Eftir Egil Ólafsson og Sigurhönnu Kristinsdóttur NOKKUR starfsmannafélög hafa sent Launanefnd sveitarfélaganna erindi með ósk um endurskoðun kjarasamninga.
Eftir Egil Ólafsson og Sigurhönnu Kristinsdóttur

NOKKUR starfsmannafélög hafa sent Launanefnd sveitarfélaganna erindi með ósk um endurskoðun kjarasamninga. Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, formaður nefndarinnar, ætlar að leggja til á fundi Launanefndar á miðvikudag að boðað verði til launaráðstefnu sveitarfélaganna til að fjalla um stöðuna.

Gunnar Rafn segir að erindi hafi borist nefndinni um endurskoðun samninga áður en Reykjavíkurborg gerði samning við Eflingu og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar um síðustu helgi. Síðan hafa m.a. leikskólakennarar og grunnskólakennarar bæst við. Samningarnir séu bundnir fram á haustið 2006.

Harðar umræður í stjórn

Harðar umræður áttu sér stað um nýgerðan kjarasamning borgarinnar á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær og segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri að sér hafi mislíkað sú umræða sem átti sér þar stað um að verið væri að setja efnahagsmál í landinu á hliðina með samningum borgarinnar.

"Ég taldi mjög mikilvægt að ná fram tveimur markmiðum með þessum kjarasamningum, annars vegar að hækka laun þeirra lægst launuðu og síðan að hækka laun kvennastéttanna til að minnka kynbundinn launamun. Það vekur athygli að það fer allt á hliðina í samfélaginu þegar verið er að semja við hóp sem er 85% konur og frekar lágt launaður hjá borginni. Ég tel að menn séu í einhverjum öðrum veruleika ef þeir segja þessa samninga raska ró efnahagslífsins, ég held að það séu allt aðrir þættir sem vega þar þyngra."

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri Akureyrar, segir að á fundinum hafi verið skipst á skoðunum um gildi samstarfs sveitarfélaga í Launanefndinni og nýjan kjarasamning borgarinnar. "Mat launanefndarmanna sem ég hafði heyrt í var það að þetta verklag Reykjavíkurborgar væri ekki í neinu samræmi við það sem menn höfðu komið sér saman um. Og ef svo er, spyr maður sig; til hvers erum við í samstarfi í launamálum ef sveitarfélögin treysta sér ekki til að standa saman um það sem þau eru áður búin að ákveða?"