ALLT frá því að Grafarvogskirkja var vígð á kristnihátíðarárinu 2000 hefur allt starf innan hennar vaxið til muna. Mikilvægur þáttur í starfinu tengist tónlist og flutningi hennar. Innan kirkjunnar eru starfandi fjórir kórar, kirkjukór, unglingakór, barnakór og krakkakór. Þó nokkuð á annað hundrað einstaklingar taka þátt í kórstarfinu, sem ekki er hægt að segja annað en sé blómlegt og það má vissulega segja um allt safnaðarstarfið.
Það er ekki eingöngu tónlistarstarfið innan Grafarvogskirkju sem hefur vaxið og dafnað heldur hafa fleiri og fleiri kórar óskað þar eftir aðstöðu til tónleikahalds og aldrei hafa fleiri tónleikar verið haldnir í kirkjunni en einmitt nú á aðventunni. Það er ánægjulegt að Grafarvogskirkja skuli hljóta lofsamlega dóma sem tónlistarhús.
Áður er hin glæsilega bygging reis, en kirkjan hefur fengið verðlaun á erlendri grund og sérstaklega verið um hana fjallað í "Design from Scandinavia", hófust umræður um að kirkjan þyrfti á góðu hljóðfæri, pípuorgeli, að halda.
Stofnaður var sjóður til minningar um fyrsta organista Grafarvogskirkju frú Sigríði Jónsdóttur, sem lést fyrir aldur fram, en Sigríður lagði traustan grunn að tónlistarstarfi innan kirkjunnar. Þakkir eru færðar öllum þeim sem í gegnum árin hafa styrkt sjóðinn.
Þar sem ljóst er að 40 radda pípuorgel, sem sæmir Grafarvogskirkju, er mikil fjárfesting og sýnt var að sú kynslóð, sem nú er að alast upp, fengi ekki að njóta tóna frá "drottningu hljóðfæranna" eins og orgelið er oft nefnt, komu nokkur sóknarbörn saman og ræddu hvað væri til ráða.
Niðurstaðan var sú að freista þess að leita til nokkurra þjóðkunnra einstaklinga, sem hafa á síðustu misserum skapað nýtt viðskiptaumhverfi fyrir okkur Íslendinga bæði á innlendum og erlendum vettvangi.
Þrír stórhuga menn komu saman í Grafarvogskirkju. Það var skemmtilegt að hlýða á þá rifja upp sögu sína, sem felur í sér meira en "ameríska drauminn" eins og hann hefur verið nefndur í heimi viðskiptanna. Þeir Björgólfur Guðmundsson f.h. Landsbanka Íslands, Finnur Ingólfsson f.h. Vátryggingafélags Íslands og Jóhannes Jónsson í Bónus f.h. Baugur Group tilkynntu okkur í Grafarvogssöfnuði skömmu síðar að þeir væru reiðubúnir að gefa Grafarvogssöfnuði, fjölmennasta söfnuði landsins með um 20 þúsund sóknarbörn, nýtt 40 radda orgel.
Hvílíkur höfðingsskapur. Við eigum ekki orð - en getum aðeins þakkað af heilum hug. Orð frelsarans koma upp í hugann: "Sælla er að gefa en að þiggja."
Höfundur er sóknarprestur í Grafarvogskirkju.