ÁRNI Magnússon félagsmálaráðherra sagði á Alþingi í gærkvöld að það kæmi ekki til greina að hann segði af sér embætti vegna dóms Hæstaréttar í máli Valgerðar Bjarnadóttur, fyrrverandi framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, gegn íslenska ríkinu.

ÁRNI Magnússon félagsmálaráðherra sagði á Alþingi í gærkvöld að það kæmi ekki til greina að hann segði af sér embætti vegna dóms Hæstaréttar í máli Valgerðar Bjarnadóttur, fyrrverandi framkvæmdastýru Jafnréttisstofu, gegn íslenska ríkinu. "Afsögn mín kemur auðvitað ekki til greina vegna þessa máls," sagði hann, "enda fráleit krafa."

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, tók þetta mál upp á Alþingi á sjöunda tímanum í gærkvöldi og sagði að dómur Hæstaréttar hlyti að teljast gríðarlegt áfall fyrir félagsmálaráðherra. Hann spurði ráðherra hvort hann hefði alvarlega hugleitt að biðjast lausnar frá embætti. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að alls staðar þar sem ríkti sæmilega heilbrigt ástand í stjórnmálum, myndu ráðherrar sem fengju á sig slíkan dóm frá Hæstarétti segja af sér. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði að ráðherra yrði sómi að því að kaupa fallega blómakörfu og fara með hana persónulega til Valgerðar og biðja hana afsökunar. Hann líkti þessu síðan við starfslok forstjóra Byggðastofnunar fyrir fáeinum árum, en sá hefði fengið um 20 milljóna króna starfslokasamning. "Já, það er sennilega ekki sama hvort við pissum standandi eða sitjandi," sagði hann.