Það er orðið jólalegt um að litast í London og ýmsar uppákomur víða um borgina sem minna á komu jólanna.
Það er orðið jólalegt um að litast í London og ýmsar uppákomur víða um borgina sem minna á komu jólanna.
Tónleikar, skautaferðir, tívolí og leikhúsferðir er meðal þess sem hægt er að taka þátt í þegar heimsækja á London á aðventunni. Laila Sæunn Pétursdóttir skoðaði það sem er á boðstólum.

Bretar eru sérlega hrifnir af því að fara á barinn með félögunum eftir vinnu og eykst það enn frekar í desembermánuði. Margir veitingastaðir og barir fóru að auglýsa jólagleði löngu fyrir aðventuna og núna eru margir staðir þétt setnir og vart möguleiki að fá sæti. Vinnufélagar fara gjarnan saman út að borða og því er vissara að panta borð í tíma ef fara á út að borða. En þrátt fyrir að Bretar séu mikið fyrir ölið og jafnvel nokkurs konar jólaglögg þá eru líka fjölbreyttskemmtun í boði.

Lítið tívolí

Á Leicester Square er alltaf sett upp lítið tívolí þar sem hægt er að fara í nokkur tæki og þar á meðal hringekju og svo er hægt að fara í leiki og vinna bangsa og þess háttar. Þetta er alls ekki stórt tívolí en skemmtilegt fyrir börn og fullorðna að skella sér þangað til að skemmta sér aðeins eftir jólainnkaupin. Leikhúsin bjóða líka upp á ýmiss konar jólasýningar eins og söngleikinn Scrooge og ballettinn Hnotubrjótinn. Þessar sýningar eru sérstakar jólasýningar en sumar þeirra eru þó í boði fram í miðjan janúar. Að sjálfsögðu bjóða einnig ýmsar kirkjur upp á jólatónleika og er dagskrá þeirra fullskipuð út desember.

Jólasveinaland

Börnin í London eru ekki svo heppin að hafa 13 jólasveina sem koma og gefa þeim í skóinn. En þau geta farið í Jólasveinaland (Santa's Land) hjá Earls Court þar sem jólasveinninn er í óðaönn að taka á móti þeim og smáfólkið lætur líka jólasveininn fá óskalistann sinn.

Börnin geta líka farið í ævintýralega lestarferð þar sem hjálparsveinar jólasveinsins leiða þau í gegnum töfrandi námur eða þau geta rennt sér á sleða niður 4 metra hátt fjall sem er í jólasveinalandinu. Svæðið er opið frá 3. til 23. desember frá 10 á morgnana til níu á kvöldin. Verð fyrir fullorðna er um 2.500 krónur en 1.900 krónur fyrir börn.

Á skauta

Í marga áratugi og jafnvel aldir tíðkaðist það að Lundúnabúar fóru á skauta á ísilagðri Thames en nú frýs áin ekki lengur. Þess í stað er boðið upp á nokkur skautasvæði í London en það vinsælasta er í Somerset House við Thames. Þetta er útisvell í einstaklega flottu umhverfi og þar geta bæði fullorðnir og börn notið þess að renna sér. Skautasvellið er opið frá enda nóvember til enda janúar og þarf að panta og greiða fyrirfram en inn í verðinu er leiga á skautum.

Í kringum jólin er einnig hægt að fara í ýmsar ferðir með gömlum eimreiðum. Þetta eru dagsferðir þar sem farið er frá London til ýmissa staða svo sem í Dickins borgina Canterbury eða Shakespeare ferð til Stratford-upon-Avon. Til að toppa ferðina geturðu pantað þér borð í matsal lestarinnar þar sem þú getur borðað eins og fólkið gerði forðum.

Það eru ekki bara Íslendingar sem fá jólatré frá Noregi heldur fá Englendingar líka eitt slíkt og er það sett upp á Trafalgar-torginu. Í ár var kveikt á jólatrénu þann 29. nóvember og frá 3. til 24. desember eru haldnir ýmsir tónleikar þar. Koma þá saman kórar sem panta sér pláss og syngja ýmis jólalög og er það allt til styrktar mismunandi góðgerðarmálum. Tónleikarnir eru haldnir á milli fimm og níu á kvöldin og er þetta ákaflega huggulegt og hátíðlegt.

Jólakort eftir listamenn

Í St. Martins kirkjunni, sem er við hliðina á torginu, er svo hægt að kaupa jólakort sem ýmsir listamenn gera og rennur sá ágóði til góðgerðarmála. Og svo má ekki gleyma jólabúðingshlaupinu sem nú var haldið þann 3. desember. Þangað mætir fólk í sínu fínasta stássi og hleypur um flóknar hindranir í Covent Garden. En þar að auki þurfa þátttakendur að halda á bakka með klassískum jólabúðingi.

Allur ágóði af hlaupinu rennur til krabbameinsrannsókna í Englandi.

Höfundur er búsettur í London.

Höf.: Laila Sæunn Pétursdóttir