Í dag eru nákvæmlega 50 ár liðin frá því Halldór Laxness tók við Nóbelsverðlaunum í bókmenntum úr hendi Gústafs Adolfs sjötta Svíakonungs. Ekki þarf að hafa orð á því einu sinni enn, hvílíkur fengur þau voru bæði skáldinu sjálfu, íslenskum bókmenntum og íslensku þjóðinni. Ritstjóri Lesbókarinnar hefur hins vegar beðið mig að hugleiða hvernig farið hefði, ef Gunnar Gunnarsson hefði hlotið Nóbelsverðlaunin. Hér var tekinn sá kostur að nema staðar við þau tvö ár, þar sem einna helst er hægt að hugsa sér - út frá því sem vitað er um úhlutun verðlaunanna - að þau hefðu komið í hlut Gunnars: 1922 og 1955.
Nóbelsverðlaunin
Sænska akademían veitti Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, sem sett voru á stofn samkvæmt erfðaskrá Alfreðs Nobels, í fyrsta sinn árið 1901. Átjánmenningarnir í akademíunni höfðu þá mótað ákveðið ferli sem átti að tryggja gott val á verðugum höfundi. Þar var kveðið á um hverjir mættu tilnefna höfunda, svosem háskólaprófessorar í bókmenntum og málvísindum, rithöfundasamtök og systurfélög akademíunnar, þ.e. aðrar akademíur. Sett var á laggirnar fimm manna Nóbelsnefnd innan akademíunnar, og smám saman mótaðist líka sú hefð að fá álit sérfróðra manna á þeim uppástungum sem bárust.En mest traust hafði akademían framan af á sjálfri sér og sínum líkum. Fyrsti verðlaunahafinn kom einmitt úr þeirri átt: Sully Prudhomme, ljóðskáld og félagi í frönsku akademíunni, sem tilnefndur var af félögum sínum og löndum. Sjálfsagt eru þeir ekki margir Íslendingarnir sem hafa sett sig inn í kveðskap Prudhomme og þegar gögn sænsku akademíunnar eru skoðuð, kemur í ljós að margir af þeim 25 sem tilnefndir voru fyrsta árið eru nú gleymdir - það kynni að vefjast fyrir mönnum að gera grein fyrir þeirri merkiskonu Malwidu von Meysenburg, eða sagnfræðingnum A. D. Xenopol. Þess má geta að karlar voru í miklum meirihluta hinna tilnefndu rétt einsog í akademíunni sjálfri - af fyrstu 90 verðlaunahöfundum voru aðeins átta konur.
Einn þeirra sem tilnefndir voru fyrsta árið skipar að vísu enn stóran sess í evrópskri bókmenntasögu sem brautryðjandi natúralismans og eindreginn talsmaður hins frjálsa orðs: Frakkinn Emile Zola. Nóbelsnefndinni þótti hann þó ekki verðugur svo fínna verðlauna, vegna "hinnar andlausu og einatt grófu kaldhæðni í natúralisma hans" einsog segir í greinargerð hennar.
Næsti Nóbelsverðlaunahafi var reyndar líka meðlimur í akademíu, en það var hinn afkastamikli sagnfræðingur Theodor Mommsen. Félagar hans í prússnesku vísindaakademíunni í Berlín höfðu gert tillögu um hann. 34 tilnefningar bárust árið 1902, og meðal þeirra voru - auk Zola - bæði Leo Tolstoj og Henrik Ibsen. Nefnd akademíunnar efaðist reyndar ekki um þýðingu skáldsagna Tolstojs fyrir heimsbókmenntirnar, en henni mislíkuðu mjög önnur skrif hans, sem hún taldi bæði menningarfjandsamleg og einkennast af trúarlegri dulúð og stjórnleysisstefnu. Akademíunni leist heldur ekki á viðhorf Ibsens í seinni tíð, þótt hún hafi velt fyrir sér að skipta verðlaununum með honum og Björnstjerne Björnson. Svo fór reyndar að Björnson hlaut verðlaunin árið eftir, og hugmyndinni um að skipta þeim með Ibsen og honum var vísað á bug á þeim forsendum að þá væri of lítið gert úr þeim báðum - líktog þeir forþénuðu ekki nema hálf verðlaun. Þekktasti höfundur Svía sjálfra á þessum tíma, August Strindberg, var hins vegar aldrei svo mikið sem tilnefndur. Að vísu mun hafa verið send inn tilnefning árið 1911, en hún barst "of seint" samkvæmt reglunum.
Þannig má segja að sænsku akademíunni hafi í upphafi gefist kostur á að verðlauna nokkra af merkustu höfundum nítjándu aldar, en látið tækifærið ganga sér úr greipum. Meðal þeirra 19 sem stungið var upp á árið 1904 voru bæði Georg Brandes, Tolstoj og Ibsen, en akademían tók þann kost að skipta verðlaununum á milli franska ljóðskáldsins Frédéric Mistral og spænska leikskáldsins José Echegaray. Það er léttur leikur að horfa á þessar fyrstu úthlutanir úr bókmenntasögulegri fjarlægð en ákvarðanir sænsku akademíunnar hlutu auðvitað frá upphafi að vekja spurningar og andsvör. Engu að síður urðu verðlaunin fljótt bæði heimsfræg - og eftirsótt.
Að langa í Nóbelinn
Ungir höfundar létu sig dreyma um Nóbelinn, og þar voru íslensk skáld engin undantekning. En þeir voru ekki margir í upphafi 20. aldar sem gátu helgað sig ritstörfum og reynt að skapa sér nafn á alþjóðavettvangi, utan kannski íslensku höfundarnir í Danmörku. Tveir þeirra, Jóhann Sigurjónsson og Gunnar Gunnarsson, urðu nánir vinir. Ekkja Jóhanns, Ingeborg, átti í fórum sínum plagg sem þeir félagar sömdu í ársbyrjun 1916. Þar segir: "Við undirritaðir, Gunnar Gunnarsson og Jóhann Sigurjónsson, lýsum hér með yfir því, að verði öðrum hvorum framanskráðra veitt Nóbelsverðlaunin, hvort heldur öll eða hluti af þeim, skuldbindum við okkur til þess, að sá, er þau hlýtur, skuli afsala sér sjö hundruðustu af veitingarupphæðinni til þess okkar, sem ekki hreppir happið. Ennfremur göngumst við undir þá skuldbindingu, að verði öðrum hvorum undirritaðra veitt úr Dánarsjóði Otto Benzons, skuli sá afsala sér tíu hundruðustu af upphæðinni til þess okkar, sem gengið verður framhjá." Skjalið er dagsett í Charlottenlund, 16. janúar 1916 og undirritað af þeim skáldbræðrum.Ekkja Jóhanns segir að þeir hafi samið plaggið í fullri alvöru, þótt einhver hálfkæringur hljóti nú að hafa verið á bak við samning af þessu tagi. En tveimur árum seinna, 1918, var Gunnar hins vegar tilnefndur til Nóbelsverðlauna. Uppástungan barst frá prófessor við Uppsalaháskóla, Adolf Noreen að nafni. Harald Hjärne, formaður Nóbelsnefndar sænsku akademíunnar, víkur góðu að Gunnari í greinargerð sinni og segir hann taka upp þráð hinnar miklu frásagnarhefðar Íslendingasagna. Þrátt fyrir ótvíræðar gáfur Gunnars telur Hjärne ekki rétt að verðlauna hann að svo komnu, enda séu dulúðugar sálfræðipælingar í anda Dostójevskís mikill lýtir á verki hans. Gunnar er tilnefndur tvisvar enn, 1921 og 1922, í bæði skiptin af Adolf Noreen. 1921 skrifaði maður að nafni Sven Söderman sérstaka álitsgerð fyrir akademíuna, og taldi Gunnar án nokkurs vafa mikilhæft skáld sem hefði þroskast hratt að undanförnu en væri samt "enn ekki nógu þroskaður fyrir Nóbelsverðlaunin". Undir þau orð tók Hjärne í sinni greinargerð. Árið1922 var Per Hallström orðinn formaður Nóbelsnefndarinnar og skrifaði blátt áfram að nefndin teldi Gunnar ekki koma til álita.
1922
Gunnar hafði semsé verið tilnefndur þrisvar sinnum og uppástungan verið tekin til alvarlegrar umfjöllunar, en ekki verður ráðið af gögnum að hann hafi komist nærri því að hreppa verðlaunin. En hvað ef honum hefðu verið veitt Nóbelsverðlaunin árið 1922? Noreen professor lagði áherslu á það í tilnefningu sinni það ár að Gunnar ætti að fá verðlaunin fyrir verk sín Sælir eru einfaldir og Ströndin , og það var ekki að ástæðulausu. Um þetta leyti er Gunnar Gunnarsson orðinn einhver vinsælasti skáldsagnahöfundur samtímans á danska tungu. Þótt gagnrýnendur hefðu ýmsa fyrirvara gagnvart Sögu Borgarættarinnar , fyrstu útgefnu skáldsögu Gunnars í Danmörku og jafnframt þeirri vinsælustu alla tíð, voru þeir yfir sig hrifnir af Sælir eru einfaldir , sem út kom 1920. Með því verki sigraði Gunnar hjörtu lesenda og hugi gagnrýnenda; og má hafa til marks um það að bókin var prentuð ellefu sinnum fyrsta árið eftir útkomuna. Danskir gagnrýnendur hrósuðu sérstaklega byggingu hennar og fleiri en einn kallaði söguna "norrænt meistaraverk".Á ferli Gunnars Gunnarssonar hefði ekki verið hægt að hugsa sér betri tímasetningu Nóbelsverðlauna en 1922. Allt frá því fyrsta bindi af Sögu Borgarættarinnar kom út tíu árum fyrr hafði hann verið mjög afkastamikill. Árið 1920 var frumsýnd dönsk kvikmynd eftir Sögu Borgarættarinnar sem var eitthvert mesta stórvirki sem Nordisk film hafði ráðist í og svo löng, að hún var sýnd tvö kvöld í röð í Paladsteatret, helsta bíói Kaupmannahafnar. Allt fínasta fólkið í bænum kom til frumsýningarinnar, þar sem íslenski þjóðsöngurinn var sunginn í upphafi og í lokin; Gunnar var að vísu ósáttur við leikstjórann og lét ekki sjá sig, en það er önnur saga. Snemma á þriðja áratugnum var nýbyrjað að þýða verk Gunnars á önnur mál, og þýðingarstarfið hefði að sjálfsögðu hlotið byr undir báða vængi við verðlaunin.
Sjálfur var Gunnar enn fullur af sköpunarþrótti og byrjaður að skrifa meistaraverk sitt, Fjallkirkjuna , en fyrsta bindi hennar kom út 1923. Í síðustu bindum hennar segir frá baráttu hans fyrir því að verða rithöfundur á dönsku, fyrst í Árósum og síðar Kaupmannahöfn, við mjög erfiðar aðstæður. Tvö síðustu bindin seldust lítið og ekkert miðað við það sem Gunnar var vanur. En hefði hann hlotið verðlaun er enginn vafi á því að miklu fleiri hefðu viljað kynna sér fyrstu sporin á farsælum ferli Nóbelsskálds.
Og Danir hefðu talið hann sinn mann. Hann hefði að vísu ekki verið fyrsti Nóbelsverðlaunahafinn sem skrifaði á dönsku, því árið 1917 var verðlaununum skipt milli Karl Gjellerup og Henrik Pontoppidan, en þá geisaði heimsstyrjöld sem varpaði skugga á öll menningarsamskipti milli þjóða. Líklegra er reyndar að Gunnari hefði verið líkt við annan höfund sem skrifaði eiginlega sama tungumál, Knut Hamsun sem hlaut verðlaunin 1920 og fór sigurför um alla Evrópu á millistríðsárunum. Gunnar hefði án vafa notið vinsælda hans, þótt þeir séu ekki nema að litlu leyti sambærilegir höfundar. Það er til marks um virðingu Gunnars í Danmörku að tveir þekktir gagnrýnendur, Otto Gelsted og Kjeld Elfelt, skrifuðu um hann litlar bækur árin 1926 og 1927. Þær bækur hefðu orðið stærri og fleiri í kjölfar verðlauna, og allar fjallað um danskan rithöfund af íslenskum ættum.
En Íslendingar? Það þarf ekki að efa að þjóðin hefði glaðst yfir frama þessa sonar síns, að nýfengnu fullveldi. Að vísu höfðu komið fram raddir á öðrum áratugnum að þau væri ekki þjóðleg íslensku skáldin í Danmörku, skrifandi á dönsku, og Gunnar reiddist þeim heiftarlega. Og Einar Benediktsson skrifaði margar skammargreinar árið 1916, um allt það "gegndarlausa ritspillandi og smekkspillandi oflof" sem Gunnar hefði verið ausinn.
Ekki var byrjað að þýða Gunnar að ráði á þýsku fyrr en upp úr 1927. Vinsældir hans í Þýskalandi jukust jafnt og þétt og ekki spillti fyrir velvilji hans í garð Þjóðverja. Sem handhafa Nóbelsverðlauna hefði honum jafnvel verið hampað enn meir og sala bóka hans og tekjur orðið enn meiri. Meira að segja vini hans Jónasi frá Hriflu, sem var maður ekki smátækur, blöskraði stórhugur Gunnars þegar hann byggði á Skriðuklaustri 1938-39. Og þó var sú bygging aðeins hluti af þeim miklu áformum sem Gunnar hafði um byggingar á staðnum. Nóbelsverðlaunin hefðu kannski gert honum kleift að láta þau rætast.
En þau hefðu engu breytt um að áform um stórbúskap á Skriðuklaustri voru óraunhæf miðað við íslenska efnahagsþróun - né heldur um gang heimsstyrjaldarinnar - þar með talið hrun þýska bókamarkaðarins: Segja má að á styrjaldarárunum hafi Gunnar Gunnarsson orðið viðskila við söguna.
1955
Nafn Gunnars kom aftur upp árið 1955, þegar Halldóri Laxness voru veitt Nóbelsverðlaunin. Sænska rithöfundasambandið, undir forystu vinar Gunnars Stellan Arvidson, lagði til að verðlaununum yrði skipt milli Gunnars og Halldórs, en að Gunnar fengi þau einn ella.
Merkilega heimild um gang mála er að finna í bréfaskiptum sænska ljóðskáldsins og bókmenntamannsins Sten Selander og Dag Hammarskjöld, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, en þeir áttu báðir sæti í akademíunni. Í ítarlegu bréfi sem Selander skrifar Hammerskjöld fjórða febrúar 1955 fer hann yfir öll helstu nöfn sem til umræðu voru og segir þá að rithöfundurinn Harry Martinson, sem sæti átti í akademíunni, hafi stungið upp á Gunnari Gunnarssyni. Hann skynjar meðal félaga sinna mikinn áhuga á því að verðlaunin fari til Íslands og telur líklegast að Laxness fái verðlaunin eða að þeim verði skipt milli Halldórs og Gunnars.
Ef marka má þessi bréfaskipti er hugmyndin um að skipta verðlaununum milli Gunnars og Halldórs öðru hverju á sveimi þetta ár, alltént reifar Harry Martinson hana aftur í byrjun október og Nóbelsnefndin mun hafa gert það líka, en akademían kynnti oftast niðurstöðu sína í lok mánaðarins. Í nýrri bók Hannesar H. Gissurarsonar er því haldið fram, eftir munnlegri heimild, að nokkrir íslenskir menntamenn hafi beinlínis beitt sér gegn því að Gunnar hlyti verðlaunin og sent skeyti til akademíunnar þar sem þeir héldu fram Halldóri einum.
Ef eitthvað þvældist fyrir Gunnari innan akademíunnar, annað en skiptar skoðanir um ágæti hans sem höfundar, kann það líka að hafa verið pólitísk fortíð hans. Nú er rétt að taka það fram að ég tel það fjarri sanni að Gunnar hafi verið nasisti. En þýsk stjórnvöld hömpuðu honum mikið allan fjórða áratuginn og hann var tíður gestur þeirra, þáði af þeim margvíslegan heiður og forðaðist að gagnrýna þau, lýsti þvert á móti ánægju með uppbyggingu hins "nýja Þýskalands" einsog það var kallað. Í febrúar og mars 1940 hitti hann bæði Göbbels og Hitler í Berlín, en sá vafasami heiður hlotnaðist fáum erlendum listamönnum, hálfu ári eftir að heimsstyrjöldin var hafin.
Af þessum sökum gengu í Danmörku þær sögur eftir stríð að Gunnar hafi verið nasisti og þótt þær færu ekki hátt, bar ákaflega lítið á Gunnari í danskri bókmenntaumræðu eftir þetta, líktog hann hafi orðið persona non grata. Þessar raddir gætu hafa borist akademíunni til eyrna, hvort heldur frá Danmörku eða Íslandi, og sú saga lifir í fjölskyldu Gunnars að haft hafi verið samband við hann frá Stokkhólmi og honum sagt frá því að babb væri komið í bátinn meðal annars vegna umræðna um meinta nasíska fortíð hans. Gunnari, sem var ákaflega stoltur maður að ekki sé sagt einþykkur, mislíkaði þetta stórum og fór símtalið að lokum svo að hann skellti á.
Að mínum dómi réði þó tvennt mestu um að Halldór varð ofan á í atkvæðagreiðslum akademíunnar, að því gefnu að hann var talinn merkur rithöfundur. Annars vegar hafði Halldór, allt frá því hann var fyrst tilnefndur 1948, notið mikils stuðnings í sænskum blöðum og meðal sænskra gagnrýnenda. Margir málsmetandi sænskir bókmenntamenn hvöttu til þess bæði 1953 og 1954 að honum yrðu veitt verðlaunin. Hins vegar hafði það úrslitaþýðingu að hann skyldi skrifa á íslensku - endurvekja íslenska frásagnarhefð og gera íslenskuna að heimsbókmenntamáli að nýju, einsog það var orðað; þetta kemur skýrt fram bæði í rökstuðningi akademíunnar og lýsingu Selanders á umræðum innan hennar.
Hér háði það Gunnari sem hafði upphaflega gert honum kleift að gerast atvinnuhöfundur - að hann skyldi skrifa á dönsku. Og auðvitað hefur þetta haust 1955 verið honum erfitt; sé sagan um skeytið sönn, voru það ekki pólitískir andstæðingar Gunnar sem lögðu stein í götu hans, heldur vinir hans og forystumenn "borgaralegra" afla á bókmenntasviðinu. Erfitt er að ímynda sér þann höfund sem ekki yrði bitur í kjölfar slíkrar atburðarásar.
En segjum nú að atvikin hefðu hagað því svo að Gunnar hefði fengið verðlaunin með Halldóri. Ef til dæmis rithöfundurinn Stellan Arvidson, sem skrifaði bók um Gunnar sem hann var afar lengi að koma saman, hefði lokið verki sínu fyrr og reynst Gunnari jafn öflugur talsmaður í Svíþjóð og Peter Hallberg Halldóri. Ef hugmyndir um kvikmyndun Aðventu , sem voru til umræðu í Bandaríkjunum á stríðsárunum, hefðu leitt til farsællar niðurstöðu og útgáfa á bókum Gunnars á ensku hefði tekið fjörkipp í kjölfarið. Hvað mætti ímynda sér að hefði gerst í kjölfarið?
Í fyrstu sér maður fyrir sér einlægan og mikinn fögnuð á Íslandi, líka meðal stjórnvalda. Við hefðum sloppið við vandræðagang Morgunblaðsins þegar Halldór fékk verðlaunin, og auk Alþýðusambandsins og Bandalags íslenskra listamanna hefði íslenska ríkisstjórnin tekið á móti höfundunum - ef við segjum að þeir hefðu hist á bryggjunni í Reykjavík, annað komandi að austan en hinn frá Kaupmannahöfn, kurteisir og elskulegir hvor við annan enda báðir sannfærðir um að hinn væri næstbesti höfundur Íslands. Þjóðviljinn hefði líka tekið niðurstöðunni fagnandi, og látið gagnrýni sína á Þýskalandsferðir Gunnars, sem Magnús Kjartansson ritstjóri dró uppúr pússi sínu 1954 af því honum mislíkaði ræða Gunnars um kalda stríðið á Heimdallarfundi, kyrrt liggja um hríð.
Niðurstaðan hefði vakið nokkra furðu og jafnvel gagnrýni erlendis, hvorugur höfundurinn var verulega stórt nafn á sumum málsvæðum, en það hefði í fyrstu ekki haft teljandi áhrif hér - sigur Íslands og íslenskra bókmennta hefði verið aðalefnið í öllum hátíðaræðum. Íslenska ríkið hefði ekki dregið í fjörutíu ár að koma Skriðuklaustri í það horf sem gefendur, hjónin Gunnar og Franzisca, höfðu hugsað sér. Ritsafn Gunnars hjá Almenna bókafélaginu hefði selst gríðarlega, og hugsanlega hefði höfundurinn ekki notað síðasta aldarfjórðunginn til að þýða sjálfan sig, heldur hrist af sér beiskju og slen og skrifað nýjar bækur. Í veruleikanum sendi hann frá sér sína síðustu skáldsögu, Brimhendu , árið áður (1954).
Þótt Gunnar hafi aldrei verið neinn stjórnmálaleiðtogi, hefðu verðlaun honum til handa eflt til muna sjálfstraust hægri manna á menningarsviðinu, þar sem þeir töldu sig eiga undir högg að sækja. Gunnar var ötull forystumaður í Almenna bókafélaginu frá stofnun þess, og með honum sem Nóbelsverðlaunahafa hefðu borgaraleg öfl eignast mikilsvert menningarpólitískt tákn sem hefði getað veikt stöðu vinstri manna. Því meginþýðing Nóbelsverðlaunanna er heimafyrir - ekki síst hjá smáþjóð einsog Íslendingum. Þetta má marka til dæmis af því að verðlaunin höfðu fyrst um sinn engin sérstök áhrif á útgáfumál Halldórs Laxness í hinum enskumælandi heimi.
Auðvitað hefði niðurstaðan líka valdið deilum á Íslandi að fagnaðar- og veislutíma liðnum. Þetta er í miðju köldu stríði, deilendur hefðu ekki dregið dul á með hvorum þeir héldu og báðum hlaupið kapp í kinn. Og eftir því sem árin liðu hefði Gunnar rétt einsog Halldór orðið að svara erfiðum spurningum. Hann hefði verið krafinn um uppgjör vegna afstöðu sinnar til Þýskalands nasismans rétt einsog Halldór vegna Stalíns, en slíkur hugsunarháttur var mjög fjarri Gunnari. Miklu meira hefði verið skrifað um verk hans, bæði gott og vont, ævisaga hans væri komin út í tveimur bindum og Hallgrímur Helgason hefði vakið mikla athygli fyrir bók sína "Höfundar Íslands". Og helstu skáldsögur hans væru fáanlegar í kilju á íslensku, en sem stendur er engin slík á markaði hér.
Eitt er alveg víst: Gunnar Gunnarsson hefði ekki verið þurrkaður jafn rækilega út úr danskri bókmenntasögu og raunin hefur orðið. Á níunda áratug síðustu aldar var gefin út dönsk bókmenntasaga hjá Gyldendal í níu stórum bindum, sem verður að teljast nokkuð langt mál um þetta efni. Sjöunda bindið fjallar um árin 1901-1945 og er yfir 600 blaðsíður að stærð. Þar er Gunnar Gunnarsson ekki nefndur á nafn. Á þessu ári, 2005, hefur komið út stór dönsk bókmenntasaga í einu bindi ( Hovedsporet - dansk litteraturs historie , Gyldendal). Þar er rætt bæði um Eddukvæði og Íslendingasögur og skáldið Egil Skallagrímsson. En Gunnar Gunnarsson er ekki nefndur á nafn - frekar en William Heinesen, og er þá fokið í flest skjól. Þetta eru erfið örlög höfundi sem einn helsti danski gagnrýnandinn á þriðja áratugnum taldi með merkustu höfundum á danska tungu (Otto Gelsted).
Samanburður er alltaf smekksatriði, en að mínum dómi er meiri breidd og meiri frjómáttur í höfundarverki Halldórs Laxness en Gunnars Gunnarssonar. Halldór átti ennfremur auðveldara með að fylgjast með nýjum tímum og nýjum hugmyndum, í þjóðfélagsmálum og bókmenntum. En það má ekki verða til þess að við sem fáumst við íslenska bókmenntasögu gleymum bestu verkum Gunnars; þvert á móti eiga þau skilið vandaða krítíska umfjöllun og útgáfu svo þau haldi áfram að vera lesin af íslenskum almenningi, enda þótt hann hafi ekki fengið Nóbelinn...
Tilvísanir
Sjá Nobelpriset i litteratur - Nomineringar och utlåtanden 1901-1950 , 2 bindi, útg. Sænska akademían,
Stokkhólmi 2001.
Tímaritið Helgafell
Kaupmannahöfn 1926.
Gunnars á Þjóðarbókhlöðu, t.d. 22/2 1955.
hans var Franzisca Gunnarsdóttir, sonardóttir skáldsins
og trúnaðarmaður.
Höfundur er bókmenntafræðingur og rithöfundur og er um þessar mundir að skrifa bók um Gunnar Gunnarsson og Þórberg Þórðarson, hliðstæður og andstæður í ævi samtímamanna.