Markhópar er orð á hvers manns vörum. Markaðssetning hvers konar varnings verður að passa við ákveðna markhópa sem flokkaðir hafa verið á grundvelli alls konar markaðsrannsókna sem fjöldi manns kemur að.
Fjölmiðlar eru engin undantekning. Sérblöð eru mótuð fyrir sérstaka markhópa, sjónvarps- og útvarpsþættir eru gerðir með ákveðna markhópa í huga o.s.frv. Aldur er mikilvæg breyta í markhópum og við 35 ára aldurinn virðast eiga að verða ákveðin skil. Verður maður fullorðinn þá? Hættir að fylgjast með trendum og tísku og situr bara í úthverfinu sínu í jogginggallanum eftir vinnu á milli þess sem börnunum er skutlað í íþróttir og tónlistartíma? Ég veit það ekki.
Hjón sem ég þekki, bæði 36 ára, hafa handfjatlað blað sem leit nýverið dagsins ljós í Svíþjóð, reyndar sérstaklega ætlað lesendum á aldrinum 25-35 ára. Þeim fannst það skemmtilegt þrátt fyrir allt. Þetta er blaðið Diego , nafn sem Íslendingar þekkja sem ættarnafn, en fær nýja merkingu sem DI ego , þ.e. annað egó blaðsins Dagens Industri , sem er virt sænskt viðskiptablað.
Þetta er sem sagt 130 síðna glanstímarit sem kemur út annan hvern mánuð, ætlað ungu fólki á framabraut í viðskiptum. Í fyrsta tölublaðinu er t.d. fjallað um græjur, gallabuxur, gefin 23 ráð um hvernig á að virðast duglegri en maður er í vinnunni, skíði og skíðaföt, veitingastaði í viðskiptahverfi Stokkhólms, fasteignamilljónamæringa, útbrunna stjórnunarráðgjafa, viðskiptahugmyndir og karlmanninn sem tók við af metrósexúal manninum: übersexual manninn! Margt sem sagt mjög áhugavert og öðruvísi en í öðrum fjölmiðlum.
Ég tilheyri markhópnum að hluta, þ.e. aldurinn passar við mig en ég er reyndar ekki í bissness, en þetta virkar. Ég er ekki búin að lesa allt sem mig langaði í blaðinu, bara tvær greinar, þ.e. um gallabuxurnar og aðra um gamla sjónvarpsþætti. Þar skellti ég upp úr nokkrum sinnum og mundi eins og gerst hefði í gær þegar ég sat sem krakki límd fyrir framan sjónvarpið á miðvikudagskvöldum og horfði á Dallas .
Dallas er nefnilega að koma aftur í kvikmyndaformi, nema greinin sé bara skemmtilegur uppspuni. Bruce Willis á að leika J.R. ef Larry Hagman fær að ráða en einnig eru nefndir Burt Reynolds og John Travolta. Brad Pitt verður Bobby, Catherine Zeta-Jones Pamela og Melanie Griffith Sue Ellen. Í grein Hönnu Malmodin í Diego voru rifjuð upp minnisstæð atriði úr Dallas- þáttunum: Tvö klassísk stóðu upp úr að mati greinarhöfundar og það síðarnefnda er snilld: Bobby lendir í umferðarslysi og deyr í þáttaröðinni frá 1985 en stígur síðan sprellifandi út úr sturtunni undir lok þáttaraðarinnar frá 1986. Síðan kemur skýringin: Pamelu var bara að dreyma! Grein sem smellpassaði markhópnum sem ég tilheyri, þ.e. fólki upp úr þrítugu þar sem margir muna eftir miðvikudagskvöldunum.
Greinin um þessa karlrembusápu sem þættirnir voru vakti upp einhverja nostalgíu og einhvern veginn gat ég fundið eitthvað sem ég kannaðist við í þessum skrifum. Það er líklega það sem maður leitar m.a. að í þeim fjölmiðlum sem maður velur sér. Eitthvað sem maður getur tengt við eigin reynslu eða veruleika. Þetta hlýtur að standa í einhverjum markaðsrannsóknaniðurstöðum.
Hver á mínum aldri man t.d. ekki eftir símtölunum í Dallas , þ.e. hvernig þeim lauk: Einhver kúrekinn lagði tólið snögglega á eftir að hafa sagt eitthvað mikilvægt um olíuviðskipti eða framhjáhald, en hafði aldrei fyrir því að segja "bless" eða "við heyrumst". Þetta athæfi kallar greinarhöfundurinn síðan að "gera Dallas". Mér fannst þetta fyndið. Enda tilheyri ég markhópnum.
Diego fær bráðum samkeppni því annað glansviðskiptatímarit er að koma á markaðinn. Það nefnist Passion og er gefið út af viðskiptavikuritinu Affärsvärlden . "Passion er lífsstílstímarit sem veitir innblástur og áminningu um að lífið er ekki bara vinna," segir á vef Affärsvärlden .
Lífsstíll viðskiptafólks er vinsælt umfjöllunarefni víðar en í Svíþjóð. Financial Times hefur lengi gefið út mánaðarritið How to spend it sem er skemmtileg lesning þótt pyngjan sé ekki þung. Ég tilheyri kannski ekki markhópnum eftir allt saman.