Hvammstangi | Umræður hafa verið á Hvammstanga að undanförnu í kjölfar frétta af hugsanlegu samstarfi Kaupfélags Vestur-Húnvetninga og Kaupfélags Skagfirðinga. Þorsteinn Sigurjónsson, stjórnarmaður KVH, segir umræðuna fyrst og fremst hafa stafað af misvísandi fréttaflutningi en þegar málið var lagt fyrir íbúa á réttan hátt og útskýrt, hafi verið auðséð að lausn mála sé ásættanleg - miðað við þá stöðu sem kaupfélagið er í.
Fyrirhugað er að stofna hlutafélag um rekstur á sláturhúsi KVH sem verður að hálfu í eigu hvors aðila en einnig verður flutningadeild kaupfélagsins seld Vörumiðlun sem er í eigu KS. Þá eru einnig uppi hugmyndir um að Samkaup taki við rekstri verslunarinnar. "Það er reyndar allt óvíst, við erum að vonast til þess að Samkaup sé tilbúið að kaupa hana af okkur en svo eru nokkrir heimamenn búnir að taka sig saman og sýna þessu áhuga," segir Þorsteinn og segir að rekstur kaupfélagsins hafi gengið illa að undanförnu en nú sé vonast til þess að hallarekstur stöðvist og félagið komist á réttan kjöl.
Miklar breytingar verða á rekstri kaupfélagsins, verulega verður dregið úr rekstrinum og Þorsteinn útilokar ekki að kaupfélagið endi sem eignarhaldsfélag. Um málefni starfsmanna segir Þorsteinn að ljóst sé að skrifstofuhaldið verði dregið saman sem nemur umsvifum kaupfélagsins. Ekki liggur fyrir hversu margir munu missa vinnuna en unnið er að því jöfnum höndum að fá ný störf í bæinn. Þorsteinn gat hins vegar ekki skýrt það betur að svo komnu máli.