HERMANN Hreiðarsson og samherjar í Charlton hafa ekki leikið upp á sitt besta upp á síðkastið.

HERMANN Hreiðarsson og samherjar í Charlton hafa ekki leikið upp á sitt besta upp á síðkastið. Þeir glopruðu tveggja marka forskoti niður í tap á móti Blackburn fyrir tveimur vikum og um síðustu helgi voru þeir kjöldregnir af liðsmönnum Manchester City á heimavelli. Eftir afar góða byrjun á leiktíðinni er Charlton nú fallið niður í 12. sæti og fari allt á versta veg í dag gæti 15. sætið í deildinni orðið raunin.

Verið niðurlægður

"Mér fannst ég hafa verið niðurlægður," sagði Alan Curbishley, knattspyrnustjóri Charlton. "Fyrst tapið á móti Blackburn og síðan leikurinn við Manchester City. Eftir það var nauðsynlegt að hreinsa andrúmsloftið. Vonandi hefur það borið tilætlaðan árangur því ekkert annað en sigur kemur til greina," sagði Curbishley sem krefst sigurs og almennilegrar frammistöðu gegn neðsta liðinu.

"Það er kominn tími til að binda enda á þessa slöku frammistöðu okkar upp á síðkastið. Æfingar síðustu vikur hafa verið góðar og taka vonandi með eitthvað af því hugarfari í leikinn við Sunderland."

Hermann á sínum stað

Ekki er búist við öðru en að Hermann Hreiðarsson verði í stöðu miðvarðar eins og í undanförnum leikjum þrátt fyrir að hann hafi átti sínar slæmu stundir í síðustu leikjum eins og aðrir leikmenn Charlton-liðsins.