Íslensku glösin eru framleidd í Þýskalandi og þar stendur til að markaðssetja þau eftir áramót.
Íslensku glösin eru framleidd í Þýskalandi og þar stendur til að markaðssetja þau eftir áramót. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigrúnu Ásmundar sia@mbl.
Eftir Sigrúnu Ásmundar sia@mbl.is

"Við erum gamlar vinkonur, kynntumst í Versló, og endurnýjuðum kynnin þegar við hittumst fyrir tilviljun aftur á Brautargengis-námskeiði á vegum Iðntæknistofnunar fyrir tveimur árum," segir Dagný Kristjánsdóttir sem hefur hannað glös í samstarfi við vinkonu sína, Ingibjörgu Hönnu Bjarnadóttur.

"Við komumst að því þegar við hittumst þarna aftur að við höfðum sameiginlegan áhuga á hönnun og vorum líka með mjög svipaðan stíl. Þá ákváðum að það væri gaman að gera eitthvað saman. Upphaflega hugmyndin var að reyna að gera eitthvað með bollastell en svo þróaðist það út í þessi glös. Það sem varð til þess að akkúrat þessi glös urðu að veruleika er að við vorum einu sinni að spjalla um hvernig borðhaldið var þegar við vorum krakkar. Þá var allt í föstum skorðum, alltaf matur klukkan sjö á kvöldin og ekkert sjónvarp að trufla matarfriðinn. Nú hafa neysluvenjur fjölskyldunnar breyst svo mikið, fólk hefur minni tíma til að setjast niður og borða saman. Við vildum reyna að koma með svona fjölskyldustell þar sem hver ætti sitt glas."

Gefa sér tíma til að borða saman

Dagný segir að hugmyndin hafi fyrst og fremst verið að minna fólk á að það geti verið gaman að setjast niður og gefa sér góðan tíma til að borða saman.

"Þess vegna lögðum við áherslu á að hafa þau svona litrík og glaðleg. Glasalínan heitir Fjölskyldan mín og er afi og amma, pabbi og mamma og tveir krakkar."

Dagný og Ingibjörg teiknuðu myndirnar í sameiningu í tölvu. "Þetta er grafísk hönnun, við skiptum þessi svolítið á milli okkar. Fyrst ætluðum við að hafa þau í venjulegum fötum, venjulega fjölskyldu. Svo kom Ingibjörg með hugmyndina um að hafa þau í þjóðbúningum og það gekk svona vel upp," segir Dagný. "Þá ákváðum við að stíga skrefið til fulls og hafa íslensku dýrin með og íslenska fánann, stoltar af uppruna okkar!"

Markaðssett í Þýskalandi

Umbúðirnar eru líka hannaðar með tilliti til þess hvernig glösin eru. "Við vildum hafa þetta í fallegum umbúðum og út frá þessu þjóðlega kom þessi pæling að hafa umbúðirnar eins og torfbæi."

Glösin eru framleidd í Þýskalandi af rótgrónu og þekktu fyrirtæki. Dagný og Ingibjörg hafa líka gert samning við sama fyrirtæki um markaðssetningu í Þýskalandi og áframhaldandi samstarf. "Við héldum að við þyrftum þá að fara út í að hafa þetta á þýskum, þjóðlegum nótum en fyrirtækið vildi halda okkar hönnun alveg. Það fannst okkur mjög skemmtilegt og mikil viðurkenning.

Það er prentað á glösin um leið og þau eru búin til og þannig nást miklu meiri gæði. Þýska fyrirtækið byrjar markaðssetningu sína eftir áramót og við erum jafnvel að pæla í að reyna að fara með þetta til fleiri landa."

Dagný segir ennfremur að þær stöllur reyni í hönnun sinni að höfða bæði til fullorðinna og barna. "Við erum svona pínulítið að reyna að finna barnið í okkur."

Dagný og Ingibjörg eru núna að þróa diska og fleira sem á að höfða til annarra þjóða með markaðssetningu í huga. Þær eru með vinnustofu á Ægisgötu ásamt öðrum hönnuði og vinna að hönnun sinni meðfram öðru. Dagný er vefhönnuður, lærði í Teknisk Akademia Syd í Danmörku, og Ingibjörg er grafískur hönnuður útskrifuð frá Listaháskóla Íslands.

Glösin eru seld í Epal í stykkjatali eða tvö í kassa.