Liverpool-fjölskyldan í fullum herskrúða í jólalitunum á heimili sínu: Hafsteinn Zimsen, 4 ára, Sigurborg Brynja Ólafsdóttir, Jón Pétur Zimsen og Ásta Kolbrún Zimsen, 6 ára.
Liverpool-fjölskyldan í fullum herskrúða í jólalitunum á heimili sínu: Hafsteinn Zimsen, 4 ára, Sigurborg Brynja Ólafsdóttir, Jón Pétur Zimsen og Ásta Kolbrún Zimsen, 6 ára. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Pétur Zimsen er einn fjölmargra Íslendinga sem halda með Liverpool í enska boltanum.

Jón Pétur Zimsen er einn fjölmargra Íslendinga sem halda með Liverpool í enska boltanum. Hann fer reglulega á leiki með liðinu og segir í samtali við Skúla Unnar Sveinsson að úrslitaleikurinn við AC Milan í Meistaradeildinni í Istanbúl í maí hafi verið sú mesta skemmtun sem hann hafi komist í. Það hafi verið toppurinn og því miður verði erfitt að ná að gera betur hvað varðar dramatík og spennu.

Jón Pétur eyddi fyrstu árum ævinnar í Njarðvíkunum en flutti ungur til Reykjavíkur þar sem hann lék knattspyrnu en gat sér síðan gott orð í badminton, en stundar það nú bara sér til skemmtunar. "Ég er mikill áhugamaður um knattspyrnu og Liverpool varð fyrir valinu vegna þess að liðið var stórveldi í enska boltanum og í Evrópu þegar ég var að byrja að fylgjast með boltanum. Frægustu kallarnir voru í Liverpool og maður hafði ekki meir sjálfsvilja en það að velja Liverpool. Það lá svona beinast við. Leikmenn sýndu mikla hæfileika á vellinum þannig að maður hreifst með," segir Jón Pétur um ástæðu þess að Liverpool varð fyrir valinu.

Sat Evertonmegin í Liverpool

Jón Pétur lætur sér ekki duga að fylgjast með liðinu sínu úr fjarlægð. "Ég hef farið nokkrum sinnum út upp á síðkastið. Fyrst fór ég á leik við Blackburn árið 2004 og við unnum hann 4:0. Síðan þá hef ég farið nokkrum sinnum, meðal annars með Ingvari [Jónssyni vinnufélaga og miklum Evertonmanni] á leik Everton og Liverpool þar sem við töpuðum 1:0. Það var skelfilegt. Við sátum Evertonmegin og það var alveg hræðilegt. Ég fór um daginn á Tottenham og Liverpool sem endaði með markalausu jafntefli. Þá var ég meðal stuðningsmanna Liverpool og það er alveg frábært að vera Liverpoolmegin á útivelli.

Svo fór ég á úrslitaleikinn við AC Milan í Istanbúl í vor og það var ferð allra tíma. Ég hef aldrei nokkurn tíma skemmt mér jafnvel, nema kannski við fæðingu barna minna.

Þessi ferð var alveg með ólíkindum - öll ferðin alveg frá upphafi til enda," segir Jón Pétur og greinilegt að úrslit leiksins hafa ekki skemmt fyrir, en Liverpool vann 6:5 í vítaspyrnukeppni eftir að hafa lent 3:0 undir í fyrri hálfleik. Steven Gerrard, Vladimir Smicer og Xabi Alonso jöfnuðu metin á fimm mínútna kafla í upphafi síðari hálfleiks.

Fjölskylduferð til Istanbúl

Jón Pétur er auðheyranlega af Liverpool-fjölskyldu því með í för til Istanbúl var eiginkonan, Sigurborg Brynja Ólafsdóttir, faðir hans, bróðir og eiginkona hans. "Við fórum fimm og allir halda með Liverpool," segir hann en ævintýrið byrjaði fyrir tveimur árum, svo til upp á dag. Liverpool lék þá við gríska liðið Olympiakos á Anfield 8. desember og lenti undir. "Þegar við lentum undir í leiknum ákvað ég að ef við myndum komast í úrslitaleikinn færum við til Istanbúl. Svo þegar við unnum Olympiakos 3:1 í þessum leik var ég viss um að við myndum fara alla leið og lá ekkert á þeirri skoðun minni. Ég tilkynnti stöðugt eftir hvern einasta leik að ég væri á leiðinni til Istanbúl. Svo það varð ekkert aftur snúið með það þegar ljóst varð að Liverpool yrði í úrslitum," segir Jón Pétur.

"Allt í kring um þennan leik var alveg einstakt og ferðin var hreint út sagt með ólíkindum. Við stoppuðum þarna í tvær nætur og þetta er skemmtilegasta ferð sem ég hef nokkru sinni farið í og hef ég þó ferðast mikið erlendis. Ég hef farið í margar skemmtiferðir til útlanda en engin þeirra kemst nálægt þessari.

Að vera á vellinum, 3:0 undir í hálfleik og hugsa til allra sem vissu að maður væri á staðnum. Ég hugsaði með mér í hálfleik að þetta væri söguleg stund og að það væri ekki oft sem maður hefði tök á því að fylgjast með sínu liði í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Þó þetta færi færi eins og allt stefndi í vonaðist maður til að okkur tækist að rétta okkar hlut.

Maður var hálfpartinn búinn að sætta sig við að vinna ekki, en þegar liðið gekk inn á völlinn í síðari hálfleik þá söng allur skarinn "You'll never walk alone" og þá fannst manni eins og allt væri mögulegt. Við áttum algjörlega völlinn og yfirgnæfðum Ítalina sem voru þó 3:0 yfir. Þá fannst mér við eiga von og þegar mörkin komu var ég alveg viss um að við myndum vinna. Það var þannig meðbyr og bókstaflega allt með okkur það sem eftir var leiks.

Óstjórnleg gleði

Þegar leikurinn var búinn var maður bara brjálaður. Það var engin stjórn á einu né neinu. Menn föðmuðust og kysstust hægri vinstri þó maður þekkti það ekki neitt. Í rútunni niður í bæ hélt fögnuðurinn áfram og svo niðri bæ fram eftir nóttu. Þetta var hreint óstjórnleg gleði.

Þrátt fyrir mikinn mannfjölda og mikla og taumlausa gleði fór allt vel fram og andrúmsloftið var vingjarnlegt. Ítalir sem voru með okkur í rútu í bæinn eftir leik tóku þessu öllu með jafnaðargeði. Maður var aldrei hræddur um eitt eða neitt þarna. Það ríkti svo mikil hamingja og ánægja að menn voru ekkert að svekkja sig á að hafa misst af flugi, en talsverður fjöldi Breta átti flug heim klukkan ellefu um kvöldið en leikurinn dróst á langinn og var ekki búinn fyrr en eftir miðnætti. Það voru einhvern vegin allir vinir þetta kvöld," segir Jón Pétur og á greinilega eftir að minnast þessarar ferðar lengi. "Já, alveg örugglega alla ævi. Það er samt eitt slæmt við þetta og það er að vera búinn að ná toppnum aðeins rétt rúmlega þrítugur. Það verður erfitt að toppa þetta, ekki nema þá að lenda 4:0 undir í París og vinna samt. Þetta er eiginlega það eina súra við þennan leik. Það gerist ekki mikið meira spennandi að vera 3:0 undir í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en sigra samt," segir hann.

Spurður hvort þetta þýði að nú liggi leiðin ekkert nema niður á við, segir hann: "Nei, nei, nú liggur leiðin bara beint strik áfram í hæstu hæðum."

Er mjög ánægður með Crouch

Liverpool hefur gengið vel síðustu vikurnar og er Jón Pétur að vonum ánægður með sína menn. "Mér líst rosalega vel á liðið þessa dagana og trúi því að við getum komist alla leið í Meistaradeildinni.

Ég er mjög ánægður með Peter Crouch. Það var deilt mikið á hann fyrir að skora ekki en nú er hann búinn að því. Þrátt fyrir að honum gengi illa að skora fannst mér hann oft vera besti maður liðsins. Hann er að mínu mati sá leikmaður sem á að vera númer eitt frammi og ég er alveg sammála Rafael Benítez með það. Steven Gerrard er auðvitað líka toppleikmaður og persóna. Það er alltaf hætta þegar hann er með boltan," segir Jón Pétur.

Þó svo að Liverpool hafi gengið vel síðustu vikurnar var upphaf tímabilsins ekki gott hjá liðinu. "Nei, það er alveg rétt. Liðið lék ekki vel framan af. Maður var aðeins farinn að vantreysta Benítez, en hann virðist vita hvað hann er að gera. Mér fannst liðið leika allt of varfærnislega í byrjun, það var ekki mikið að gerast fram á við. En þegar liðið lenti undir í leikjum gjörbreyttist allt því þá fór liðið að sækja og hreinlega yfirspilaði mótherja sína. Menn hefðu átt að byrja alla leiki af krafti en ekki bíða eftir að fá mark á sig og taka þá til við að spila almennilega. Liðið getur það nefnilega alveg. Við erum með sterka vörn en við erum líka sterkir í sókn og það þarf að nýta sér. Reyndar voru sumir ekki að finna sig alveg í upphafi tímabilsins, léku vel einn daginn og illa þann næsta. Ég nefni til dæmis Luis Carcia, en nú virðist allt vera að smella saman.

Kemur allt með sjálfstraustinu

Það virðist nú vera þannig að um leið og liðum fer að ganga þokkalega vex sjálfstraustið og þá fara hlutirnir að ganga vetur. Tökum Everton sem dæmi. Það gekk allt á afturfótunum hjá liðinu framan af og það var á botninum en núna eru þeir farnir að vinna leiki og það er farið að ganga betur. Sama hjá okkur. Allt gengur okkur í hag þessa dagana og þá verða hin liðin hræddari og það er bara rífandi gangur á okkur," segir Jón Pétur og vill draga úr gagnrýninni á Benítez: "Ég vil ekki taka djúpt í árinni með að ég hafi verið farinn að vantreysta honum. Hann hélt Crouch í liðinu þrátt fyrir að hann skoraði ekki mikið og ég var sammála því. Hvern átti hann að setja í staðinn? Hann stóð sig ágætlega, barðist vel, tók vel á móti bolta og skapaði færi fyrir samherja sína. Djbril Cisse finnst mér til dæmis slakur leikmaður. Hann hefur hraða en lítið annað og ég myndi ekki sakna hans neitt þótt hann yrði seldur í janúar. Fernando Morientes er sterkari, en ég sá engan annan en Crouch sem fyrsta kost í framlínuna.

Þetta kemur oft í kippum hjá mönnum. Núna þegar Crouch er búinn að brjóta ísinn er aldrei að vita nema mörkin komi á færibandi. Það þýðir ekkert að dæma menn fyrr en eftir tímabilið. Menn verða líka að athuga hvað menn eru að gera fyrir liðið - samherja sína. Eru þeir að byggja upp fyrir félagana eða eru þetta sólóistar sem pota inn nokkrum mörkum en eyðileggja annars staðar vegna þess að þeir eru of gráðugir. Þó svo menn séu senterar má ekki bara horfa á hvað þeir skora mörg mörk."

Þegar Jón Pétur er beðinn um að rifja upp hverjir voru stjörnunar hans í upphafi stendur ekki á svari. "Í gamla daga voru það John Barnes, Dalglish, Rush og ýmsir aðrir og ekki má gleyma Grobbelaar, hann var frábær og skemmtilegur karakter. Eins fannst mér gaman að fylgjast með Steve Nicol."

Gerrard gríðarlega mikilvægur

Varðandi leikmenn Liverpool í dag er Jón Pétur, eins og reyndar margir, hrifinn af Steven Gerrard, en orðrómur var uppi í haust að hann væri á förum frá félaginu. "Það hefði verið skelfilegt fyrir félagið. Hann bætir hina leikmennina svo mikið upp. Ef við hefðum misst hann værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum núna. Það skiptir engu máli hvaða leikmann við hefðum fengið í staðinn, þeir hefðu ekki náð að fylla skarð hans - kannski Ronaldinho. Enginn annar hefði getað fyllt hans skrað því hann er að mínu mati besti leimaður í heimi fyrir utan Ronaldinho. Gerrard er svo sterkur, bæði í vörn og sókn. Hann er drífandi, hann er stórhættulegur þegar hann fær boltann og þegar hann missir boltann er hann rosalega duglegur að vinna hann aftur. Mér finnst hann mun betri leikmaður en Frank Lampard hjá Chelsea, en það er oft verið að bera þá saman."

Eins og sönnum áhugamanni um enska boltann sæmir reynir Jón Pétur að sjá alla leiki með sínu félagi. "Já, ég sé alla leiki með Liverpool. Ég er með Sky og sé marga þar en ef þeir eru ekki sýndir þar fer ég á Klúbbinn og horfi á mína menn þar.

Auðvitað fer nokkur tími í þetta, en þetta er svo hriklaega skemmtilegt og mikil spenna að það er ekki hægt að sleppa þessu. Maður fer til útlanda til að sjá leiki með sínu liði og mér finnst þess vegna út í hött að sleppa því að horfa á liðið sitt þegar leikir þess eru sýndir í beinni útsendingu í sjónvarpi. Mér finnst svolítil þversögn í því að fara út á leiki en kveikja síðan ekki á sjónvarpinu þegar leikir eru sýndir beint.

Þeir sem þekkja ekki íþróttina og spennuna og skemmtunina í kring um þetta skilja þetta sjálfsagt ekki. En þeir sem eru djúpt sokknir eins og ég sjálfur átta sig á því að þetta er gjörsamlega ómissandi þáttur af lífinu," segir Jón Pétur.

Fótbolti á kennarastofunni

Hann starfar sem kennari í Réttarholtsskóla og segir mikið rætt um fótbolta á vinnustaðnum. "Það eru ótrúlega margir karlar að vinna í Réttó miðað við aðra skóla. Það eru þrír harðir Liverpoolmenn hér og þrír Chelseamenn auk eins sem heldur með Tottenham og annar með Everton, sem hefur reyndar látið óvenju lítið fyrir sér fara í haust af einhverjum ástæðum! Það er því mikið rætt um fótbolta og svo erum við með tippklúbb saman og það er legið yfir þessu öllu eftir helgarnar og eftir Meistaradeildarleiki.

Við erum að fara saman út á Chelsea og Liverpool í febrúar þar sem þrír sitja Chelseamegin á vellinum og hinir þrír Liverpoolmegin. Ég get ekki farið aftur á leik og verið vitlausum megin eins og ég gerði með Ingvari á Evertonleiknum. Það er ekki hægt að lýsa þeim tilfinningum að vera innan um aðdáendur hins liðsins. Heyra þá svívirða leikmenn Liverpool og fagna þegar mótherjinn gerir eitthvað gott. Maður þorir varla að hreyfa sig."

Kona og krakkar smituð

Jón Pétur er ekki einn á báti þegar kemur að því að halda með Liverpool því hann segist hafa smitað konuna. "Já, ég er búinn að smita hana verulega og hún hefur komið með mér á nokkra leiki í Englandi. Krakkarnir eru líka smitaðir þótt þeir séu ekki gamlir. Strákurinn er fjögurra ára og vill helst horfa á "The Road to Istanbul" á DVD og situr í Liverpoolbúningi á meðan," segir Jón Pétur.