Thomas Mann Lítill vafi leikur á tengslum hans og söguhetju Dauðans í Feneyjum.
Thomas Mann Lítill vafi leikur á tengslum hans og söguhetju Dauðans í Feneyjum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dauðinn í Feneyjum eftir þýska rithöfundinn Thomas Mann er eitt af stórvirkjum þessa höfundar þótt það láti í sjálfu sér lítið yfir sér. Bókin kannar sambandið á milli listar og samfélags, fegurðar og dauða.
Dauðinn í Feneyjum er ein af þekktustu bókum þýska nóbelshöfundarins Thomasar Manns (1875-1955) og kom út í aðdraganda að fyrri heimstyrjöldinni árið 1913. Lesa mætti söguna í því ljósi en hún lýsir rosknum manni sem hleypir upp á yfirborðið tilfinningum sem hann hefur bælt í fjöldamörg ár undir knýjandi samfélagsboðum og strangri, raunsæislegri og röklegri lífssýn hins agaða og vinnusama en hlýtur fyrir vikið svipleg örlög. En þessi saga er marglaga og bægir frá sér öllum tilraunum til einfalds lesturs. Eitt er þó víst að hún skírskotar til ævi Manns, eins og margar aðrar skáldsögur hans, en kveikjan að henni var ferð skáldsins til Feneyja árið 1911 þar sem hann kynntist og felldi hug til ungs pilts, eins og Aschenbach, aðalpersóna Dauðans í Feneyjum . Bókin er nú komin út hjá Hávallaútgáfunni í íslenskri þýðingu Þorbjargar Bjarnar Friðriksdóttur.

Hrifningaræði

Dauðinn í Feneyjum segir sögu rithöfundar, Gustav von Aschenbach, sem er kominn á sextugsaldur og þjáist af mikilli ritstíflu. Honum dettur í hug eftir nokkrar bollaleggingar að ferð til Feneyja geti komið hreyfingu á sálarlífið. Reynslan sem bíður hans þar á hins vegar eftir að hafa örlagaríkari áhrif á líf hans en hann hefði getað órað fyrir. Fríðleiki fjórtán ára pilts af pólsku bergi brotins gerir Aschenbach algerlega friðlausan, hann situr um hann, eltir hann og þráir en veit á sama tíma að tilfinningar hans eru forboðnar. Aschenbach frestar heimferð sinni. Þessi drengur er á einhvern undarlegan hátt einmitt það sem hann skortir. Aschenbach er viðurkenndur rithöfundur og undir stöðugum þrýstingi um að skila fullkomnu verki en virðist ekki lengur geta staðið undir væntingum. Líf hans er í raun innantómt en hlýtur nú merkingu frammi fyrir þessari hreinu og tæru fegurð sem slær við öllum skáldskap. Aschenbach verður heltekinn af drengnum og þegar hann stendur frammi fyrir vali á milli þess að hverfa frá Feneyjum - og þar með piltinum fríða - vegna lífshættulegrar plágu sem herjar á íbúa borgarinnar eða dvelja þar áfram og hætta lífi sínu kýs hann síðari kostinn. Í hrifningaræði sínu kemur hann meira að segja í veg fyrir að drengurinn og fjölskylda hans fái upplýsingar um faraldurinn og stofnar þar með lífi þeirra í hættu einnig.

Dauðinn í Feneyjum er stutt skáldsaga eða svokölluð nóvella. Tök Manns á þessu formi eru einstök en tíu árum fyrr hafði hann einnig reynt sig við þessa bókmenntagrein í Tóníó Kröger (1903). Á kápu þýðingarinnar er vitnað til orða Manns um Dauðann í Feneyjum þess efnis að þar komi allt heim og saman, "allt gengur upp, kristallinn er tær". Sagan er hlaðinn táknum og tilvísunum og verðlaunar drjúgum fyrir endurtekinn lestur. Í stórfróðlegum formála að bókinni rekur Kristján Árnason bókmenntafræðingur táknmál bókarinnar sem sækir ekki síst í sjóð fornra goðsagna. Kristján telur og upp margvíslegar vísanir í bókinni til Manns sjálfs og ýmissa annarra skálda og listamanna. Það leikur varla mikill vafi á tengslum höfundar og aðalpersónu bókarinnar, báðir þýskir rithöfundar með svipaðan bakgrunn, samviskusamir úr hófi fram og samkynhneigðir (en Mann var reyndar harðgiftur og átti tvö börn). Aschenbach er þó líklega um tuttugu árum eldri enda eignað verk sem Mann hafði hug á að skrifa um ævi Friðriks mikla Prússakonungs sem einnig var samkynhneigður. En eins og Kristján bendir á hefur Mann sótt efnivið í þennan hálftrénaða rithöfund í aðra merkismenn svo sem Goethe, Feuerbach, Wagner og Gustav Mahler sem leggur til fornafnið en hann lést einmitt í þann mund er Mann var að hefja samningu sögunnar um Aschenbach. Þessa tengingu notfærði sér kvikmyndaleikstjórinn Luchino Visconti í kvikmyndagerð sögunnar þar sem Dirk Bogarde leikur tónskáldið og hljómsveitarstjórann (en ekki rithöfundinn) Aschenbach og tónlist Mahlers hljómar undir. H.C. Andersen og ljóðskáldið August von Platen hafa einnig verið tengdir sögunni. Mann leitaði því víða fanga eins og ævinlega.

Sæmd listamannsins

Mann sagði sjálfur að sagan fjallaði um "algleymi hins dæmda manns" en að vandinn sem hann hefði sérstaklega haft í huga væri "sæmd listamannsins". Þetta er raunar umfjöllunarefni margra skáldsagna Thomasar Manns og kannski má segja að hann hafi hlotið það í arf frá rómantíska tímanum. Í Dauðanum í Feneyjum eru átök listar og samfélags upp á líf og dauða. Í stuttu máli mætti leggja söguna út með nokkurri einföldun á þann hátt að hún fjallaði um skáld sem fengi ekki að lifa list sína nema í bókum sem hann hefði lagt alla sína vinnusemi og allan sinn aga í að skapa en þegar hann svo loksins ætti kost á því að lifa hreina og ósvikna tilfinningu - eða "lífi í álögum listarinnar sem hann hafði reyndar sjálfur eitt sinn á æskuárum farið um háðulegum orðum í borgaralegum anda feðranna," eins og segir í sögunni - þarf hann að kjósa á milli þess að deyja fyrir þá tilfinningu eða gefa hana upp á bátinn og halda lífi í staðinn. Og þar sem skáldið kýs að lifa "í álögum listarinnar" hefur hann einnig stofnað lífi annarra í hættu því hann tekur þar með þá afstöðu að segja ekki frá því sem í raun og veru er að gerast, það er að segja dauðapestinni sem herjar á Feneyjar. Listin, gildi hennar og sýn, er þannig með táknrænum hætti svipt áhrifamætti sínum og réttmæti og þar með gerð útlæg úr hinu borgaralega samfélagi. Sæmd listamannsins fer því fyrir lítið. Kannski er það ekki eins gömul saga og ætla mætti.

Hávallaútgáfan lifi!

Hávallaútgáfan lætur lítið fyrir sér fara. Hún var stofnuð til að koma á framfæri ritum um tónlist og tónlistarmenn sem Árni Kristjánsson píanóleikari vann að síðustu æviár sín, eins og segir á heimasíðu útgáfunnar. Síðan var ákveðið að ráðast í útgáfu á ýmsum verkum fagurbókmennta. Í fyrra komu út bækurnar Ástarflótti eftir þýska rithöfundinn Bernhard Schlink og Pétursborgarsögur eftir úkraínska/rússneska meistarann Nikolaj Gogol. Væntanlegar á næsta ári eru Úkraínusögur eftir Gogol, Glæpur Theresu eftir franska nóbelsskáldið François Mauriac og fleiri bækur. Bókaútgáfa með þessa stefnuskrá verður að lifa af.