VERÐLAGSNEFND búvara hefur samþykkt að hækka heildsöluverð á mjólk frá og með næstu áramótum um 1,46% - 2,5%. Frá sama tíma hækkar afurðastöðvaverð til bænda um 2,9% eða um 1,28 kr. á lítra mjólkur. Þá hafa fulltrúar mjólkuriðnaðarins lýst því yfir að verð á öðrum mjólkurvörum, sem ekki heyra undir ákvörðun nefndarinnar, hækki ekki umfram 2,5%.
Í tilkynningu frá nefndinni kemur fram að heildsöluverð mjólkur og mjólkurafurða hafi verið óbreytt sl. þrjú ár. Í nefndinni sitja sjö fulltrúar, tveir fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands, tveir fulltrúar Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, einn frá ASÍ, einn frá BSRB og einn frá landbúnaðarráðuneytinu sem jafnframt er formaður nefndarinnar.
Nefndin starfar á grundvelli laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum frá árinu 1993.