Formaðurinn Sólrún Tryggvadóttir, formaður Kvenfélags Selfoss, með Jóru, dagbókina góðu sem er undirstaða alls fjáröflunarstarfs félagsins.
Formaðurinn Sólrún Tryggvadóttir, formaður Kvenfélags Selfoss, með Jóru, dagbókina góðu sem er undirstaða alls fjáröflunarstarfs félagsins. — Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Eftir Sigurð Jónsson Selfoss | "Já, þetta félag er stórt í hugsun og það er mikill hugur í konunum í félaginu.
Eftir Sigurð Jónsson

Selfoss | "Já, þetta félag er stórt í hugsun og það er mikill hugur í konunum í félaginu. Við fáum alls staðar mjög góðar viðtökur þar sem við komum í okkar erindagjörðum en við vinnum að mannúðar- og menningarmálum með því að safna fé og styðja starfsemi á mörgum stöðum," segir Sólrún Tryggvadóttir, kennari í Sunnulækjarskóla og formaður Kvenfélags Selfoss, en félagið hélt nýverið sinn árlega jólagjafafund þar sem afhentar voru gjafir og styrkir að verðmæti 1,2 milljónir króna.

Jóra er undirstaða gjafanna

Sólrún hefur verið formaður félagsins síðan 2001 en Kvenfélag Selfoss var stofnað 1948 og hefur alla tíð verið máttarstólpi í samfélaginu á Selfossi eins og algengt er um kvenfélögin. Félagið var frumkvöðull og brautryðjandi varðandi leikvelli og leikskóla á Selfossi og átti stóran þátt í því að Sjúkrahús Suðurlands varð að veruleika á Selfossi á sínum tíma. Félagið hefur í gegnum árin stutt starfsemi Sjúkrahússins með gjöfum bæði eitt og sér og líka sem aðili að Sambandi sunnlenskra kvenna.

"Það er mjög gaman og gefandi að vera í Kvenfélaginu, við höldum fundi einu sinni í mánuði þar sem fram fara almenn félagsstörf ásamt því að við fáum fyrirlesara á fundina, konur sem kynna starfsemi sem þær eru með eða þátttakendur í. Einnig fáum við önnur kvenfélög til okkar í heimsókn og okkur er boðið í heimsóknir til annarra kvenfélaga. Við fórum til dæmis í heimsókn í Gnúpverjahreppinn nú í október til Olgu Andersen sem á og rekur Hótel Freyju og er þar með litla verslun og selur bútasaum ásamt ýmsu fleira. 19. júní fórum við auðvitað til Þingvalla á hátíðina vegna 90 ára kosningaafmælis kvenna. Svo stöndum við fyrir konukvöldum á Hótel Selfossi annað hvert ár í kring um afmæli félagsins 8. mars en þá gerum við okkur alltaf dagamun. Einnig styrkir félagið félagskonur sínar til náms fyrir allt að 7.500 kr. á önn.

Annars er það Jóra sem er eitt aðalverkefni okkar. Þetta er dagbók sem við seljum á 1.200 krónur og er hún gefin út í 600 eintökum og er alveg að seljast upp. Þetta er venjuleg dagbók í grunninn en í henni eru líka auglýsingar og styrktarlínur og svo uppskriftir og ýmis fróðleikur. Bókin er grunnurinn að þeim gjöfum og framlögum sem við stöndum fyrir," segir Sólrún en nafn bókarinnar er dregið af þjóðsagnarpersónunni Jóru úr Sandvíkurhreppi sem hljóp yfir Ölfusá með því að stikla á Jórukletti á leið sinni til fjalla í Grafningnum þar sem hún hrelldi ferðamenn úr Jórukleif í nágrenni Þingvallavatns.

Börnin halda manni ungum

"Ég fæ ákveðna lífsfyllingu út úr því að sjá félagið ýta undir ýmsa góða starfsemi. Ég byrjaði að sækja fundi skömmu eftir að ég kom hingað á Selfoss 1992 úr Kópavogi og ég gekk í félagið í framhaldi af því. Mér fannst það góð aðferð til að kynnast konum og hef eignast margar vinkonur í gegnum félagsskapinn og núna eru frábærar konur með mér í stjórn sem og í ýmsum nefndum félagsins. Kvenfélögin eru alveg sérstök félög þar sem rauði þráðurinn er manngæska. Við erum aðallega að hugsa um velferð mannsins á mörgum sviðum og þannig hefur það verið í þessum félögum frá upphafi. Kvenfélögin héldu utan um ýmis menningarmál og framfaramál í samfélaginu. Ef við vinnum saman er allt miklu auðveldara," segir Sólrún.

Hún kennir í Sunnulækjarskóla á Selfossi en það er nýr skóli með nýja nálgun í skólastarfinu. Hún kennir 3. bekk þar sem eru samtals 40 nemendur og vinnur að því með öðrum kennara og tveimur stuðningsfulltrúum. Auk þess er hún í teymi með kennurum 4. bekkjar sem eru á næsta kennslusvæði og samanlagt eru 69 nemendur í þessum tveimur árgöngum. Í þeim starfa saman 4 umsjónarkennarar, 3 stuðningsfulltrúar og einn sérkennari.

"Þetta er skemmtilegt þróunarstarf sem við erum að vinna og við vinnum mikið saman. Kennarastarfið er auðvitað erfitt en líka gefandi og skiptir þá miklu máli að gott samstarf sé við foreldrana, börnin og samstarfsfólkið í skólanum. Þetta myndar allt góða andlega heild. Börnin halda manni ungum og gefa manni tækifæri að sjá hlutina frá nýju sjónarhorni," segir Sólrún sem er kennari af lífi og sál.

Í frístundum stundar hún gönguferðir og segist vera mikil útivistarkona. "Ég hef gaman af gönguferðum, fór í tvær stórar gönguferðir í sumar, á Hornstrandir og Víknaslóðir á Austurlandi. Ég fæ mikið út úr þessum ferðum sem gefa mikla slökun og maður upplifir landið öðruvísi en þegar maður er akandi. Svo er ég í gönguhópi og hjólahópi hér á Selfossi. Einnig er ég í fjölskyldugönguhópi sem hefur m.a. gengið í frönsku Ölpunum. Síðan finnst mér mjög gaman að renna mér á skíðum eða ganga á gönguskíðum," segir Sólrún Tryggvadóttir, kennari og kvenfélagsformaður á Selfossi.