Þegar líður að lokum árs fær breska bókmenntatímaritið Times Literary Supplement að vanda hóp þekktra rithöfunda víða að til þess að segja frá bestu bókunum sem þeir hafa lesið á árinu. Þetta er iðulega forvitnileg og gagnleg lesning.

Þegar líður að lokum árs fær breska bókmenntatímaritið Times Literary Supplement að vanda hóp þekktra rithöfunda víða að til þess að segja frá bestu bókunum sem þeir hafa lesið á árinu. Þetta er iðulega forvitnileg og gagnleg lesning.

Suður-afríska nóbelskáldið Nadine Gordimer segir Shalimar the Clown eftir Salman Rushdie vera skáldsögu ársins. "Hann er meistari í því að koma þverbrestum mannsins til skila í bókmenntaverki," segir hún um Rushdie og heldur því fram að bókin sé ekki tískuverk af póstmódernískum meiði heldur rushdísk-gotnesk sem sé bókmenntagrein sem fangi hrylling styrjalda samtímans. Gordimer nefnir einnig This I Believe: An A to Z of a life eftir mexíkanska rithöfundinn Carlos Fuentes. "Verk fullkomins huga," segir hún um höfundinn sem skrifar hér bókmenntalega ævisögu sína.

Katalónski rithöfundurinn Juan Goytisolo segist hafa verið að endurlesa þrjár borgarsögur frá tuttugustu öld: St. Pétursborg eftir Andrey Bely, Ódysseif eftir Joyce og Berlin Alexanderplatz eftir Alfred Döblin. Hann segir að þær séu allar fremur borgartextar en skáldsögur þar sem list skáldsagnahöfundarins verður að borgarfræði og kortalestri sem endurskapar fortíð borganna sem söguhetjur bókanna ferðast um.

Bókmenntafræðingurinn Frank Kermode nefnir ævisögu forvígismanns nýrýninnar á fyrri hluta síðustu aldar, Williams Empsons, eftir John Haffenden en einnig nýjustu skáldsögu Kazuos Ishiguros, Slepptu mér aldrei , sem komin er út í íslenskri þýðingu. Hann segist ekki nefna hana vegna þess að hún sé besta bók Ishiguros heldur vegna þess að hún rak hann til þess að lesa eldri bækur hans og uppgötva vonum seinna The Unconsoled .

Joyce Carol Oates nefnir meðal annars ævisögu Edmunds White, My Lives , greinasafn Johns Updike, Still Looking: Essays in American Art og í flokki skáldverka nefnir hún meðal annars The March eftir E.L. Doctorow og Extremely Loud and Incredibly Close eftir Jonathan Safran Foer.

Áðurnefndur Edmund White nefnir Joyce Carol Oates og nýja bók hennar Mother, Missing sem hann segir ekki líkjast neinu sem hún hefur skrifað áður en í forgrunni er einfeldningsleg móðir sem hlýtur hörmuleg örlög. White segir sögu Oates mjög læsilega.

James Wood nefnir mjög forvitnilega bók með því, sjálfsagt að mörgum finnst, ólíklega nafni Literature, Theory, and Common Sense eftir Antoine Compagnon en hann fjallar um það hvernig bókmennta- og menningarfræði hafa lagt sig sérstaklega eftir því að búa til það sem hann kallar falska andstæðuhugsun, höfundurinn sé til dæmis annaðhvort alráður og alltumlykjandi eða steindauður. Að hans mati sé til meðalvegur sem sé bæði frjálslyndur og skynsamlegur um leið og fræðikenningum er alls ekki hafnað. Líklega er Compagnon þó að vísa mönnum á veginn sem er nú þegar hvað fjölfarnastur því að þótt kenningarnar orði hlutina stundum með öfgafullum hætti þýðir það ekki að fræðimennirnir elti þær blindandi; lestur er alltaf spurning um almenna skynsemi umfram allt annað.

Ef undirritaður ætti að gerast svo frakkur að nefna bestu bækur sem hann hefur lesið á árinu sem er að líða þá koma aðallega erlendar bækur upp í hugann og þær ekki allar glænýjar. Fyrst ber þó að nefna ljóðabók Þorsteins frá Hamri Dyr að draumi sem rekur smiðshöggið á þriggja bóka flokk þar sem samfylgd skálds og skáldskapar er lýst. Endurútgefnar og bættar þýðingar Michaels Hamburger á ljóðum Friedrichs Hölderlin eru einnig þess verðar að sökkva sér í. Endurteknar ferðir um víðáttur stórvirkis Roberts Musils um Manninn án eiginleika hafa líka vakið hugsanir sem maður hélt ekki að byggju í þessum haus. Slow Man eftir Nóbelshöfundinn J.M. Coetzee hefst með svo mikilli snilld að það er ómögulegt annað en að klára. Barndómur eftir sama höfund er sömuleiðis til marks um snilld þessa höfundar. Og að síðustu er rétt að benda á Tyrkjan Orhan Pamuk, sem sætir ofsóknum í heimalandi sínu, en hefur skrifað að minnsta kosti tvær athyglisverðar skáldsögur, My Name is red og Snow en á þessu ári kom síðan út ævisaga hans Istanbul sem varpar ljósi á það þjóðfélag sem ofsækir höfundinn.