Hannes Hólmsteinn
Hannes Hólmsteinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Í GREINARGERÐ sem lögmaður Jóns Ólafssonar lagði fyrir dóm í gær segir m.a.
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is

Í GREINARGERÐ sem lögmaður Jóns Ólafssonar lagði fyrir dóm í gær segir m.a. að íslenskir dómstólar geti ekki hróflað við niðurstöðu ensks dómstóls í meiðyrðamáli Jóns gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og tilraunir Hannesar til að fá íslenska dómstóla til að fjalla efnislega um málið séu haldlausar. Þá væri útilokað annað en að ummæli Hannesar hefðu talist meiðyrði hér álandi en málið verið höfðað í Englandi enda hafi Jón orðið fyrir tjóni þar í landi.

Í greinargerð Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hdl., lögmanns Jóns, eru jafnframt gerðar alvarlegar athugasemdir við aðilaskýrslu Hannesar og hún sögð brjóta gróflega í bága við réttarfarslög. Hannes hafi haft heimild til að leggja fram skýrslu en sú sem hann lagði fram fari langt út fyrir þá heimild, í raun og veru sé alls ekki um að ræða skýrslu um atvik máls heldur hreinan og kláran skriflegan málflutning sem að auki sé 40 blaðsíður á lengd. Þá innihaldi skýrslan áframhaldandi refsiverð meiðyrði, rógburð og brigsl í garð Jóns.

Það sé einnig alvarlegt að lögmaður Jóns skuli lýsa því yfir að aðilaskýrslan sé hluti af greinargerð hans en þar með geri hann innihald hennar að sínu. Er þess krafist að dómari sekti og ávíti bæði Hannes og lögmann hans, Heimi Örn Herbertsson hdl.

Enskur dómstóll dæmdi Hannes í sumar í 65.000 punda sekt fyrir meiðyrði sem birt voru á ensku á heimasíðu hans og til að greiða 25.000 pund í málskostnað. Fjárnám hefur verið gert hjá Hannesi vegna kröfu Jóns en hann skaut málinu til héraðsdóms og krefst þess m.a. að hinn enski dómur verði ekki viðurkenndur.

Lítil fyrirhöfn að gera athugasemdir

Í greinargerðinni sem lögmaður Jóns Ólafssonar lagði fram í gær er minnt á að England sé aðili að Lúganó-sáttmálanum sem kveður á um að dómar sem kveðnir séu upp í einu aðildarríki sé aðfararhæfir í öðrum ríkjum. Umræddur dómur uppfylli öll skilyrði sáttmálans og því eigi Jón að geta innheimt kröfuna án þess að til frekari málarekstrar komi hér á landi. Þá sé það misskilningur að Jón hefði þurft að höfða málið hér á landi enda hafi tjónið orðið í Englandi. Það sé þar að auki ekki undir íslenskum dómstólum komið að skera úr um hvar Jón hefði átt að sækja málið, það vald hafi verið í höndum enskra dómstóla. Þá er því mótmælt að stefnan eða dómurinn í málinu hafi ekki verið birt með réttum hætti og jafnframt er bent á að Hannes hefði með mjög lítilli fyrirhöfn getað tilkynnt hinum enska dómstól um varnir sínar eða athugasemdir, jafnvel með því að haka í kassa eða fylla í þar til gerðar eyður á sérstökum eyðublöðum.

Í greinargerðinni er því sömuleiðis hafnað að hinn enski dómur brjóti gegn allsherjarreglu hér á landi. Um leið og minnt er á að ekkert stoði að reyna að fá hinn enska dóm endurskoðaðan hér á landi er tekið fram að ummæli Hannesar teldust einnig meiðyrði fyrir hérlendum dómstólum. Ummælin hafi verið ósönn, tilhæfulaus og án nokkurs tilefnis af hálfu Hannesar. Með ummælum sínum hafi hann tekið að sér hlutverk sögubera ósannra fullyrðinga og kjaftagangs sem hann hafi sett fram gegn betri vitund eða a.m.k. af fullkomnu skeytingarleysi um réttmæti þeirra.

Þá er því sérstaklega mótmælt að tjáningarfrelsinu séu settar þrengri skorður á Englandi en á Íslandi. Tjáningarfrelsið sé verndað í stjórnarskrám beggja landa og Mannréttindasáttmáli Evrópu gildi í báðum löndum.