— Morgunblaðið/Jim Smart
ÞÆR syngja inn jólin fyrir Svíana og marga aðra, hvítklæddu Lúsíurnar með kertaljós á höfði á árlegri Lúsíuhátíð sem Sænska félagið á Íslandi stendur fyrir. Næstkomandi þriðjudag hinn 13. desember verður fimmtugasta Lúsíuhátíðin hér á landi klukkan 20.

ÞÆR syngja inn jólin fyrir Svíana og marga aðra, hvítklæddu Lúsíurnar með kertaljós á höfði á árlegri Lúsíuhátíð sem Sænska félagið á Íslandi stendur fyrir. Næstkomandi þriðjudag hinn 13. desember verður fimmtugasta Lúsíuhátíðin hér á landi klukkan 20.00 og fer hún fram í Grafarvogskirkju undir dyggri stjórn Mariu Cederborg.

Á Lúsíuhátíðinni eru sungnir Lúsíu- og jólasöngvar. Í fararbroddi gengur Lúsían með kertaljós í krans á höfðinu og á eftir fylgja þernurnar og stjörnustrákarnir með kertaljós í hönd. Hinir sígildu Lúsíusnúðar og aðrar veitingar verða seldar að lokinni hátíðinni.

Löng hefð er fyrir Lúsíuhátíðinni í Svíþjóð, bæði í leikskólum, skólum og vinnustöðum, en þessi hátíð á hún rætur sínar að rekja til miðalda. Nútíma Lúsían er hins vegar frá um 1927 þegar Dagblað Stokkhólms hélt fyrstu hátíðina á sínum vegum.

Lúsía var upphaflega ítalskur dýrlingur sem var góð við fátæka. Rómverska keisaranum var hins vegar illa við hana og lét brenna hana á báli 13 desember árið 304 e. Krist.