Michael Essien
Michael Essien
DAVE Whelan, aðaleigandi enska úrvalsdeildarliðsins Wigan segir að Michael Essien, leikmaður Chelsea, eigi að fá í það minnsta 10 leikja keppnisbann vegna tilburða sinna í leik gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn - en þar var Essien...

DAVE Whelan, aðaleigandi enska úrvalsdeildarliðsins Wigan segir að Michael Essien, leikmaður Chelsea, eigi að fá í það minnsta 10 leikja keppnisbann vegna tilburða sinna í leik gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn - en þar var Essien heppinn að stórslasa ekki þýska leikmanninn Ditmar Hamann. Whelan var sjálfur atvinnumaður í knattspyrnu á árum áður en varð að hætta þeirri iðju eftir að hann fótbrotnaði illa í háskaleik í bikarúrslitaleik á Wembley árið 1960. Whelan var þá leikmaður Blackburn Rovers sem lék gegn Úlfunum í úrslitaleiknum.

"Essien á að fá langt keppnisbann, á bilinu 7-10 leiki, fyrir slíka tæklingu. Hann fékk ekki einu sinni áminningu, en þetta var eitt það ljótasta atvik sem ég hef séð í langan tíma. Það er ótrúlegt að Hamann skyldi ekki fótbrotna en þetta atvik var mjög svipað því er Norman Deeley fótbraut mig í bikarúrslitaleiknum. Eftir það lék ég ekki fleiri leiki og ég get sagt það að sá leikmaður sem gerir slíkt í búningi Wigan mun ekki komast upp með slík brot," sagði Whelan. Paul Jewell, knattspyrnustjóri Wigan, hefur fengið grænt ljós á að kaupa leikmenn í janúar til þess að styrkja liðið en Wigan hefur nú tapað tveimur leikjum í röð. Liðið tapaði naumlega, 1:0, gegn Chelsea í fyrsta leik liðsins í ensku úrvalsdeildinni.