Michelle Bachelet ávarpar stuðningsmenn sína er formlegri baráttu fyrir forsetakosningarnar lauk á fimmtudag. Líklegt er að önnur umferð reynist nauðsynleg.
Michelle Bachelet ávarpar stuðningsmenn sína er formlegri baráttu fyrir forsetakosningarnar lauk á fimmtudag. Líklegt er að önnur umferð reynist nauðsynleg. — Reuters
Fréttaskýring | Ef marka má skoðanakannanir er líklegt að Michelle Bachelet verði kjörin forseti Suður-Ameríkuríkisins Chile, fyrst kvenna. Ásgeir Sverrisson segir frá Bachelet og kosningunum á sunnudag.

Konur hafa tekið henni fagnandi en þrátt fyrir umtalsverða stjórnmálareynslu hefur framrás hennar komið mörgum á óvart. Chile er íhaldssamt samfélag; staða kvenna hefur löngum verið niðurnjörvuð, karlar og kirkja hafa farið með völdin og skilnaðir voru strangt til tekið óleyfilegir þar til í fyrra. Trúlega er Michelle Bachelet eins konar holdgervingur nýrra tíma í heimalandi sínu; verulegar líkur eru á að hún verði kjörin forseti Chile, fyrst kvenna.

Forsetakosningarnar fara fram á morgun, sunnudag og verða þá einnig kjörnir 120 þingmenn og 20 fulltrúar, sem sitja í öldungadeild þingsins. Þetta er í fjórða skiptið sem Chilebúar kjósa sér forseta frá því að herforinginn Augusto Pinochet lagði niður völd árið 1990 eftir ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu tveimur árum áður.

Stjórnmál í Chile hafa skipast með heldur óhefðbundnum hætti. Þrír stórir flokkar fara fyrir samsteypustjórninni í Chile, sem jafnan er nefnd "Concertación" á spænskri tungu en það orð vísar til samvinnu og sátta. Stærstur er flokkur kristilegra demókrata ("Partido Demócrata Cristiano"), þá kemur Sósíalistaflokkurinn ("Partido Socialista") og loks Lýðræðisflokkurinn eða "Partido por la Democracia". Þeir tveir síðastnefndu eru til vinstri svo stuðst sé við viðteknar skilgreiningar í stjórnmálum en flokk hinna kristilegu má staðsetja á miðjunni í stjórnmálum Chile.

Tveir hægri flokkar bera uppi stjórnarandstöðuna. Þar ræðir annars vegar um Bandalag óháðra lýðræðissinna ("Unión Demócrata Independiente") og Endurnýjunarflokkinn ("Renovación Nacional"). Saman mynda þessir flokkar "Bandalag vegna Chile" ("Alianza por Chile").

Bachelet er félagi í Sósíalistaflokknum en frá 1990 hafa frambjóðendur Concertación jafnan farið með sigur af hólmi í forsetakosningum í Chile.

Hámenntaður útlagi

Bachelet er 54 ára gömul, fædd í Santiago de Chile árið 1951. Ferill hennar er um margt óvenjulegur. Faðir hennar var foringi í flugher Chile. Hann lenti upp á kant við herforingjastjórnina enda vinstri sinnaður og var vændur um "föðurlandssvik". Fór svo að böðlar Pinochets pyntuðu hann til dauða rúmum sex mánuðum eftir valdaránið 11. september 1973.

Bachelet og móðir hennar voru einnig handteknar en þeim síðar sleppt úr haldi.

Bachelet er læknir að mennt en hefur einnig gráðu í herfræðum frá Bandaríkjunum. Hún er tungumálagarpur hinn mesti, talar þýsku, frönsku og portúgölsku reiprennandi auk ensku. Raunar stundaði hún einnig nám í Þýskalandi en þangað flúði fjölskyldan undan herforingjastjórninni. Bachelet sneri aftur til Chile árið 1979 og var þá meinað að starfa sem læknir vegna tengsla fjölskyldunnar við stjórnarandstöðuna.

Árið 1990 þegar lýðræðið var endurreist í Chile eftir 17 ára herforingjastjórn hóf Bachelet afskipti af stjórnmálum á vettvangi Sósíalistaflokksins. Hún var skipuð heilbrigðisráðherra árið 2000 í kjölfar sigurs Ricardo Lagos, fráfarandi forseta, í kosningunum það ár. Því starfi sinnti hún í tæp tvö ár en 7. janúar 2002 var hún skipuð ráðherra landvarna fyrst kvenna ekki aðeins í Chile heldur í gjörvallri Rómönsku Ameríku. Bachelet sagði af sér því embætti fyrir sex mánuðum eða svo til að geta einbeitt sér að forsetaframboðinu.

Fylgi við hana hefur mælst mikið en hefur raunar farið nokkuð dalandi á undanliðnum vikum. Í liðinni viku fór fram síðasta sjónvarpskappræða frambjóðenda. Mældist fylgi við Bachelet þá 39% og hafði minnkað um sex prósentustig frá því í síðustu könnun.

Fylgi við Sebastián Piñera, frambjóðanda RN, einn ríkasta mann Chile og bróður ráðherra í stjórn Pinochets, reyndist 22% en fulltrúi íhaldsmanna í UDI, Joaquín Lavín (sem tapaði naumlega síðustu forsetakosningum) mun njóta hylli 21% kjósenda. Fái enginn frambjóðenda 50% greiddra atkvæða á sunnudag verður kosið á ný á milli tveggja þeirra efstu.

Höfðar til stórra þjóðfélagshópa

Samkvæmt frétt chileanska dagblaðsins El Mercurio á fimmtudag hafa karlarnir náð sáttum um gagnkvæman stuðning komi til þess að annar þeirra mæti Bachelet í síðari umferð. Þótt staða Bachelet sýnist traust fyrir kosningarnar á sunnudag bendir flest til að önnur umferð reynist nauðsynleg.

Í Chile búa rétt tæpar 16 milljónir manna og eru rúmlega átta þeirra á kjörskrá. Í ljósi þess hversu íhaldssamt samfélag hefur þróast fram í Chile þykir mörgum stórmerkilegt að Bachelet hafi náð að skapa sér þessa stöðu. Hún þykir að vísu hafa sterkan og heillandi persónuleika en fleira kemur vísast til.

Greinilegt er að hún hefur náð vel til kynsystra sinna, sem haft hafa tilhneigingu til að styðja frekar hægri menn í kosningum í Chile. Saga hennar og ferill höfðar og sýnilega til stórra þjóðfélagshópa. Hún er tvífráskilin og á þrjú börn, tvö uppkomin og 12 ára dóttur. Bachelet forðast viðtekið tal um að stjórnmálaþátttaka sé konum sérlega erfið sökum heimilis og barna. Hún kveðst hins vegar þeirrar hyggju að gera þurfi sérstakar ráðstafanir til að auka hlut kvenna í samfélaginu í Chile. "Konur þurfa á fleiri tækifærum að halda en karlmenn sökum þess að þær eiga langa leið fyrir höndum," hefur hún sagt en sjálf er hún annáluð fyrir atorku og vinnusemi.

Hlutur kvenna í stjórnmálum Chile hefur verið heldur rýr í gegnum tíðina. Nefna má að í neðri deild þingsins sitja 120 fulltrúar og eru 15 þeirra konur (12,5%). Í öldungadeildinni eru konur lítt áberandi; af 48 þingmönnum þar eru aðeins tvær konur (4,2%). Bachelet kveðst vera sósíalisti en hefur, líkt og vænta mátti, reynt að ná til sem flestra hópa í samfélaginu. Sjálf hefur hún sagt að hún hafi sem ráðherra reynt að gæta hagsmuna allra Chilebúa og það sama hyggist hún gera verði hún kjörin forseti. Almennt hefur hún forðast afdráttarlausar yfirlýsingar, sem vísast er hyggilegt í stöðunni, en hún hefur þó lagt áherslu á nauðsyn þess að áfram verði unnið að því að tryggja stöðugan og góðan hagvöxt í Chile. "Mikilvægt er hins vegar að allir njóti góðs af honum," er kunnugleg viðbót af hennar hálfu.

Í tíð einræðisstjórnarinnar var fylgt efnahagsstefnu markaðshyggju, einkavæðingar og viðskiptafrelsis, sem hagfræðingar frá Chicago-háskóla stjórnuðu. Því er oft haldið fram að á árum einræðisstjórnarinnar hafi verið sáð þeim fræjum, sem Chilebúar eru nú að uppskera. Vill þá oft gleymast að þessari stefnu var komið á án þess að lýðræðislegt umboð lægi fyrir. Samfelldur hagvöxtur hefur hins vegar einkennt Chile á undanliðnum árum og trúlega er einkavæðing hvergi lengra á veg komin í Suður-Ameríku. Erlent fjármagn hefur streymt inn í landið. Þessi umskipti hafa orðið í valdatíð miðju- og vinstrimanna.

"Chile er að breytast"

Þegar ræður Bachelet eru skoðaðar (þær má nálgast á vefsíðu hennar http://www.michellebachelet.cl/m_bachelet/ambientes/0/) virðist sýnt að hún boðar um flest sömu stefnu og stjórn Lagos hefur fylgt. Að vísu má greina aukna áherslu á "jöfnuð" og "félagslegt réttlæti" í ummælum hennar. "Hagvöxtur er ekki eini mælikvarði framfara," lýsir hún yfir og slagorð hennar, "Estoy contigo" ("Ég stend með þér") vísar til þess að hún þekki kjör alþýðu manna, a.m.k. betur en keppinautarnir.

Ekki skal það dregið í efa.

"Mér er það mikill heiður að ég skuli eiga möguleika á að verða forseti Chile, fyrst kvenna. En mikilvægara tel ég að það er til marks um að Chile er að breytast. Samfélag okkar hefur náð lýðræðislegum þroska og komist að þeirri niðurstöðu að konum sem körlum sé treystandi fyrir ábyrgðarstöðum," sagði Bachelet í viðtali við BBC fyrir skemmstu.

Nú er það kjósenda í Chile að ákveða hvort treysta beri þessum boðbera nýrra tíma fyrir forsetaembættinu.

asv@mbl.is

Höf.: asv@mbl.is