ÍSLENDINGAR standa betur að vígi en Norðmenn í fiskveiðistjórnun, fiskvinnslu og markaðssetningu. Jafnt er á komið í fiskveiðum og Norðmenn eru feti framar á tveimur sviðum, hagstjórn og aðbúnaði fyrirtækja.

ÍSLENDINGAR standa betur að vígi en Norðmenn í fiskveiðistjórnun, fiskvinnslu og markaðssetningu. Jafnt er á komið í fiskveiðum og Norðmenn eru feti framar á tveimur sviðum, hagstjórn og aðbúnaði fyrirtækja. Sjávarútvegur á Íslandi fær einkunnina 4,6 á skalanum frá einum upp í sjö, en norski sjávarútvegurinn fær einkunnina 4,5.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um samkeppnihæfni sjávarútvegs, sem Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra kynnti í gær. Í henni er gerður víðtækur samanburður á íslenskum og norskum sjávarútvegi. Þótt Íslendingar fái örlítið hærri heildareinkunn í skýrslunni er munurinn ekki marktækur.

Skýrsla eins og þessi hefur ekki verið gerð áður en í henni eru leiddir í ljós styrkleikar og veikleikar á mörgum sviðum svo hægt er að greina hvar má gera betur. Megintilgangurinn að átta sig á hvar sóknarfæri eru og nýta þau til að skapa samkeppnisforskot á aðrar þjóðir.

Skýrslan byggist á sex meginþáttum og ítarlegum samanburði þeirra á milli þjóðanna tveggja. Liðirnir sex eru: Fiskveiðar, hagstjórn og almenn starfsskilyrði fyrirtækja, umhverfi og innviðir, fiskveiðar, fiskvinnsla og markaðssetning.

Íslendingar standa betur að vígi en Norðmenn í fiskveiðistjórnun, fiskvinnslu og markaðassetningu. Jafnt er á komið í fiskveiðum og Norðmenn eru feti framar á tveimur sviðum, hagstjórn og aðbúnaði fyrirtækja. Það skýrist fyrst og fremst af háum flutningskostnaði afurða hér í samanburði við Noreg og sterkri stöðu íslensku krónunnar. Hvað fiskveiðistjórnunina snertir helgast hærri einkunn Íslendinga einkum af því að framsal aflaheimilda er mun frjálsara hér en í Noregi. Íslendingar eru duglegir að nýta nýjustu tækni og gott samstarf við íslenska framleiðendur tækja til fiskvinnslu hefur sitt að segja í fiskvinnslunni og í markaðsmálum hafa Íslendingar einfaldlega betri og verðmætari vöru fram að færa.

Ætlunin er að gefa árlega út skýrslu sem þessa en Verðlagsstofa skiptaverðs gerði skýrsluna í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Háskólann í Tromsö í Noregi.