"VIÐ veðjum á Ásdísi. Hún hefur náð mjög góðum árangri þrátt fyrir ungan aldur og við teljum að hún eigi möguleika á að vera í fremstu röð á Ólympíuleikunum í Peking 2008," sagði Örn Andrésson, formaður Afrekssjóðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) um þá ákvörðun sjóðsins að úthluta A-styrk hans til Íslandsmethafans í spjótkasti kvenna, Ásdísar Hjálmsdóttur, frá og með 1. janúar nk.
Alls var tilkynnt um rúmlega 60 milljóna króna styrki þriggja sjóða ÍSÍ við afreksstarf íþróttasambandanna fyrir árið 2006. A-styrkurinn nemur 1.920.000 krónum á ári.
Ásdís, ásamt Kristínu Rós Hákonardóttur og Jóni Oddi Halldórssyni, bætist á lista þeirra sem fá A-styrk. Fyrir voru Rúnar Alexandersson fimleikamaður og Þórey Edda Elísdóttir frjálsíþróttakona en þau hafa notið slíks styrks síðasta árið og halda því áfram.
Alls sóttu sérsambönd ÍSÍ um 270 milljónir króna í styrki hjá sjóðunum þremur, Afrekssjóði ÍSÍ, Ólympíufjölskyldu og Sjóði ungra og efnilegra íþróttamanna fyrir árið 2006 en komið var til móts við óskir upp á rúmar 60 milljónir króna. Enn eru nokkrir peningar til í sjóðum og ekki útilokað að það komi til frekari úthlutunar þegar kemur fram á næsta ár þótt ljóst sé að það verði aldrei í eins miklum mæli og nú var gert. |
D3