HETTUSÓTTARTILFELLI á Íslandi voru flest í nóvember á þessu ári en áður hafði verið talið að faraldurinn hefði náð hámarki í júlí og ágúst og myndi dvína seinni hluta árs. Fjöldi greindra tilfella í nóvember var 19 en frá júlí til október voru þau að meðaltali 12,5. Því er ljóst að hettusóttartilfellum fjölgar enn.
Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Farsóttarfrétta sem sóttvarnarlæknir gefur út. Þeir einstaklingar sem einkum sýkjast eru þeir sem fæddir eru á árunum 1981 til og með 1985, en það eru þeir sem misstu af MMR-bólusetningu sem hófst hjá 18 mánaða gömlum börnum á árinu 1989 og hjá níu ára börnum 1994. Þessir einstaklingar geta leitað til næstu heilsugæslustöðvar og er bólusetning þeim að kostnaðarlausu.