Í seinni tíð er Víkverji farinn að hugsa sig tvisvar um áður en hann gerir sig breiðan og fettir fingur út í menn og málefni. Enda gerist það æ oftar að stungið er upp í Víkverja, sem síðan þarf að éta hattinn sinn.

Í seinni tíð er Víkverji farinn að hugsa sig tvisvar um áður en hann gerir sig breiðan og fettir fingur út í menn og málefni. Enda gerist það æ oftar að stungið er upp í Víkverja, sem síðan þarf að éta hattinn sinn.

Slíkt gerðist nýverið, þegar Víkverji hafði skrifað pistilskríli um hvað honum þætti broslegt að rómversku tölustafirnir í stílfærðri klukku í sviðsmynd Kastljóssins væru ekki rétt skrifaðir. Á klukkuskífunni stendur ritað I, II, III og loks IIII. Víkverja þótti þetta bráðskondið enda hafði honum verið kennt að rita fjóra á rómverska vísu IV og var þess fullviss að sviðsmyndarhönnuður Sjónvarpsins hefði gert mistök.

En eins og glöggur lesandi benti Víkverja á, þá er klukkuskífan í Kastljósinu alveg eins og hún á að vera. Svo virðist, nefnilega, að á rómverskum klukkuskífum sé hefð fyrir því að skrifa fjóra sem IIII. Lesandinn glöggi sendi margar myndir máli sínu til stuðnings og sagðist lengi hafa tekið eftir þessu og aldrei fengið viðhlítandi svör við því hvað veldur þessum óhefðbundna rithætti. Það er um leið, að sögn lesandans, mesta furða hve fáir taka eftir þessu og dragi þá [eðlilegu] ályktun að um klaufaskap sé að ræða, líkt og Víkverji gerði.

Víkverji vill biðja leikmyndahönnuð Kastljóssins afsökunar og þakkar lesandanum góða fyrir ábendinguna. Lesandinn benti sömuleiðis á að rómverska tölustafi má ekki nota sem raðtölur, svo á eftir þeim má ekki rita punkt, sem væru þær slíkar. Þetta ku vera viðtekin venja á Norðurlöndunum, segir lesandinn, en ekki að þessu gætt hér á Íslandi.

Víkverji vill nota tækifærið og hvetja lesendur til að senda inn athugasemdir við skrif sín. Víkverji er þess fullviss að margir hafa ýmislegt við þanka hans að athuga og fagnar öllum málefnalegum ábendingum sem dýpkað geta skilning Víkverja eða leiðrétt misskilning.