Bob Dylan
Bob Dylan
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Markaðurinn fyrir rokkminjagripi hefur tekið kipp að undanförnu, en ekki er óalgengt að safnarar pungi út sem nemur sex og hálfri milljón íslenskra króna fyrir álitlega rokkgripi á borð við hljóðfæri og fatnað þekktra rokkara.

Markaðurinn fyrir rokkminjagripi hefur tekið kipp að undanförnu, en ekki er óalgengt að safnarar pungi út sem nemur sex og hálfri milljón íslenskra króna fyrir álitlega rokkgripi á borð við hljóðfæri og fatnað þekktra rokkara. Nýi markhópurinn samanstendur af rokkaðdáendakynslóðinni sem var á unglingsaldri á sjöunda og áttunda áratugnum en hefur nú komist í álnir. Þannig seldust t.d. á dögunum handskrifuð ljóð Bobs Dylans fyrir 78 þúsund bandaríkjadala á árlegu rokk- og poppvöruuppboði Christies-uppboðshaldarans. Blaðsnepill sem John Lennon hraflaði á textann að laginu "All You Need is Love" var sleginn fyrir 1 milljón dala á uppboði í júlí. Þá seldist "Blackie", Fender-rafmagnsgítar sem Eric Clapton notaðist við á árunum 1970 til 1985, fyrir tæpa milljón bandaríkjadala á uppboði í júní síðastliðnum. "Blómabarna-kynslóðin er orðin óhóflega loðin um lófana og lítur á rokkminjagripasöfnun sem vænlega og gefandi fjárfestingarleið," segir safnarinn Ed Kosinski um hinn blómstrandi rokkminjagripamarkað.

Marilyn Manson gekk að eiga unnustu sína Dita Von Teese við látlausa athöfn á Írlandi í síðustu viku, að sögn tímaritsins People . Hinn umdeildi rokkari og kona hans gáfust hvort öðru frammi fyrir sextíu brúðkaupsgestum í borgaralegri athöfn í kastala í eigu vinar en kvikmyndagerðarmaðurinn Alejandro Jodorowsky gaf hjónin saman. Manson er 36 ára að aldri, en Von Teese 33ja. Þau hafa verið par í fjögur ár og trúlofuðust í fyrra.

Netvæðingin hefur endurlífgað markaðinn fyrir tónlistarmyndbönd eftir lægð sem ríkt hefur í þeim efnum frá því um miðjan tíunda árauginn. Þá hóf hin útbreidda tónlistarsjónvarpsstöð MTV að sýna veruleikasjónvarpsþætti í auknum mæli og var dregið verulega úr sýningum tónlistarmyndbanda, þannig að aðeins allra stærstu stjörnurnar komust að með myndbönd sín. Nú hefur tónlistarmyndbandadreifing á netinu gjörbreytt landslaginu, og er hvarvetna hægt að hlaða niður stökum myndböndum þekktra og minna þekktra hljómlistarmanna, m.a. í stykkjatali í gegnum iTunes Music Store, og á MySpace.com tónlistarvefsíðunni sem hefur um 36 milljón notendur. Fyrir vikið hefur myndabandaframleiðsla aukist og hefur MTV-sjónvarpsstöðin hafið dreifingu tónlistarmyndabanda á Overdrive Channel á netinu, áþekkum þeim sem einnig er að finna á Yahoo og AOL. Með auknum tækifærum til að koma tónlistarmyndböndum á framfæri hefur gróska færst í formið á ný, og nýta böndin sér óspart óhefðbundnari dreifileiðir. My Chemical Romance birti t.d. nýja myndbandið að "I'm Not OK" á MySpace.com áður en það var frumsýnt á MTV-sjónvarpsstöðinni. Þá hyggjast Fall Out Boy gefa út tvær ólíkar myndabandsútgáfur titillags næstu smáskífu sinnar, aðra vinsældarvæna fyrir MTV-dreifingu en hina djarfari fyrir óhefðbundna netmiðla. Með hinni nýju þróun eru tónlistarmyndbönd jafnframt orðin að söluvöru í sjálfu sér, ekki aðeins kynningarefni sem fylgir með hljómplötuútgáfu.