ELDUR kom upp í kjallara húsgagnaverslunar við Suðurlandsbraut 48 á tíunda tímanum í gærmorgun.

ELDUR kom upp í kjallara húsgagnaverslunar við Suðurlandsbraut 48 á tíunda tímanum í gærmorgun. Að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var mikill eldsmatur í kjallaranum, en svo vel vildi til að slökkviliðsbíll var í nágrenninu og tókst að slökkva eldinn áður en hann náði að læsa sig í lager verslunarinnar.

Starfsmaður verslunarinnar sem varð var við eldinn reyndi að slökkva hann með handslökkvitæki, án árangurs, og var hann ásamt öðrum starfsmanni fluttur á Landspítala - háskólasjúkrahús vegna gruns um reykeitrun. Var mikill viðbúnaðar af hálfu slökkviliðsins og lögreglu og var götum í nágrenninu lokað. Eldsupptök eru ókunn en ekki er grunur um íkveikju.