Þorpsskáldið Jónas Friðrik á ferð við höfnina á Raufarhöfn.
Þorpsskáldið Jónas Friðrik á ferð við höfnina á Raufarhöfn. — Morgunblaðið/Erlingur B. Thoroddsen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svo til daglega má heyra texta eftir Jónas Friðrik flutta í útvarpi enda er hann hirðskáld Ríó tríósins. Þorpsskáldið á Raufarhöfn verður sextugt á mánudag og nýtti Erlingur B. Thoroddsen fréttaritari sjaldgæft tækifæri á viðtali við Jónas.

Raufarhöfn | Jónas Friðrik, skáld á Raufarhöfn, hefur sjaldan gefið fjölmiðlum færi á sér og þótti því bera vel í veiði þegar skáldið gaf kost á sér, að spjalla við það og skyggnast aðeins inn í hugarheim skálds og manns.

Svo til daglega má heyra texta Jónasar Friðriks flutta í einhverjum ljósvakamiðlanna. Það hafa verið hljóðritaðir rúmlega 200 textar eftir hann. Hann hefur verið hirðskáld Ríó tríósins í áratugi, einnig hefur hann samið texta fyrir Björgvin Halldórsson og ýmsa flytjendur aðra. Þá þýddi hann söngleikinn Evita. Er þá margt ónefnt sem hann hefur fengist við.

Jónas Friðrik vinnur á skrifstofu Raufarhafnarhrepps og þar leit hann upp smástund frá önnum dagsins með fréttaritara.

Kaupfélögin fengu pestina

Þú er fæddur og uppalinn á Raufarhöfn og hefur búið hér allan þinn aldur, að undanskildum um það bil fimm árum sem þú bjóst í Reykjavík. Hverjar voru ástæðurnar fyrir því að þú fluttir suður og hvernig líkaði þér dvölin?

"Ég var á Bifröst eins og þú veist og það var eiginlega mest vegna þess að ég hafði verið starfsmaður hjá KRH á Raufarhöfn og ætlaði mér svo að druslast aftur heim og halda áfram að kaupfélagast um ófyrirséða framtíð. En það varð svo fljótlega ljóst eftir að ég kom heim að KRH var komið með þessa pest sem var þá komin í kaupfélögin og átti síðan eftir að gera ekkert nema elna og versna þar til eiginlega Gísli Jónatans er að verða eini kaupfélagsstjórinn á landinu. Ég hætti því hjá KRH einhverjum mánuðum áður en það endanlega gafst upp og réð mig í sumarvinnu hjá Síldarútvegsnefnd á Raufarhöfn."

Hvað varstu látinn gera þar?

"Ég fékk nokkrar vinnutarnir þar sem ég var verkstjóri yfir unglingum sem voru að stafla tunnum, en það voru heilmiklar skorpur að taka á móti þegar tunnuskipin komu, því svokallað stúarafélag sá um alla uppskipun og það var bara hópur af harðjöxlum sem unnu ekki handtak nema í akkorði, og þá var víst öllum sama þó einhverjar unglingaskjátur á lúsarlaunum fengju að svitna svolítið á tunnulagernum uppi á Klifum. Annars var þetta bara sól og síldarleysi og afskaplega huggulegt, þangað til þeir fengu flog fyrir sunnan og hringdu í umboðsmanninn á Raufarhöfn alveg á tauginni yfir að hann skyldi enn vera með manninn í vinnu og skipuðu honum að reka kvikindið."

Og var það þá sem þú fórst suður?

"Nei, nei, þetta var nálægt mánaðamótum ágúst september og ég fékk nokkra daga til að hugsa mig um, og svo fylltist allt af síld. Þegar umboðsmaður Síldarútvegsnefndar kom með öndina í hálsinum til að fá mig til að byrja aftur var ég kominn í vinnu hjá SR og vann þar sem smyrjari þetta síðasta haust sem síld var brædd hjá SR á Raufarhöfn. Við bræddum allt haustið og vorum að klára að hreinsa og ganga frá í desember. Ég átti fullt af peningum eftir törnina og var ekkert að flýta mér, hafði það bara gott heima yfir hátíðarnar og skrapp suður snemma árs, og var svolítið að skemmta mér og þannig, en asnaðist til að svara nokkrum atvinnuauglýsingum í leiðinni og var ekki nema rétt kominn heim aftur þegar hringt var og mér boðið starf syðra."

Árin þín syðra voru ár þjóðfélagslegra breytinga. Blómatímabilið var í hámarki, vinkonur þínar rauðsokkurnar sóttu í sig veðrið og urðu meir áberandi í þjóðlífinu. Mótaðist þú á einhvern hátt af þessum tímum? Ef svo, þá hvernig?

"Ætli svarið sé ekki eitthvað í áttina að: Já og nei og jú og kannski. Auðvitað var maður að hippast eitthvað, svona á yfirborðinu í það minnsta. Ég gæti ímyndað mér að flestir sem óðu leðjuna upp í hné, við undirleik Trúbrots, á Saltvíkurhátíðinni frægu, hafi orðið fyrir einhverjum langtímaáhrifum, allavega man maður eftir drullunni og rigningunni, þó ekki væri annað. En ég var svo sem ekkert að ná sambandi við eitt eða neitt af þessu í alvöru. Var og er þumbaralegur þorpsdurtur og glasalyftari að norðan og passaði heldur asnalega við ást og frið og furðulegar reykingar. En má ég fara aðeins til baka og tala svolítið meira um kaupfélögin?"

Já, allt í lagi.

"Ég veit nefnilega af hverju kaupfélögin fóru svona eins og þau fóru. Þegar ég var á Samvinnuskólanum lærðum við meðal annars Samvinnusögu eftir Jónas frá Hriflu. Við fórum nú heldur hratt yfir hana hjá séra Guðmundi, en tókum hana þeim mun betur í gegn stundum á kvöldin inni á vist. Þá fór Dóri Ásgríms [Halldór Ásgrímsson] upp á stól frammi á gangi og las upphátt valda kafla og við hinir knéféllum og söngluðum "Eia", svo sem sanntrúuðum ber.

Augljóslega var nánast hver einasti af þeim skörungum sem komu við sögu, þegar kaupfélögin voru stofnuð, annaðhvort afburða glímumaður, eða mesti vargur að sundríða, nema auðvitað þeir sem voru hvort tveggja. Nú, svo tekur kunnátta manna að dala og loks var svo komið að við stjórn hjá kaupfélögunum voru tómir aumingjar, sem ekki gátu riðið yfir lækjarsprænu nema með bundið fyrir augun, og hefðu ekki þekkt sniðglímu á lofti þó hún hefði bitið þá í, ja bara einhvers staðar neðarlega. Og í beinu framhaldi af þessu ástandi fóru kaupfélögin að steypast á hausinn hvert af öðru."

Jæja, þú heldur það.

"Alveg pottþétt."

Hefði farið sömu braut án Ríó

Ég hef oft velt því fyrir mér muninum á vinsælum textahöfundum og gömlu þjóðskáldunum, sem voru hér á árum áður og jafnvel enn í dag á hvers manns vörum. Það má segja að það heyrist texti eftir þig nær daglega í útvarpi, sem fólk raular með, án þess að vita það að textinn er eftir Jónas Friðrik. Hefurðu nokkurn tíma hugleitt stöðu þína sem vinsæll textahöfundur, samanborið við ljóðskáld, sem hafa gefið nokkrar bækur út eftir sig, afurðir sem fáir þekkja? Þau eru kannski komin á listamannalaun. Átt þú möguleika á listamannalaunum?

"Ég er á bullandi listamannalaunum, maður. Við köllum þau Stefgjöld og lagahöfundarnir fá þau næstum því öll, en smáklípa kemur þó í hlut textahöfundarins. Varðandi listamannalaunin sem þú átt við, þá hef ég nú svo sem ekkert hugsað út í þau sérstaklega, en held þó að maður þurfi að vera í einhverju rithöfundafélagi og hafa ungað út eins og tveim bókum, eða svo."

Það er ekki á neinn hallað, að segja að textar þínir séu meðal annars lykillinn að velgengni Ríó tríósins. Væri Jónas Friðrik svo vel þekktur án tríósins?

"Hér kemur þú nú með gamalt þrasmál milli mín og Helga Pé. Hann vildi meina að Ríó hafi pínt óþekkta skrifstofublók til að skrifa texta, og þessi óþekkta skrifstofublók hefði annars aldrei nennt að skrifa neitt og verið þannig áfram, sem sagt óþekkt skrifstofublók. Ég sagði gjarnan að Ríó hefði ruðst inn á skáld sem var á góðum þroskavegi og leitt það afvega, svo ég hafi síðan verið til afnota hverjum þeim sem vildi borga mér fyrir að semja, og þannig hreinlega lagst í andlegan skækjudóm. Ekki þannig að þessar þrætur okkar hafi verið á sérstaklega alvarlegum nótum.

En ef við verðum að tala í alvöru, þá held ég að upplag og uppeldi hefðu gert það að verkum að ég hefði að mörgu leyti farið sömu braut og ég fór. Ég hefði verið að semja gamanvísur og skemmtiefni hér heima og á kafi í leiklistinni, eins ég var. Hitt er svo óvíst hvað mikið af mínu brölti hefði spurst út fyrir þorpið. Ég hefði kannski skrifað eitthvað meira af öðruvísi efni. Einu sinni voru nú draumarnir eitthvað í þá áttina."

Ekkert Reykjavíkurljóð hefur verið spilað jafn oft í útvarpi eins og "Verst af öllu er í heimi, einn að búa í Reykjavík". Með því stimplar þú þig inn, sem Reykjavíkurskáld, án þess að mæra Esjuna og Sundin blá. Hefur Reykjavíkurborg nokkurn tíma sýnt þér og kveðskap þínum áhuga?

"Nei, og af hverju í ósköpunum, tókstu eftir hvernig mér tókst á síðustu stundu að stilla mig um að segja allt annað orð!, ætti að þakka þeim sem skrifar texta sem byrjar á þessum línum, og var þar að auki að segja þetta af hjartans einlægni. Það væri svona svipað og Raufarhafnarbúar færu að setja upp platta á staðnum þar sem Egill ömmubróðir minn var að vinna, þegar hann gerði Raufarhafnarvísurnar frægu."

Hvert var þitt fyrsta stefnumót við skáldagyðjuna?

"Ég kann rétt kveðna vísu sem ég gerði þegar ég var í barnaskóla, en við skulum láta hana eiga sig. Krókurinn beygðist snemma og þetta er klámvísa með nöfnum á fólki og hvað eina."

Áhrifavaldar, hvaða skáld hafa haft sterkust áhrif á kveðskap þinn?

"Þú ert svoddan Flóðhestamaður að þessi spurning ætti að vera óþörf. Ég var að skoða kverið á menningarhátíðinni um daginn og það hreinlega blasir við að þessi tilgerðarlegi unglingsbjálfi sem hnoðaði því saman, hefur lesið Stein Steinar sér til óbóta og hefur nýlega verið búinn að eignast Austan Elivoga eftir Böðvar Guðmundsson. Seinna meir færði ég mig kynslóð aftar í borgfirsku ættinni og las og les mjög gjarnan í ritsafninu hans Guðmundar Böðvarssonar þegar ég er þannig stemmdur. Stundum sé ég í textum eftir mig áhrif þaðan, en þau eru ekki augljós og ekki meðvituð."

Í kvæðunum Hvítar rósir og Við, tregar þú vanmátt þinn til að opna hjarta þitt konu, sem "brosir líkt og fugl sem flýgur hjá, fléttar léttum vængjum töfrasveiga." Ertu svona lokaður eins og kvæðin bera með sér?

"Æi, greyið vertu ekki að spyrja mig út í þennan tilgerðarlega rembing úr strákkvikindinu. En það er hins vegar alveg rétt, að ég læt fólk ekkert vera að rusla til inni í mér. Ég meira að segja tók þá ákvörðun á sínum tíma að skrifa aldrei skáldsögu, því ég kærði mig ekkert um að ég væri að snuðra ofan í skúmaskotum í sálinni, þar sem langfarsælast er að enginn sé neitt að þvælast."

Samstarf þitt við Ríó tríóið fer að fylla þrjá áratugi. Hvað eru textarnir margir, sem þú hefur samið fyrir það?

"Ég veit ekkert um það. Ég bý til texta, sumir fara á plötu, sumir gera það ekki. Þeir sem fara á plötu eru einhvers staðar til á skrá og þeir sem hafa áhuga á upptalningarlistum og þvílíku, geta fundið fjölda og nöfn, en ég nenni því ekki. En þetta er hálfur annar hellingur og meira en ein gomma."

Kjöftum okkur í kringum lögin

Það er mikil fjölbreytni í textunum. Galsi og kaldhæðni eru samt gegnumgangandi þráður í þeim. Þegar Ríó tríó bað um texta, settu þeir þér skorður eða hafðirðu frjálsar hendur með efnisval?

"Við Ríó menn vorum langt á undan okkar samtíð og jafnvel stundum framtíðinni líka, sem kannski er útskýrir af hverju hefur gengið svona illa að leggja Ríó niður, þó það hafi margoft verið reynt. Við höfum nefnilega allt frá fyrstu tíð haldið svona "Breinstorming" eða "Sköllsessíons" þegar vinna er að fara í gang við plötu. Við kjöftum okkur í kringum lögin, svona: "Hvað finnst ykkur vera í þessu lagi?" og þannig veltum við upp ýmsu hugsanlegu textaefni og hugmyndum.

Svo dettur mér kannski eitthvað allt annað í hug, þegar ég fer að vinna textana, eða ég rugla minnispunktunum og geri texta um eitthvert efni við allt annað lag en upphaflega var talið vera fullt af þeirri tilteknu stemningu, en það er nú bara það sem gerist þegar sjálfhverfur þverhaus er að reyna að hlusta á annað fólk og hugmyndir þess."

Er einhver einn texti, sem þér er kærari en aðrir?

"Nei, eiginlega ekki, og þó. Ríó tók fyrst til flutnings Álfkonuna og Vasahandbók piparsveinsins, sem voru til áður en samstarf okkar hófst, en fyrsti texti sem ég gerði beinlínis fyrir Ríó var "Tár í tómið" og mér þykir alltaf dálítið vænt um þann texta, þó ég verði að viðurkenna að mér finnst nú orðið að viðlagið sé svolítið gallað, pínulítið svona eins og rímið hafi kallað á síðustu línuna."

Í löngu samstarfi hefur væntanlega ýmislegt gengið á. Nú vita þeir sem þekkja þig að þú ert kröfuharður og skapheitur maður, sem segir skoðun þína umbúðalaust ef svo ber undir. Eru ekki einhver atvik, sem gaman væri að rifja upp?

"Nei, ég held að Ríó hafi bara aldrei hætt út af hurðaskellum og hasar í mér. En hins vegar höfum við gert marga skemmtilega hluti og ég lent í ævintýrum, sem annars hefðu ekki komið til. Eins og til dæmis í gamla daga þegar við vorum að taka upp "Verst af öllu" í stúdíói í Clapham og skáldið sat í gluggakistu og orti textana beint upp í kjaftinn á söngvurunum á milli þess sem hann hljóp út í offlæsensbúðina beint á móti að kaupa eldsneyti. Svo áratugum síðar fóru settlegir miðaldra herramenn í fína reisu til Dublinar og unnu þar við plötu og þar röltum við töluvert um og maður fékk að berja augum ýmislegt sem áður var orðið kunnuglegt í bókum og söngvum.

Eða þegar flogið var upp á Akranes í roki á 17. júní, korter aðra leiðina en fimm mínútur hina, nei annars, kannski það hafi ekkert verið skemmtilegt. Þetta var sami þjóðhátíðardagurinn og bíllinn bilaði á leiðinni á Flúðir og ferðin var kláruð á miklu minni bíl, þar sem sá sem ekki þurfti að standa á sviðinu á eftir hnipraði sig saman niðri undir gólfi með bassann hans Helga ofan á bakinu. Eða þegar... Hvað eigum við að hafa þetta langt?"

Það er endalaust hægt að spyrja, en við skulum láta þetta nægja í bili, sagði fréttaritari, ánægður með hvað hann hitti vel á skáldið.

Höf.: Erlingur B. Thoroddsen