurþunnu kímnina eiga það skilið að vera rifjuð upp og ekki er útlit fyrir að þau dæmist marklaus.

Ekki get ég þó tekið undir með Katrínu Jakobsdóttur sem að mínu mati er einum of bölsýn þegar hún fullyrðir að góðir fornir tímar öryggis og stöðugleika séu horfnir ásamt sögunni og þjóðerninu og telur sögur um endalok, morðsögur, best til þess fallnar að lýsa þessu. Mér finnst einhvern veginn að þetta eigi við hjá henni um fleira en sögur Arnaldar Indriðasonar en getur verið misskilningur.

johj@mbl.is

Höf.: johj@mbl.is