jonf@hi.is: "Flestir munu þekkja orðatiltækin halda uppi/(upp) merkinu ‘halda baráttu eða viðleitni áfram' og taka upp merkið ‘taka upp baráttu sem annar hefur/aðrir hafa háð'. Þar vísar merki til ‘orrustumerkis, gunnfána'."

Flestir munu þekkja orðatiltækin halda uppi/(upp) merkinu ‘halda baráttu eða viðleitni áfram' og taka upp merkið ‘taka upp baráttu sem annar hefur/aðrir hafa háð'. Þar vísar merki til ‘orrustumerkis, gunnfána'. Í nútímamáli hefur mynd og vísun breyst í máli sumra. Þeir tala þá um að taka við keflinu ‘taka við e-u af e-m; leysa e-n af hólmi'. Hér virðist vísað til boðhlaups, þar sem hver hlaupari hleypur ákveðna vegalengd með kefli sem hann fær síðan næsta manni, þeim sem tekur við. Það er reyndar skiljanlegt að vísun til íþrótta sé mörgum nærtækari en skírskotun til bardaga en hér sem annars staðar þarf þó að fara með gát. Nýmæli þurfa að vera rökleg og auðskilin öllum annars missa þau marks og geta jafnvel verið spaugileg. Umsjónarmanni virðist eftirfarandi dæmi orka tvímælis: Íslensk ungmenni hafa gripið keflið og nýtt sér aukin tækifæri (26.8.05). Hér er vikið frá líkingunni en dæmið skilst þó. Annað dæmi sem umsjónarmaður rakst á er þó sýnu verra: Við þurfum að halda áfram með keflið á lofti (19.10.05). Merkingin er ‘við þurfum að halda áfram og stefna hátt' en vísar ekki til manns sem er með kökukeflið eða hnefann á lofti.

Korn var ýmist vegið eða mælt í sérstökum mælikerum eða mæli og til þess vísar orðatiltækið e-ð er kornið sem fyllir mælinn ‘e-ð lítið ræður úrslitum'. Þessi mynd er býsna gömul í íslensku en yngri eru önnur afbrigði. Frá 20. öld er t.d. myndin e-ð er dropinn sem fyllir mælinn, sbr.: voru einstakar fjárfestingar og fjármunaflutningar án heimildar eða vitneskju stjórnar þeir dropar sem fylltu mælinn (Blaðið 23.9.05). Hér væri fyllilega eðlilegt að nota hefðbundnu og upphaflegu myndina en þó má segja að afbrigðið með dropanum hafi öðlast nokkra hefð. Nýlega rakst umsjónarmaður á afbrigði sem hann kannaðist ekki við:

Dropinn sem fyllti bikarinn (Mbl. 25.10.05). Þessi mynd á sér enga stoð í uppruna né málvenju. Bikar (einnig kaleikur ) hefur margþætta vísun og merkingu, allt aðra en mælir. Í traustum heimildum eru þess engin dæmi að þessu tvennu sé ruglað saman.

Ýmislegt getur breiðst út , t.d. sjúkdómur, þekking eða kunnátta. Sögnin breiða úr sér er einnig til í íslensku. Í Orðastað Jóns Hilmars Jónssonar er t.d. að finna eftirfarandi dæmi: breiddu ekki svona úr þér, ég þarf líka að geta sest . Hins vegar er erfitt að ímynda sér að kanínur geti breitt úr sér og því er svolítið spaugilegt að skrifa (eða segja): Hvers vegna er það vandamál ef þær [kanínur] breiða úr sér um allt land (Frbl. 5.10.05). Það er hins vegar alkunna að kanínum getur fjölgað mjög.

Sögnin pynta/pynda , þf., er tökuorð úr fornensku pyndan ‘loka inni.' Í nútímamáli mun myndin pynta [pynta-pyntaði-pyntað] vera algengust, t.d.: Öldungadeildin áréttar bann við að pynta stríðsfanga (Mbl. 7.10.05). Myndin pynda [pynda-pyndaði-pyndað] er einhöfð í fornu máli og henni bregður einnig fyrir í nútímamáli, einnig nafnorðinu pyndingar , t.d.: þeir eigi á hættu að sæta pyndingum (Blaðið 5.11.05) og Með verktaka í pyndingum (Blaðið 5.11.05). Báðar myndirnar pynta og pynda eru því í samræmi við málvenju.

Sögnin spara er ein þeirra fjölmörgu sagna sem geta tekið með sér tvenns konar andlag. Hún stýrir ýmist beinu andlagi (þf.-andlagi) [ spara eyrinn ] og eða óbeinu og beinu andlagi (þgf.- og þf.-andlagi) [ spara sér ómakið ]. Menn eru sjaldnast í vafa um hvort eigi við hverju sinni enda er merkingarmunur skýr. Í örfáum tilvikum getur þó brugðið út af þessu og af þeim toga er eftirfarandi dæmi: í raun sé engu til sparað [við styttingu menntaskólanáms] (Útv. 6.11.05). Hér kann að gæta áhrifa frá orðasambandinu kosta öllu/miklu til (e-s).

Sögnin leika stýrir einnig ýmist beinu andlagi [ leika góðan, sterkan, öflugan leik; leika grófan fingurbrjót; leika fyrsta leikinn ] eða óbeinu [ leika peði, manni fram um einn reit ]. Sem áhugamaður um skák hefur umsjónarmaður veitt því athygli að margir skákmenn nota þágufall í stað þolfalls í dæmum af fyrri gerðinni, segja t.d.: leika fyrsta leiknum . Þessi málbeiting er ekki gömul í málinu og styðst ekki við reglur málsins. En hér sem oftar hlýtur málkennd og smekkur að ráða.

Úr handraðanum

Atviksorðið óspart ‘ósparlega; mjög' er skylt sögninni spara [spara, sparaði/(sparði), sparað] og er það kunnugt í fornu máli. Í Grettis sögu segir t.d. frá því er Grettir tók á móti bræðrunum Þóri þömb og Ögmundi illa og félögum þeirra. Þar segir: Grettir fer til og sækir öl og gefur þeim að drekka. Þeir voru mjög móðir og sulgu stórum. Lætur hann óspart ölið, það er áfengast var til, og gekk því lengi . Hér má glöggt sjá merkingu orðasambandsins láta óspart ölið, sbr. einnig orðasambandið ekkert var til sparað ‘öllu var kostað til; allt var lagt fram'. Í Íslensku hómilíbókinni er að finna svipað orðafar: sá hefir ástina er hann lætur ósparað við annan .

jonf@hi.is

Höf.: jonf@hi.is