Hin árlega Jólagleði Kramhússins fer fram í Borgarleikhúsinu í kvöld.
Hin árlega Jólagleði Kramhússins fer fram í Borgarleikhúsinu í kvöld.
Stóra Jólagleði Kramhússins verður haldin í kvöld, laugardaginn 10. desember, í Borgarleikhúsinu. Húsið verður opnað kl. 20 og hefjast sýningar hálftíma síðar. Þetta er í 23.

Stóra Jólagleði Kramhússins verður haldin í kvöld, laugardaginn 10. desember, í Borgarleikhúsinu. Húsið verður opnað kl. 20 og hefjast sýningar hálftíma síðar. Þetta er í 23. sinn sem nemendur Kramhússins koma saman fyrir jól og sýna listir sínar, en í huga margra Kramhússgesta boðar þessi viðburður jólin líkt og skötuilmur og jólaljós. Leyndir hæfileikar fá þar að njóta sín og munu stíga á stokk hversdagsstjörnur úr hinum íslenska veruleika. Jólagleðin hefur vaxið ár frá ári og er nú orðin metnaðarfull sýning með dans- og skemmtiatriðum um 160 þátttakenda. Að sögn aðstandenda sýningarinnar verður sýningin með óvenju fjölbreyttu og "dálítið öðruvísi" sniði í ár. "Eins og venja er mun fjölbreytni ríkja og í boði er alþjóðlegur menningarkokkteill að hætti hússins undir stjórn kennara frá Jamaíka, Spáni, Danmörku, Gíneu, Búlgaríu, Perú, Mexíkó, Bandaríkjunum, Austurríki, Svíþjóð og Íslandi. Sérstakir heiðursgestir í ár eru rússneskir harmonikkusnillingar ásamt félögum úr Hljómsveit harmonikkuunnenda undir stjórn Reynis Jónassonar. Alíslenskir pörupiltar munu hrella eða skemmta gestum. Dansflokkurinn Lipurtré mun kitla hláturtaugar áhorfenda og kynnir kvöldsins er Kolbrún Halldórsdóttir. Einnig mun hin eina sanna Birna Þórðardóttir sýna sólódans og fara í sitt árlega jólasplitt. Ekki má gleyma leikfimihópi Kramhússins sem mun setja á svið atriði sem helgað er íslensku konunni í sínum ólíkum hlutverkum," segir Vigdís Arna hjá Kramhúsinu en yfirumsjón með sýningunni hafa þær Ólöf Ingófsdóttir og Hafdís Árnadóttir.

Eftir formlega skemmtun verður dansinn stiginn í anddyri hússins og veitingar seldar á vægu verði. Forsala aðgöngumiða fer fram í Kramhúsinu, Skólavörðustíg 12 og Borgarleikhúsinu, Kringlunni.